16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

198. mál, tollalög

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir greinargóðar skýringar á till. meiri hl. Hann hefði getað okkur til fróðleiks og skemmtunar bætt því við t.d. í sambandi við till. a.a, það er tolltaxti 9005, svona til fróðleiks að þarna er verið að fella niður af eðlilegum ástæðum það sem heitir í tollfrv. „sjónaukar fyrir bæði augu eða annað“. Þetta lýsir auðvitað mikilli víðsýni og skynsemi af hv. þm. að sjá af glöggskyggni sinni að það er rétt að fella niður tollana af báðum augunum í kíkinum úr því að menn voru að þessu á annað borð. En hv. þm. þurfti ekki að fara svona nákvæmlega í hlutina vegna þess að hann vildi að sjálfsögðu stytta mál sitt eins og kostur var sem er athyglisvert miðað við það málþóf sem stjórnarsinnar hafa haldið uppi í kvöld og einkum hæstv. fjmrh. Hann hefur talað hérna óskaplega lengi.

En það sem mér fannst kannski athyglisverðast við brtt. var það, þegar farið var yfir þetta, að þetta eru langmest leiðréttingar og prentvillur. Og það var eins gott að þessar till. voru þá gerðar þannig að hæstv. fjmrh. þarf ekki að gefa út brbl. bak jólum, ef þetta nær afgreiðslu fyrir hátíðar, um þessa liði. Ég hygg að þetta staðfesti kannski betur en flest annað það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að segja. Það er allt of lítil skoðun sem þetta fær hérna hjá okkur. Við hefðum þurft að hafa aðeins lengri tíma og hefðum þurft að vanda okkur aðeins meira og hefðum þurft að vaka lengur (Gripið fram í: Og vera betri hvort við annað.) Ég tala nú ekki um ósköpin, herra forseti. Ég hygg að þetta sé fyrst og fremst staðfesting á því að við höfum haft rétt fyrir okkur í því að gagnrýna þann mikla hraða sem er á málinu og ég hlýt að endurtaka að lýsa ábyrgð á hendur stjórnarflokkunum í þessu efni og vísa henni algerlega á þá og frá okkur.

Ætli hæstv. fjmrh. sé fjarri eða farinn heim að sofa? Það væri ekki verra að hafa hann, herra forseti. Ég sé hann ekki. Þó ég hefði tollfrjálsan kíki á báðum augum kæmi ég sennilega ekki auga á hann.

Herra forseti. Það sem ég vildi víkja þessu næst að eru þær athyglisverðu yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. gaf í nótt varðandi óhjákvæmilegar efnahagsaðgerðir um áramótin. Hæstv. ráðherra komst þannig að orði að ástandið í efnahagsmálum væri svo slæmt, einkum staða útflutningsatvinnuveganna, að það kallaði fljótlega á umtalsverðar efnahagsaðgerðir. Hann sagði að ríkisstjórnin hefði að undanförnu rætt við talsmenn útflutningsatvinnuveganna og það hefðu ekki komið fram tillögur hjá þeim eða kröfur um það sem hæstv. ráðherra kallaði „hefðbundna gengislækkun“. Nú hef ég eins og kunnugt er nokkra reynslu í að gefa gengisbreytingum nafn. Hins vegar hef ég aldrei talað um óhefðbundna gengislækkun, sem hlýtur að vera niðurstaða hæstv. fjmrh. að gæti komið til greina, og væri fróðlegt að hann lýsti því, ekki núna, ég er ekki að biðja um ræðu um það efni núna, en að hann lýsti því við tækifæri hvað væri „óhefðbundin gengislækkun“. Hæstv. ráðherra spurði: Hvað er þá til ráða ef genginu er ekki breytt? Hvað er þá til ráða? Og hann sagði réttilega: Það eru ýmsir þættir sem ríkisstjórnin ekki ræður við. Og þó að hróður hennar mætti fara víða eftir spádómum Seðlabankans að dæma um hina sterku krónu, sem menn hljóta að vera að kaupa í hrönnum í Tókýó og New York þegar þar verður opnað í fyrramálið, er ljóst að ríkisstjórnin ræður auðvitað ekki við breytinguna á dollar og þar er kominn áhrifamikill og veigamikill þáttur í því að breyta rekstrarskilyrðum útflutningsatvinnuveganna frá því sem var í upphafi ársins 1987 eða lok ársins 1986 þegar síðustu kjarasamningar voru gerðir og byggðu þá á því að það hefði verið tiltekinn krónufjöldi í dollaranum, mig minnir 40 eða 41 kr. eða einhvers staðar á milli 40 og 41 kr.– 41,60 er mér bent á úr sal sem ég hygg að þurfi ekki að vera fjarri lagi. En það er allmikil breyting frá þeirri tölu til dagsins í dag eða hvorki meira né minna en 6 krónur sem þarna fer út á sama tíma og það er alveg ljóst að útflutningsatvinnuvegirnir hafa orðið að borga aukinn kostnað frá því sem var í árslok 1986, bæði vegna kjarasamninga sem þá voru gerðir og þýddu hækkanir á árinu 1987 en líka vegna þess að það hefur orðið launaskrið víða í þjóðfélaginu, jafnvel hjá útflutningsgreinum til þess að halda fólki í samkeppni við verslunina, og auðvitað hafa útflutningsgreinarnar orðið að borga miklu hærri vexti en áður. Þannig er augljóst mál að rekstrarstaða útflutningsatvinnuveganna og þar með gengið er miklu veikara en var vegna þess að þegar allt kemur til alls er grunnur íslenska hagkerfisins sjávarútvegurinn og þau verðmæti sem þar verða til.

