16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

188. mál, brunavarnir og brunamál

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það sem hér er flutt er í samræmi við tillögur stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins, þess efnis að brunavarnagjaldi skv. a-lið 1. mgr. 24. gr. laga 74/1982 verði breytt á þann veg að það reiknist af vátryggingarfjárhæðum fasteigna og lausafjár svo og samsettra trygginga sem hafa í sér fólgna brunatryggingu. Þannig verði brunavarnagjald óháð iðgjaldabreytingum brunatrygginga og innheimtist beint hjá hinum vátryggðu.

Fjárhagur Brunamálastofnunar hefur versnað mjög hin síðari ár. Mikil lækkun varð á brunatryggingum húsa í árslok 1985 og er nú svo komið að tekjur af brunavarnagjaldi nægja rétt rúmlega fyrir helmingi af kostnaði Brunamálastofnunar. Sú þróun, sem verið hefur á tekjum og gjöldum Brunamálastofnunar, kemur glöggt fram á því súluriti sem fram kemur í grg. frv. Má á það benda að á yfirstandandi ári eru áætlaðar tekjur Brunamálastofnunar 10 millj. kr. en útgjöld um 17 millj. kr.

Í frv. er gert ráð fyrir að brunavarnagjaldið nemi allt að 0,04 prómill af vátryggingafjárhæð brunatrygginga, sem gefur um 24 millj. kr. á núgildandi verðlagi á næsta ári, en í meðferð Nd. á málinu var lögð til sú breyting að í stað 0,04 prómill komi 0,045 prómill sem gefur 3 millj. kr. umfram það sem 0,04 prómill gefur og frv. gerði ráð fyrir. Samtals má því áætla að þessi breyting færi Brunamálastofnun í tekjur á næsta ári um 27 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Fram kemur í grg. frv. að af 5 millj. kr. fasteign má áætla að brunavarnagjaldið yrði um 200 kr.

Ég vil að lokum geta þess að þetta frv. hlaut samhljóða samþykki stjórnar og stjórnarandstöðu í félmn. Nd. sem og við afgreiðslu málsins í Nd. Ég vænti þess að frv. þetta nái fram að ganga fyrir jólaleyfi, en á það er lögð mikil áhersla.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.