16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

198. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. fjmrh. komst svo að orði í sinni ræðu, þegar hann fjallaði um starfsskilyrði atvinnuveganna og hafnaði hugmyndum um gengisfellingu, að ástandið væri þannig að það kallaði fljótlega á umfangsmiklar efnahagsaðgerðir. Það vekur að sjálfsögðu ýmsar spurningar hvað hæstv. ráðherra hefur sérstaklega í huga þegar hann tekur svo djúpt í árinni og væri ástæða til að fara nánar út í það hér hver staða atvinnuveganna er og eins um hitt hvað átt er við þegar talað er um peningamálin almennt og starfsskilyrði atvinnuveganna í því samhengi. Vil ég þá t.d. minna á það að við erum nú að fjalla um það með hvaða hætti hægt sé að samræma tolla- og skattakerfi þannig að aðstaða einstakra atvinnugreina og fyrirtækja sé jöfnuð. En ég hygg að það sé ekki nóg. Ég held t.d. að það sé mjög nauðsynlegt, ef maður vill fara út í starfsskilyrði atvinnuveganna, að velta því fyrir sér hvort atvinnuvegirnir, sem eiga í samkeppni við erlend fyrirtæki, erlenda aðila, eigi kost á því að fá lánsfjármagn á hliðstæðum eða sambærilegum kjörum og þeir sem hin innlendu fyrirtæki eru að keppa við. Eru t.d. hugmyndir ríkisstjórnarinnar þær að Útflutningslánasjóðnum verði gert kleift að veita íslenskum iðnfyrirtækjum peninga að láni með sambærilegum kjörum og sambærileg erlend fyrirtæki sem þau eiga í keppni við njóta? Við getum líka velt því fyrir okkur hvernig við getum uppfyllt það ákvæði í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að rétta hlut þeirra atvinnugreina, sem búa við óeðlilega erlenda samkeppni.

Ég vil í beinu framhaldi af þeim ummælum, sem hæstv. fjmrh. hafði hér uppi um það að nauðsynlegt væri að íhuga starfsskilyrði atvinnuveganna, vekja athygli á því að það er viðurkennt í Stjórnarráðinu, í fjmrn. t.d., að ein umfangsmikil atvinnugrein, skipasmíðaiðnaðurinn, búi við óeðlilega erlenda samkeppni í nágrannalöndunum þar sem lán til skipasmíðaiðnaðarins eru niðurgreidd. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að þegar við erum nú að tala um það að gengi íslensku krónunnar sé óvenju sterkt um leið og hann hafnar því að gengisfelling komi til greina, þá hlýtur athygli hans einmitt að beinast sérstaklega að því þar sem hann situr í fjmrn. með hvaða hætti hann geti jafnað samkeppnisstöðu íslenska skipasmíðaiðnaðarins þannig að hann geti búið við öryggi og sambærileg kjör og erlendis tíðkast í helstu nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Ég veit að hann og hæstv. viðskrh., sem mjög hefur látið sig stöðu skipasmíðaiðnaðarins varða og er maður sem hefur ráð undir rifi hverju, munu báðir leggja sig fram á morgun, þegar þessi mál verða tekin á dagskrá ríkisstjórnarinnar, að reyna með einhverjum hætti að komast að niðurstöðu sem sé vel við hæfi þess efnis sem ég var að tala um og sé í samræmi við þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. hér áðan í tengslum við þær umfangsmiklu efnahagsaðgerðir sem hann var að boða að rétti starfsskilyrði þessarar atvinnugreinar.

En, herra forseti, ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var alls ekki sú að gera ræðu hæstv. fjmrh. að umtalsefni þó að ég hafi ekki getað látið þessi ummæli eins og þau væru ósögð, þó svo að klukkan sé nú orðin 12 á miðnætti. Það hefur oft í sögu þingsins komið fyrir áður þegar ráðherrar fara að þreytast að þeir segja ýmsa hluti í lágnættinu sem þeir ætluðu kannski að geyma sér þangað til síðar.