Hvað má þá gera? Hvað má þá til varnar verða? Hvernig gætu hinar umtalsverðu efnahagsaðgerðir orðið? Hæstv. fjmrh. nefndi þar tvennt: Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin reyndi það sem unnt væri til að hafa jákvæð áhrif á þróun kjarasamninga. Ég verð að játa það, herra forseti, að mér finnst að þær skattaálögur sem núna er verið að hvolfa yfir þjóðina séu býsna sérkennileg aðferð við að hafa jákvæð áhrif á þróun kjarasamninga. Ég held, sagt í fullri alvöru, að þær ráðstafanir sem nú er verið að afgreiða í gegnum þingið hafi neikvæð áhrif á þróun kjarasamninga á árinu 1987. Ég held að það sé alveg rétt, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði áðan, þó að ég sé ekki sammála öllu því sem hann sagði, fjarri fer því, að þegar kemur fram á árið 1988 muni menn í verkalýðshreyfingunni reyna að verja sig fyrir þessum skattahækkunum og þeirri verðbólgu sem nú er í gangi og yfirvofandi að geti aukist. Ég held þess vegna að það sé ekki rétt framkoma við verkalýðshreyfinguna í landinu að byrja á þeim ráð stöfunum sem nú eru að fara í gegn.

Í öðru lagi sagði hæstv. fjmrh. að það væri nauðsynlegt til að rétta við stöðu útflutningsatvinnuveganna að reyna að hafa jákvæð áhrif á fjármagnsmarkaðinn í landinu. Hæstv. viðskrh. sagði hins vegar í útvarpsfréttum núna í kvöld að það væri fráleitt að gera neinar ráðstafanir til að grípa beint inn í fjármagnsmarkaðinn. Hann sagði: Það er rétt að láta reyna á markaðslögmálin frekar. Það er ekki fullreynt nema þau geti leyst þetta, sagði hæstv. viðskrh. M.ö.o.: ríkisstjórnin hefur að mínu mati í báðum þeim tilvikum sem ráðherra nefndi áðan, að því er varðaði kjarasamningana og að því er varðar fjármagnsmarkaðinn, gert hluti, gripið til aðgerða sem eru neikvæðar og gera örðugra að halda genginu stöðugu með þeim ráðstöfunum sem ráðherra nefndi áðan. Þegar menn eru komnir þannig upp í horn að þessar leiðir eru ekki færar varðandi kjarasamningana vegna þess að almenningur verður að verja sig og þegar þessar leiðir eru lokaðar af frjálshyggjupostulunum í Alþfl. í sambandi við vextina er alveg ljóst að þessir menn gætu lent í því sem þeir kalla hefðbundna gengislækkun vegna þess að þeir finna engin önnur ráð.

