16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

197. mál, vörugjald

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. þingdeildarmenn hafa væntanlega veitt athygli hef ég skrifað undir meirihlutaálit með þessu frv. með fyrirvara. Sama er að segja um næsta mál á dagskrá, söluskatt. Ég vil geta þess að fyrirvari þessi er almennur. Ég hef enga afstöðu tekið til efnis málanna og fallist á að gera það ekki við 2. umr. heldur hina 3., enda ljóst af því sem fram hefur farið hér í kvöld að upplýsingar skortir til þess að menn geti tekið efnislega afstöðu til málsins. Ég vil að þetta liggi ljóst fyrir.

Um almenna umræðu um peningamál, efnahagsmál, fjárlagagerð og annað slíkt, þá er þetta vissulega staður til að ræða þau mál, en það er ekki stund til þess.