16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

198. mál, tollalög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu eitt af þremur viðamiklum tekjuöflunarfrv. þessarar ríkisstjórnar, frv. til laga um breytingar á tollalögum. Öll eru þessi mál borin fram af hæstv. núv. fjmrh. sem er formaður þess stjórnmálaflokks íslensks sem kennir sig við jafnaðarmennsku. Það stef sem þau eru samin eftir, eins og önnur veigamikil skattafrv. þessarar ríkisstjórnar, hefur þrjá megintóna: Einföldun, skilvirkni og réttlæti.

Við lestur frv. kemur í ljós að þriðji tónninn í stefinu er falskur. Hann syngur ranglæti í stað réttlæti. Og þessi falski tónn hljómar reyndar hæst í því frv. sem varðar söluskatt þar sem hæstv. fjmrh. hyggst leggja söluskatt á lífsnauðsynjar eins og matvæli. En að því mun ég víkja nánar síðar þegar það mál verður rætt.

Þessi frumvörp voru rædd á mörgum nefndarfundum í fjh.- og viðskn. deildarinnar en þar átti ég áheyrnaraðild. Kom til nefndarinnar fjöldi fulltrúa ýmissa hópa sem reyndar hefur verið minnst á hér áður í máli annarra og mun ég ekki hirða um að tíunda þá. Þetta voru hópar beinna eða óbeinna hagsmunaaðila og þeir gerðu grein fyrir máli sínu og var það ýmist að beiðni nefndarinnar eða að þeirra eigin ósk að þeir sóttu fundi hennar. Kom fljótlega í ljós að einungis takmarkaður hópur hagsmunaaðila hafði verið í viðræðum eða samráði við fjmrn. meðan á vinnslu frumvarpanna stóð, einkum við lokaáfanga verksins þegar síðasta mótun þess fór fram. Var þar um að ræða samstarfsráð Félags stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin og Verslunarráðið og Félag ísl. iðnrekenda. Má segja að málin snerti þessa aðila vissulega þar sem um er að ræða álagningu a innfluttar vörur og vörur framleiddar hérlendis.

Hins vegar kom einnig í ljós að ýmsir aðrir augljósir hagsmunaaðilar höfðu litla eða enga vitneskju um vinnslu þessara veigamiklu mála í ráðuneytinu, t.d. Alþýðusamband.Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsamband bænda og Samband ísi. samvinnufélaga. Voru allir þessir aðilar bæði vonsviknir og undrandi yfir því að engin samráð voru höfð við þá. Vissu þeir reyndar ekki af málinu fyrr en stjórnarandstaðan kallaði fulltrúa þessara samtaka á fund nefndarinnar, þ.e. þeir vissu ekki hvernig vinnslu málsins var háttað eða hverja stefnu það átti að taka þó að allir hefðu þeir grun um að þessi mál væru í undirbúningi hjá ráðuneytinu. Þetta er auðvitað mjög miður. En ég hygg að fjmrn. muni eiga kost á því að hitta a.m.k. fulltrúa sumra þessara hópa á næstunni, einkum þó og sér í lagi fulltrúa launþega sem munu eiga eitthvað vantalað við fjmrn. í náinni framtíð.

Annað er svo það er lýtur að almennum vinnubrögðum stjórnarinnar í þessum málum, en þau eru forkastanleg. Hér er dembt inn á þingið efnismiklum og flóknum málum sem varða hag allra landsmanna og gefst tæpast nokkur tími hvorki fyrir stjórnarliða né stjórnarandstæðinga til að kynna sér eða gaumgæfa þau, hvað þá að tóm sé til þess að láta sér renna í grun hverjar afleiðingar og hver áhrif þessi mál muni hafa nema að mjög takmörkuðu leyti. Meðan við þm. deildarinnar höfum verið önnum kafin við störf í deildinni í dag og á þingflokksfundum hafa komið hingað til deildarinnar margháttaðar brtt. eða fleiri en 40 tillögur frá meiri hl. í fjh.- og viðskn. Þessar tillögur eru auðvitað unnar af embættisfólki í ráðuneytinu og hefur varla gefist nokkur stund til að kynna sér í hverju þær eru fólgnar. Þetta nær náttúrlega engri átt og sýnir gleggst í raun hversu tæplega málin voru undirbúin og hversu illa var að þeim staðið að mörgu leyti að þau skuli þurfa svona mikilla breytinga við eftir að hafa verið hér einungis nokkra daga í meðförum nefndarinnar. Í raun er þetta frekleg móðgun við það lýðræði sem okkur er ætlað að vera fulltrúar fyrir hér á Alþingi. Það þýðir í raun að Alþingi sjálfu er óvirðing sýnd með svo hroðvirknislegum vinnubrögðum. Ég hlýt að mótmæla því. Reyndar langar mig að bera fram spurningu til hæstv. fjmrh. ef hann má vera að því að hlusta, en hann situr fund í hliðarherbergi: Hvers vegna koma málin svo seint til Alþingis? Er það vegna þess að hæstv. ráðherra er að skapa tímaþröng af ásettu ráði, af pólitísku bragði sínu, eða bragðvísi sem hann kynni að kalla, til þess að tryggja það að þau verði e.t.v. samþykkt vegna þess að svo naumur tími gefist til að gaumgæfa þau. Þorir hann hreinlega ekki að láta þingið hafa tíma eða tækifæri til þess að fletta í gegnum þessi mál og kynna sér þau náið? Er hann af ásettu ráði að skapa þessa tímaþröng eða liggja til þess aðrar ástæður? Hvers vegna koma málin svona seint?