Það er hins vegar rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að gengislækkun er skammgóður vermir. Gengislækkun þýðir verðbólgu undir eins. Gengislækkun hlýtur að þýða kauphreyfingar í landinu undir eins. Eftir tiltölulega mjög stuttan tíma mundu atvinnuvegirnir eftir gengislækkun standa svo að segja nákvæmlega eins og þeir stæðu fyrir gengislækkunina. Þess vegna er það skammgóður vermir. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra.

Ég held að í þessum efnum sé eina leiðin sú að grípa til víðtækra millifærsluaðgerða frá þeim atvinnugreinum sem hafa hirt milljarða króna í góðæri undanfarinna ára og flytja það til annarra atvinnugreina til að koma í veg fyrir gengislækkun. Það er hins vegar aftur á móti bannorð hjá íhaldinu að fala um eitthvað sem heitir millifærsluaðgerðir. Þegar allir eru búnir að segja nei, íhaldið er búið að segja nei, framsókn er búin að segja nei, Seðlabankinn er búinn að segja nei og launamenn eru búnir að heimta bætur fyrir skattahækkanirnar er því sennilega orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá hæstv. fjmrh., formanni Alþfl.

Þetta mál er hins vegar þannig vaxið að það er óhjákvæmilegt í framhaldi af yfirlýsingum ráðherrans áðan að hnykkja á því sem hann sagði, ítreka að hann boðaði umtalsverðar efnahagsaðgerðir fljótlega. Hann boðaði það. Það mál er nauðsynlegt að ræða nánar áður en þing fer heim. Er upplagt að ræða það undir umræðunum um fiskveiðistjórn. Það er upplagt að fara þá yfir þau mál. Mér heyrist líka að menn eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. séu að segja: Prófið þið núna þessar millifærsluleiðir. Þau skilaboð sem frá honum komu varðandi skipasmíðaiðnaðinn eru ekkert annað en millifærsluleið sem er eðlilegt og óhjákvæmilegt að grípa til meðan íslenski skipasmíðaiðnaðurinn býr við óheiðarlega samkeppni erlendis frá og mætti margt frekar um það segja.

Hv. 8. þm. Reykv. flutti athyglisverða ræðu áðan. Hæstv. fjmrh. svaraði þar nokkrum atriðum. Ég ætla satt að segja ekki að blanda mér í þá umræðu í einstökum atriðum núna þó að það væri full ástæða til, en ég ætla að fara fram á við hæstv. fjmrh. að hann afhendi okkur fyrir 3. umr. um vörugjald og söluskatt nákvæmar forsendur skattbreytinganna, tolla, vörugjald, tekjuskatt og annað, eins og fjmrn. reiknar þær út, ekki aðeins verðlagstilfærslurnar heldur líka áætlanir fjmrn. um hvað veltubreytingar í þjóðfélaginu þýða á hverjum lið, hvað eftirspurnarbreytingar í þjóðfélaginu þýða á hverjum lið. Til þess að geta svarað hv. 8. þm. Reykv. hygg ég að það sé óhjákvæmilegt fyrir hæstv. fjmrh. að hafa þetta á reiðum höndum lið fyrir lið. Og ég get tekið undir þær spurningar og gert þær að mínum. Mér dugar ekki, ég veit ekki um hv. þm. Eyjólf Konráð, almennur fyrirlestur um ríkisfjármálin. Ég hef heyrt mörg þannig erindi. Ég get sagt það alveg eins og er að mér þótti t.d. erindið sem hæstv. fjmrh. flutti áðan ekki verra en mörg önnur sem ég hef heyrt í þeim efnum. En til þess að geta brotið málið til mergjar, skilið það til fulls og vitað á hvaða forsendum þeir byggja alla sína talnaspeki, þessir mætu menn, og til þess að geta sannprófað hlutina, þá vil ég fá að sjá þessar forsendur lið fyrir lið og vænti þess að fjmrh. tryggi að við fáum þau gögn áður en 3. umr. um vörugjald og söluskatt fer fram.