16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

197. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 311 birtist nál. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um vörugjald. Undir nál. ritar auk mín hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes og hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir stendur að nál. minni hl. Í nál. segir:

„Minni hl. leggur til að frv. þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að láta vinna frv. betur.

Fari svo að meiri hl. Ed. vilji afgreiða málið engu að síður áskilur minni hl. sér rétt til þess að flytja brtt. við einstakar greinar frv.

Með þeim kerfisbreytingum, sem hér er gert ráð fyrir, verður vafasamt að hafa vörugjaldið inni sem skattstofn fyrir ríkið. Þessi meðferð vekur upp spurningar um heildarendurskoðun. Hér er enn verið að dytta að í stað þess að gera róttækar breytingar.

Það sýnir best hvað þetta mál er illa undirbúið og þessi mál í heild að meiri hl. nefndarinnar telur sig strax á byrjunarstigi nauðbeygðan til þess að flytja 40 brtt. við frv. um tollamál sem þó hefur ekki verið lengur en eina viku til meðferðar í þinginu. Minni hl. lagðist gegn því að mál þessi yrðu afgreidd úr nefndinni svo fljótt, eftir aðeins nokkurra sólarhringa vinnu.

Minni hl. telur að í þeim viðtölum, sem nefndin hefur átt við alls konar aðila, hafi komið fram margt athyglisvert sem kalli á nánari skoðun. Eitt hið athyglisverðasta var það að ríkisstjórnin hefur gert sig seka um stórfellda mismunun gagnvart aðilum utan þings sem þurfa að fjalla um mál eins og þetta. Gleggsta dæmið er það að Félag ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, Verslunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda virðast hafa haft málið til meðferðar í þrjár vikur áður en Alþingi fékk að fjalla um það. Hefur fjmrn. staðið í viðræðum við fulltrúa verslunarinnar og iðnrekenda um málið. Aðrir augljósir hagsmunaaðilar, eins og Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsamband bænda og Samband ísl. samvinnufélaga, fengu ekki tækifæri til þess að fylgjast með gangi mála fyrr en stjórnarandstaðan krafðist þess að fulltrúar þessara aðila yrðu kallaðir fyrir fjh.- og viðskn. Ed.

Minni hl. telur að skoða beri þetta mál í tengslum við heildarálögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem ákveðnar hafa verið á undanförnum mánuðum. Þessar álögur eru sem hér segir:

1. Við myndun ríkisstjórnarinnar 3700 millj. kr. á ári.

2. Við framlagningu fjárlagafrv. í október alls um 2000 millj. kr.

3. Við meðferð fjárlaga við 2. umr. þeirra 2050 millj. kr.

4. Auk þess gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að víðtækari söluskattsstofn skili 400 millj. kr. í heildartekjur og að veltubreytingar milli ára skili um 600 millj. kr. Samtals er hér um að ræða auknar tekjur sem nema 8750 millj. kr.

Það er svo ein afleiðingin af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að gífurleg verðþensla hefur átt sér stað þannig að fasteignamat hækkar um 50 milljarða kr. umfram verðlagsforsendur sem þýðir auknar tekjur sveitarfélaga auk þess sem raungildi útsvara mun hækka á næsta ári.

Heildarskattgreiðslur verða því stærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en áður hefur verið um að ræða á síðustu 20 árum eða svo. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá Þjóðhagsstofnun í síðustu viku verða skatttekjur ríkisins á næsta ári um 24,7% af landsframleiðslu sem er hæsta hlutfall á tveimur áratugum.

Stjórnarandstaðan treystir sér ekki til þess að bera neina ábyrgð á hroðvirknislegri meðferð þessa máls þar sem Alþingi er sýnd einstök óvirðing og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Guðrún Agnarsdóttir hefur tekið þátt í störfum nefndarinnar og stendur að þessu áliti minni hl.“