Stjórnarandstaðan hefur reyndar valið að standa saman gegn þessum vinnubrögðum og leggur sameiginlega til á nál. á þskj. 310 að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við treystum okkur einfaldlega ekki til þess að vera samábyrg um svo hroðvirknisleg vinnubrögð, en teljum mun viturlegra og eðlilegra að málinu verði vísað til ríkisstjórnar svo að unnt sé að taka til við umfjöllun þess að jólaleyfi loknu. Þannig fær það og þessi mál öll ítarlega og vandaða umfjöllun, þá umfjöllun sem þau eiga skilið. Þessi ákvörðun stjórnarandstöðunnar, sem Kvennalistinn er aðili að, stafar ekki af því að við teljum það ekki sjálfsagt og brýnt t.d. að afgreiða þetta mál um breytingu á tollalögum. Við álítum það í raun óhjákvæmilegt að gildistöku nýrrar tollskrár verði flýtt, en með því skilyrði að meðferð málsins verði vönduð.

Og þá vil ég víkja að einu sem kom glögglega fram á fundum nefndarinnar í tali hagsmunaaðilanna sem heimsóttu hana. Þegar þeir voru spurðir beinna spurninga: Hvers vegna finnst ykkur liggja á því að samþykkja þessi mál nú fyrir áramót? Hvaða ástæður teljið þið til þess að brýnt sé að koma þessum málum í gegnum þingið núna fremur en að bíða þangað til eftir jólaleyfi? Þá kom í ljós að það voru í raun engar ríkar ástæður fyrir því að samþykkja þessi mál endilega núna, heldur virtust þessir menn, sem ekki eru inni á Alþingi, hafa þá skoðun að eini tíminn sem nokkur möguleiki væri til þess að fá eitthvað samþykkt í lagaformi út úr þessu Alþingi væri annaðhvort fyrir jól eða fyrir þinglok á vorin. Og þá vildu þeir fremur fá það fyrr en síðar, jafnvel þó að ýmsar villur og jafnvel slæmar villur og margar villur kynnu að slæðast með. Það var engin önnur brýn ástæða í raun og veru. Mér finnst þessar ástæður ekki nógu veigamiklar. Og mér finnst þessi vinnubrögð á þinginu ekki vera rétt. Það væri miklu eðlilegra að mál væru samþykkt með jöfnum hraða og unnið að þeim með jöfnum hraða, þau mál sem samstaða næst um, fremur en það skapist þetta öngþveiti, þessi vertíðartími, annaðhvort fyrir jólaleyfi þm. eða í lok þings á vorin, vegna þess að þetta kostar svo margar skyssur. Við höfum margreynt þetta. Á þeim stutta tíma sem ég hef starfað hér, undanfarin fjögur ár, hefur það margoft komið í ljós að veigamiklir lagabálkar hafa verið keyrðir í gegnum þingið á síðustu dögum þingsins og menn hafa jafnvel vitað til þess að í þeim voru miklir gallar en látið sig hafa það og ákveðið að reyna að taka málin upp síðar.

Ég legg sem sé áherslu á að það er ekki vegna andstöðu við þetta sérstaka mál að við leggjum til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er fyrst og fremst vegna þess að við teljum að málið þurfi að vinna betur. Flestum okkar hefur ekki gefist tóm til að gaumgæfa ýmsa þætti í þessu frv. Hefði ég kosið að hafa mun lengri tíma til þess að vinna upp t.d. brtt. en við kvennalistakonur höfum takmarkað okkur við ákveðin atriði sem okkur þykir vanta í þetta frv. og hin tvö, sem voru reyndar kærkomið tækifæri fyrir þessa ríkisstjórn að sýna nútímalega hugsun og nútímaleg vinnubrögð, t.d. með því að fylgja viðurkenndri manneldisstefnu, sem borin hefur verið fram hér á þinginu bæði á síðasta kjörtímabili og mun einnig verða gert á þessu þingi. Það þýðir ekki að hægri höndin geri annað en sú vinstri og öfugt. Þær verða að haldast í hendur því annars næst ekki árangur, hvorki í forvarnarstarfi í heilbrigðismálum né á nokkrum öðrum sviðum. Það verða að vera samræmd vinnubrögð ef árangur á að nást.