Vegna þeirrar fsp. sem hv. 7. þm. Reykv. beindi til mín vil ég taka það fram sem við raunar öll vissum fyrir að jafnvel þótt vel sé að málum unnið og jafnvel þótt þeir menn sem eru í meiri hl. nefnda leggi sig alla fram, þá kemur samt sem áður fyrir að eitt og annað þurfi að leiðrétta. Ég vil vekja athygli á því að sú villa hefur slæðst í 6. kafla þessa frv. að óviljandi er með öllu skorin niður sú tollvernd sem þeir áttu að njóta sem stunda blómarækt og er nauðsynlegt að bæta þarna við nýju tollskrárnúmeri sem verði 0601.2002, og heitir pottaplöntur, sem verði með 30% tolli. Ég vil biðja hæstv. forseta að taka við þessari skriflegu brtt. og bera hana upp þannig að hún megi koma hér fyrir. (Gripið fram í: Voru þetta mistök?) Þessi leiðrétting er þannig til komin að garðyrkjubóndi fyrir austan fjall hringdi í mig nú um kvöldmatarleytið og benti mér á að þarna hefðu þessi mistök orðið.

Hv. þm. spurði mig fyrst að því hvort við hefðum orðið við tilmælum Sambands ísl. samvinnufélaga. Eins og hann veit þá hlustar maður nú alltaf eitthvað þegar þau samtök taka til máls. Oft hafa þau rétt fyrir sér og af þeim sökum hefur fyrsta athugasemd þeirra, þar sem lagt er til að orðalagið „annaðhvort á axi eða stilki“ breytist í: einnig þótt þau séu á axi eða stilki. Þarna var um rangþýðingu að ræða. Þetta er tekið inn í brtt., annað ekki.

Ég vil aðeins taka það fram varðandi það sem stendur á bls. 2 um söluskattinn að þar er talað um smásöluumbúðir, nánari skilgreining komi á hvað séu smásöluumbúðir. Ég er sammála þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að binda ekki í lögum skilgreiningu á því heldur hljóti ráðherra að geta skorið úr um það eða breytt þeim reglum sem í gildi eru ef greinilegt er að það eigi að fara í kringum lögin. Ég vil jafnframt vekja athygli á að óeðlilegt er að bygging heyturna sé undanþegin söluskatti. Það hafa einnig komið fram hugmyndir um að bygging fóðurstöðva sé undanþegin söluskatti, en ekki hefur þótt rétt að verða við því.

Almennar rekstrarvörur til útflutningsframleiðslu verða ekki að öllu undanþegnar söluskatti, en hins vegar mun virðisaukaskattur frádráttarbær þegar þar að kemur.

Þá er komið að því að um það var spurt hvað merktu brtt. frá og með bls. 2 og fram eftir. Fyrsta brtt. efst á bls. 2 lýtur að því að þar er einungis verið að auka rétt þeirra sem eru að flytja inn varning og útskýra frekar það sem þar stendur um kærufrest og annað og hið sama á við g-lið. Í h-lið er efnisbreyting sú að inn eru tekin orðin: enda hafi flutningsfar tekið höfn. Það er nú talið rétt að aðflutningsgjöld gjaldfalli ekki úti á rúmsjó og þótti rétt að taka inn að skipið yrði að vera komið í höfn áður til þess að forðast misskilning. Í i-lið er skotið inn „samkvæmt þeim aðflutningsgjöldum“ til frekari skýringar.

Síðan kemur j-liðurinn. Já, nú fer að byrja (GA: Ballið.) ballið já. Þetta skýrir sig sjálft, j-liðurinn: Ríkistollstjóra er heimilt að skjóta úrskurði tollstjóra til ríkistollanefndar á næstu þrem mánuðum eftir dagsetningu úrskurðar tollstjóra. Síðan kemur við 2. gr., a-liðurinn. Þar er verið að taka þrjú tollnúmer sem varða rjómaís inn í EFTA-meðferð, að það hljóti EFTA-meðferð en ekki EBE. Þessi tollnr. duttu niður við prentun. B-liður er í samræmi við ábendingu SÍS. C-liður. Þar er verið að leiðrétta prentvillu. Í d-lið gleymdist að segja að tollfjárhæð væri 0 og er úr því bætt. Í e-lið er prentvilla. Í f-lið er orðinu „ekki“ ofaukið og þótti rétt að nema það á brott. Í g-lið eru prentvillur. Í h-lið er bara einföldun og verið að slátra óþarfanúmerum í tollskránni. Í i-lið voru prentvillur, í j-lið prentvilla, í k-lið 1 er leiðrétting, nr. 2 prentvilla, tölul. 3 er nánari útlistun, nr. 4 leiðrétting.

Þá er 1-liður. Það er fallegra að nota orðið „pentudúkur“ en servíettur þó það sé að vísu rétt að öll orð í íslensku máli sem hefjast á p séu tökuorð ef farið er nógu langt aftur. En orðið pentudúkur er miklu penara orð en servíetta.

