16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

197. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað þetta frv. gaumgæfilega á fimm fundum samtímis því sem til athugunar voru frumvörp um breytingar á tollalögum og söluskatti og vísa ég til nál. um frv. til l. um breytingu á tollalögum og framsöguræðu um þá sem komu til fundar við nefndina og það góða starf sem starfsmenn fjmrn. unnu í þessu máli.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Auðvitað er vörugjaldið fyrst og fremst til að afla tekna fyrir ríkissjóð og eins og við heyrðum á ræðum hæstv. fjmrh. áðan gerir hann sér vonir um að geta skilað ríkissjóði með greiðsluafgangi á næsta ári og verður að reyna að hjálpa honum til við það.

Brtt. sem hér eru fram bornar og skýrast á þskj. 309 snerta annars vegar smyglgjarnar vörur. Mér þótti vænt um að mér fannst á undirtektum hv. 7. þm. Reykv. áðan í stólnum að hann væri smátt og smátt að fallast á orðið og er mjög ánægður yfir því. Hann er fljótur að finna hversu gott þetta orð er og ég veit að það verður honum tungutamt þegar frá liður og auðvitað til þess að verslunin færist inn í landið.

Að hinu leytinu er horfið frá álagningu vörugjalds á kökur og fyrir því eru þær tvær meginástæður að (Gripið fram í: Kökur eru góðar.) kökur eru góðar já og álagning vörugjalds veldur erfiðleikum þar sem framleiðslurásin er ekki mjög aðskilin frá brauðum og öðru sem framleitt er í bakaríum og eftirlit því mjög torvelt, en eins og við vitum stefnir okkar ágæti hæstv. fjmrh. að því að skattheimtan verði skilvirk og getur nefndin fallist á það sjónarmið hans og vill hjálpa honum við það.

Vegna þess sem hv. 7. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni áðan, þar sem hann sagði að ég hefði ekki gert nema fyrstu blaðsíðu í erindi Landssambands iðnaðarmanna nægilega góð skil, vil ég vekja athygli hans á því að hér er minnisblað landssambandsins varðandi vörugjald í málmiðnaði prentað í heilu lagi sem fskj. og svar ráðuneytisins við því sem ég vona að sé fullnægjandi bæði hv. þm. og málmiðnaðinum. Það er þarna skjalfast hvernig ráðuneytið vill bregðast við þessu erindi og þarf þá ekki að vera í vafa um það.

Ég vil aðeins út af brtt. minni hl. taka fram að 25% áætluð heildsöluálagning á innflutningi er nauðsynleg til þess að vörugjaldsstofninn sé sambærilegur við vörugjaldsstofn á íslenskum iðnaðarvörum sem bera vörugjaldið sömuleiðis. Við getum tekið t.d. súkkulaðiframleiðsluna í landinu, súkkulaðiiðnaðinn, og innflutt súkkulaði. Við verðum því annað tveggja að velja þá leið að áætla 25% heildsöluálagningu á innflutta súkkulaðið eða þá, ef við viljum hverfa frá þeirri álagningu, að lækka þá vörugjaldsstofn innlendu framleiðslunnar. Ég sem góður stuðningsmaður hæstv. fjmrh., sem vill hjálpa honum með sem flest, kýs auðvitað hærri álagningarstofninn og vil þess vegna velja þá leið að bæta 25% ofan á innflutninginn eins og gert er ráð fyrir í frv.