Til nefndarinnar barst reyndar erindi frá formanni Manneldisfélags Íslands. Erindi hans er í raun samhljóða þeim manneldismarkmiðum sem Manneldisráð hefur lagt fram. Mig langar, með leyfi hæstv. forsefa, að lesa þetta erindi vegna þess að við kvennalistakonur höfum ákveðið þó að það væri ekki nema sem sýnikennsla fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að hann virtist vera allsendis ófróður um þessi mál, enda hafði hann ekki hirt um að senda fulltrúa sinn á fund Manneldisfélags Íslands þegar það hélt ráðstefnu. Honum var sérstaklega boðið að senda fulltrúa sem hefði kannski getað tekið tillit til þessara sjónarmiða hefði hann sótt ráðstefnuna áður en frv. voru samin. En mig langar lítillega að víkja að þessu erindi sem er ekki langt og lesa það, með leyfi forseta:

„Formaður Manneldisfélags Íslands var boðaður á fund fjh.- og viðskn. Ed. Alþingis þann 14. des. 1987. Vegna þeirrar umræðu sem þar fór fram vill félagið koma eftirfarandi tillögum og skoðunum á framfæri:

Miðað er við tillögur ríkisstjórnarinnar um 25% söluskatt á matvælum og nær undantekningarlaust afnám tolla. Lagt er til að ákvarðanir um tolla, vörugjöld og niðurgreiðslur verði teknar með tilliti til manneldismarkmiða og það eru reyndar þær tillögur sem við berum fram við þessi þrjú frumvörp:

1. Grænmeti, nýir ávextir, brauð og grófar kornvörur, fiskur og fiskafurðir. Engir tollar eða vörugjöld verði lögð á þessar vörur. Félagið fær ekki séð að afnám tolla á grænmeti hafi áhrif á stöðu garðyrkjunnar í landinu því þegar íslenskt grænmeti er á markaðnum er í gildi innflutningsbann á viðkomandi grænmetistegundir. Ef álagning söluskatts leiðir til hækkaðs verðs á ofangreindum vörutegundum þá verði vörurnar niðurgreiddar. Ef niðurgreiðslum verður ekki við komið leggur félagið til að söluskattur verði lægri en 25% eða ekki lagður á þessar vörutegundir þannig að ekki komi til verðhækkunar.

2. Dilkakjöt. Við ákvörðun niðurgreiðslna verði tekið mið af því að dilkakjöt hækki eins og annað kjöt.

3. Mjólk og mjólkurafurðir. Niðurgreiðslum verði þannig hagað að fituminni afurðir lækki í verði. Er hér átt við vörur eins og léttmjólk, undanrennu, skyr, osta undir 20% fita, léttjógúrt og mysu. Léttmjólk skal þannig vera ódýrari en nýmjólk. Ráðstöfun þessi gæti leitt til hækkunar á vissum mjólkurvörum, t.d. viðbiti.

4. Sælgæti, gosdrykkir, aðrir sykraðir drykkir, t.d. maltöl, kex og safar. Tillaga ríkisstjórnarinnar er 14% vörugjald. Ákvörðun vörugjalds taki mið af því að vörur þessar hækki í verði fremur en að verð lækki eða haldist óbreytt. Undantekning frá þessu eru hreinir safar og er lagt til að ekkert vörugjald verði lagt á slíkar vörur. Einnig gæti komið til álita að vörugjald á ofangreindum vörutegundum yrði lækkað ef verð á sykri yrði hækkað, sbr. 5. tölul.

5. Sykur. Vörugjald á sykri verði ekki lægra en vörugjald það sem lagt verður á þær vörur sem fjallað er um í 4. tölul. Þá verði hæsti tollur, þ.e. 30%, lagður á sykur. Ef hæsti tollur er ekki bara lagður á sykur sem seldur er í neytendaumbúðum, heldur einnig sykur til iðnaðarnotkunar gæti orðið nauðsynlegt að setja toll á sykraðar neysluvörur, svo sem sælgæti, gosdrykki og aðra svaladrykki, kex, kökur og sultur. Tilgangur þessara aðgerða væri að tryggja að innlend framleiðsla yrði samkeppnisfær við aðrar innfluttar vörur. Ef tollur er lagður á sykur til iðnaðarnotkunar og sykraðar vörur kæmi til álita að lækka vörugjald sem nefnt er undir 4. tölul.

