20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

7. mál, blýlaust bensín

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja margt, enda kannski ekki beint þörf á því. En af því að hér er um umhverfisverndarmál að ræða finnst mér sjálfsagt að taka undir þetta og leiðinlegt að láta tillöguna ganga fullkomlega umræðulaust til nefndar því að hún er þörf og góð og ástæða til þess að vekja athygli á henni enn frekar en hv. 1. flm. gerði með ágætri ræðu sinni.

Þetta er nauðsynjamál og ekki ráð nema í tíma sé tekið. Blessað íslenska rokið og sjávarloftið gera það að verkum að við erum e.t.v. fullandvaralaus í ýmsu sem lýtur að umhverfismálum og það megum við ekki vera. Við berum öll ábyrgð á umhverfi okkar og eigum að vera vakandi í þessum efnum. Þeir þekkja það sem hafa oft farið um önnur lönd hvað þar bíður okkar, mengað loftið sem við þurfum að þola víða erlendis. Þeir sem búa við það alla daga geta ekki orða bundist þegar þeir koma hérna í hressandi loftið hjá okkur hér á Íslandi. En það má ekki gera okkur andvaralaus og ég vil taka undir það sem segir hér um þessi mál og taka undir efni tillögunnar og það sem í grg. stendur.