Í 1-lið tölul. 2 er verið að lækka umbúðir í ytri tolli niður í 0, í 3 er um leiðréttingu að ræða, m er leiðrétting. Það vantaði númerið í n og þótti ógreinilegt og er rétt að bæta því við. O er einföldun, í p vantaði númer, í q er prentvilla.

R-liður. Eftir stendur í því tollskrárnúmeri: sjúkravörur ótaldar annars staðar. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því að tollur sé lækkaður á þessum vörum þannig að ytri tollur verði 5% en 0 í EFTA.

Í s-lið er verið að tala um sekki og poka, strigapoka, umbúðir, stendur meira að segja umbúðir um vöru í tollskránni. Þar er ytri tollur felldur niður. Í t-lið hafði láðst að meðhöndla skíðaskó í samræmi við samninga okkar við EFTA og EBE. Þess vegna verða tollnúmer þar tilgreind með 15 og 0. Það er leiðrétting.

U-liður. Það er nú það já. Þar er verið að lækka ytri tolla af hlífðarhjálmum öryggisbúnaði, úr 15 í 0. Í v-lið er fjallað um leirkrukkur, leirpotta og annað því líkt og þótti rétt að ytri tollur, þegar þetta er í vísindaskyni, fari í 0.

X-liður 1 er leiðrétting, en í x-lið 2 er tolltaxti á hjólbarðakeðjum færður úr 30% niður í 0. Y-liður er leiðrétting. Z-liður. Þar er verið að færa tolla á álpönnum upp í 30% sem er aðlögun vegna ALPAN. Samsvarandi breyting er síðan gerð í bráðabirgðaákvæði sem er síðasta brtt. Nr. 3 er leiðrétting. Í z-lið er verið að fella niður tolla á vélum sem eru notaðar til matvælaframleiðslu og annars því líks. Í z-lið 2. Ég veit ekki hvort ég má segja við hv. þm. „smyglgjarnar“ vörur, en það eru sem sagt rakvélar, eggjárn og ýmislegt því líkt sem þar er verið að lækka. Þ-liður, prentvillur.

Við skulum sjá hvaða númer er nú á æ-inu aftur. Það er 85. Það eru ýmis rafmagnsáhöld sem þar er verið að lækka. Það eru tollgjarnar vörur. (SvG: Tollgjarnar?) Í ö-lið er um leiðréttingar að tefla.

Ég finn að hv. þm. finnur þann húmor sem er í þessu orði og mér þykir skemmtilegt að vita það að þótt hann sé þreyttur, hv. þm., heldur hann enn þá sínu skopskyni og kann rétt að skilja blæbrigði tungunnar sem mér þykir ánægjulegt. En mér þykir hins vegar leiðinlegt að hann skyldi hafa hringt í húmorslausa málfræðinga núna í kvöldmatnum þegar hann var að bera þetta orð undir vini sína.

Já, við skulum sjá. Var ég ekki kominn að ö-lið? Var ég búinn með ö-lið? (Gripið fram í: Já.) 3141, sjúkrabifreiðar eftir nánari skilgreiningu og ákvörðun fjmrn. Sá liður féll niður og var tekinn upp á nýjan leik. Í tölul. 5 er verið að breyta ýmsum varahlutum í bifreiðir sem hafa EFTA-meðferð í frv., en þarna er því breytt. Svo er tollalækkun á tengivögnum. Í staflið a.a við 90. kafla, tolltaxti í tollnúmerum 9005 til 9013. Þarna er um að ræða sjónauka og alls konar slíka hluti, stækkunargler, smásjár ef ég man rétt og ýmislegt af þeim toga. Sumt er áreiðanlega tollgjarnt og annað ekki vísindakennt nema hvort tveggja sé.

Svo er 3. tölul. Þar eru alls konar tilvísanir í lög o.þ.h. sem ég hef satt að segja ekki borið saman hvort rétt sé. En ég vil beina því til ef einhver má mál mitt hlýða sem er í fjmrn. að fara vendilega yfir þetta því það gæti illa farið ef þarna slæddist inn villa. Og 4 a er svo leiðrétting.

Þá held ég að þetta sé komið. Ég vona, herra forseti, að ég hafi með fullnægjandi hætti hlaupið yfir þau númer sem hv. þm. bað mig um skýringar á.