Að lokum má geta þess að æskilegt er að verðlagningu verði þannig hagað, að grófar kornvörur verði ódýrari en sigtaðar og fínmalaðar vörur, heilhveiti ódýrara en hveiti. Jafnframt að kökur og sætabrauð hækki í verði eins og aðrar sykraðar vörur.“

Við höfum að mörgu leyti tekið tillit til þessara sjónarmiða í þeim brtt. sem við höfum gert við frv. um breytingar á tollalögum. Því höfum við gert eftirfarandi breytingar við 2. gr. frv. og ég mæli fyrir brtt. sem fulltrúar Kvennalistans í deildinni flytja, þ.e. Danfríður Skarphéðinsdóttir og sú sem hér talar.

Það er þá í fyrsta lagi: Tollur á vörum í tollnr. 0701 — og til þess að hv. þingdeildarmenn geti fylgst með og viti hvað um er að ræða, því að hér fer svo margt fram þessa dagana sem erfitt er að glöggva sig á, þá er hér um að ræða grænmeti án þess að ég hirði um að telja upp tegundir - og ég vil vísa mönnum á bls. 17 í frv. um breytingar á tollalögum, það er 7. kaflinn um matjurtir og tilteknar rætur og hnýði, og þarna er fyrst og fremst um að ræða ýmsar tegundir af grænmeti og er gert ráð fyrir að tollur á grænmeti falli niður. Þetta á bæði við um nýtt kælt, fryst og niðursuðugrænmeti.

Síðan er í öðru lagi gerð brtt. á tollvörum með tollnr. 1701.1100 til 1703.9009. Þar er aftur á móti ekki felldur niður tollur heldur er lagður 30% tollur á og það er 17. kafli á bls. 40 um sykur og sætindi af öllu tagi. Ástæðurnar fyrir þessari álagningu eru fyrst og fremst þær að við Íslendingar erum mestu sykurætur í heimi. Þetta sykurát leiðir til þess að tannheilsa okkar er verri en flestra nágrannaþjóða og þjóða í okkar heimshluta. Þessi slæma tannheilsa stafar bæði af miklu sætindaáti, en einnig af lélegri tannhirðu. Og þarna er kjörið tækifæri til þess að hafa áhrif á tannheilsu barna einkum og sér í lagi, en auðvitað allra. Ég hirði ekki um að lesa nánar hverjar tegundir af sætindum þarna er um að ræða. Það geta þm. sjálfir gert því að ekki ætla ég að tefja þessa umræðu.

Þá gerum við í c-lið breytingar á tollskránni við tollnr. 2001.1000 til 2005.9000, en það varðar 20. kaflann á bls. 45. Þar er um að ræða framleiðslu úr matjurtum, ávöxtum, hnetum eða öðrum plöntuhlutum. Þar leggjum við til að tollur verði felldur niður. Og þetta varðar reyndar líka sætindi og gosdrykki.

Við höfum valið að gera ekki fleiri breytingar þó að ýmsar fleiri breytingar væru í raun bæði aðkallandi og freistandi. Það eru t.d. ýmsar vörur sem varða sérstaklega ungbörn og börn, og þá um leið foreldra ungra barna, og mundu koma sér mjög vel ef tollum af þeim væri breytt. Síðan væru ýmsar aðrar breytingar sem ástæða væri til að spyrjast fyrir um og vil ég þá sérstaklega nefna t.d. skriðdreka sem lækka úr 45 í 30% toll án þess að ég skilji hvers vegna. Geimför og skotvagnar fyrir geimför lækka úr 35% tolli í 0. Það eru ýmis önnur atriði af þessu tagi, t.d. lækka byssur og hernaðarvopn úr 60% í 30% toll. Ég býst ekki við að það sé mikill innflutningur á þessum tækjum þannig að það skiptir kannski ekki meginmáli fyrir ríkissjóð. Hins vegar er hér auðvitað um að ræða grundvallaratriði. Þarna er um að ræða grundvallaratriði í siðfræði þó ekki væri annað. Og það er líka um að ræða grundvallaratriði í pólitík.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, en vil einungis endurtaka að það er ástæða til að gera ýmsar breytingar við þetta mál. Það er engin ástæða til þess að tefja það í raun heldur á það skilið hinn vandaðasta málflutning og umfjöllun og þess vegna legg ég til að ríkisstjórnin fari með það heim til sín yfir jólin og þm. allir gaumgæfi það og komi síðan ferskir að jólaleyfi loknu og sinni málinu þá af alúð og afgreiði það fljótlega eftir að þing kemur saman á nýjan leik þegar nægur tími hefur gefist til þess að vanda vinnubrögðin eins og okkur sæmir og málunum líka.