16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

197. mál, vörugjald

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í minnihlutaáliti hv. fjh.- og viðskn. Ed., sem ég á hlutdeild að, leggjum við til, minni hl., að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Fyrir því eru gild rök þar sem hafi tollskráin verið illa unnin, þá er frv. til l. um vörugjald enn þá hroðvirknislegra en nokkurn tíma tollskráin.

Það er greinilegt þegar farið er yfir frv. að þar hefur nánast verið soðin saman einhver runa af tollnúmerum og síðan hefur verið verslað á milli hagsmunaaðila um hvaða vöruflokkar skulu undanþegnir vörugjaldi og hverjir ekki. Ég held að ekkert sýni betur en einmitt vörugjaldsfrv. hvernig hagsmunaaðilarnir, sem hafa fengið að taka þátt í þessum störfum, hafa getað mótað og haft áhrif á niðurstöðuna. Þessa gætir síður í tollskránni, sem við vorum að fjalla um hér áðan, en það er mjög bersýnilegt í þeim tillögum sem frv. til l. um vörugjald ber með sér, hvernig ákveðnir hagsmunahópar hafa getað stýrt því og mótað niðurstöðuna þannig að ákveðnir vöruflokkar eru undanþegnir vörugjöldum en aðrir vöruflokkar eru með vörugjöldum. Ég held að hvergi komi þetta betur í ljós en einmitt í þessu frv.

Ég geri vart ráð fyrir því að till. minni hl. hv. fjh.og viðskn. verði samþykkt, þ.e. að vísa frv. til ríkisstjórnarinnar til úrvinnslu og endurvinnslu, sem er þó líklega það skynsamlegasta sem við gætum gert í stöðunni. Síðan gætum við ætlað okkur að eyða drjúgum tíma eftir áramótin til að lagfæra þetta frv. og stefna að því að samþykkja nýja tollskrá og lög um vörugjald fyrir 1. mars. En við teljum samt öruggara að leggja fram strax við 2. umr. brtt. við frv. til þess þó að gera litla tilraun til að lagfæra frv.

Ég vil þó áður en ég fer að mæla fyrir þessum brtt. lýsa þeirri skoðun minni að hér var kærkomið tækifæri til að losa okkur við vörugjaldið. Ef rifjuð eru upp einkunnarorð hæstv. fjmrh., sem ég held að ég sé nú farinn að læra, þ.e. rulluna, að það sé verið að vinna að því að gera skattkerfið einfaldara, réttlátara og skilvirkara. Ég held ég sé búinn að læra þetta alveg rétt. Hefði ekki verið langeinfaldast að losa okkur alveg við vörugjaldið. Sannleikurinn er sá að þegar við byrjuðum að vinna í þessum tveim frumvörpum, því að það fer auðvitað ekki á milli mála að menn verða að skoða þessi tvö frv. í samhengi, tollskrána og vörugjaldið, sáum við að það væri tiltölulega auðvelt að koma vörugjaldinu inn í tollskrána, þ.e. leggja örlítið hærri tolla á nokkur tollnúmer, á nokkra vöruflokka og fleygja vörugjaldinu algerlega í burtu. Það hefði verið langskynsamlegasta og besta lausnin og þá hefðu þessi háleitu markmið hæstv. fjmrh. vissulega náðst.

Vörugjaldinu er ætlað að útvega ríkissjóði tekjur að upphæð 1,6 milljarðar kr. Þess vegna kann það að virka tortryggilegt að við flytjum brtt. um að fella vörugjöld niður af ýmsum vöruflokkum án þess að koma með neinar hugmyndir um með hvaða hætti við ætlum að leggja ríkissjóði til tekjur á móti. En þá vill svo einkennilega til, reyndar hefur það komið nokkrum sinnum fram í umræðunum í kvöld, að við það að ýmsar vörur verða ódýrari á markaði hér innan lands eykst sala þeirra og með hinum háa söluskatti, sem er á öllum sköpuðum hlutum, aukast tekjur ríkissjóðs við aukna sölu. Svo undarlega ber því við að með því að fella brott vörugjald af allmörgum vörutegundum er við búið að tekjur ríkissjóðs muni aukast. Þetta kann að virka mótsagnakennt, en þetta er engu að síður staðreynd sem væri mjög vert fyrir hæstv. fjmrh. og ráðgjafa hans að hugsa svolítið betur.

Á þskj. 326 eru brtt. við frv. sem við flytjum, þm. Borgarafl. í Ed. 1. liður þessara brtt. er að úr 3. gr. frv. falli brott eftirtalin númer og mun ég reyna að gera grein fyrir hverju númeri fyrir sig svo að þingheimur megi skilja hvað vakir fyrir okkur með því að leggja til þessar breytingar. Við leggjum að sjálfsögðu til að eftirtalin númer verði án vörugjalds.

Í fyrsta lagi er um að ræða tollnr. 3922.1000, en það eru baðker, sturtubaðker og handlaugar úr plasti. Við getum tekið næsta tollnúmer með, það eru 3922.2000, sem eru salerni og salernislok. Og síðan létum við fylgja með 3922.9001, sem eru plasthylki fyrir m.a. salernispappír og sápulög, og 3922.9009, sem er annað, væntanlega varahlutir í salerni og ýmislegt þar að lútandi.

Það er augljóst hvað vakir fyrir okkur með þessu. Við teljum afar einkennilegt að allt sem lýtur að þrifnaði fólks, að hreinlæti, þ.e. vörur sem tengjast hreinlæti og þrifnaði á heimilum, skuli bera vörugjald. Við áttum okkur ekki almennilega á því hvers vegna það á að gera þessar vörur, sem eru í húsum og íbúðum almennings, dýrari en nauðsyn krefur.

Nú veit ég vel að það að fella niður vörugjald af þessum vörutegundum mun e.t.v. ekki örva sölu þeirra því ég veit svo sem ekki hvað fólk skiptir oft um baðker, salerni, handlaugar og þess háttar. Því kann vel að vera að hér verði ekki um verulega tekjuaukningu með aukinni sölu á þessum hlutum að ræða þó við leggjum til að vörugjaldið verði fellt niður. En engu að síður teljum við óeðlilegt að það sé verið að leggja vörugjöld á þennan búnað sem er nauðsynlegur búnaður á öllum heimilum almennings og varðar þrifnað og hreinlæti.

Það má segja að næstu tvö númer eru tengd þessu. Það eru 6910.1000 og 6910.9000, en hér er um að ræða vaska, baðker og salernisskálar úr postulíni. Í seinna númeri er um að ræða „annað“ sem væntanlega geta verið varahlutir í þennan búnað. Þetta er af sömu rótum runnið. Við teljum óeðlilegt að leggja vörugjald á búnað til heimilanna, sem tengist þrifnaði og hreinlæti, að gera þessar vörur dýrari en nauðsynlegt er.

Næsta númer er 7324.1000, en þar er um að ræða vaska og handlaugar úr ryðfríu stáli. Nú mun vera einhver framleiðsla á vöskum úr ryðfríu stáli hér innan lands þannig að það kann að vera að gera þurfi sérstakar breytingar á tollskránni á móti, en látum það liggja á milli hluta við þessa umræðu.

Ég ætla að fara yfir í 7418.2000 og 7615.2000, en þetta eru hreinlætisvörur og hlutar til þeirra úr kopar og hreinlætisvörur og hlutar til þeirra úr áli. Við setjum aftur spurningarmerki við að setja vörugjald á hreinlætisvörur og hluta til þeirra, þann búnað heimilanna sem er tengdur þrifnaði og hreinlæti. Sérstaklega hvað snertir þessi tvö tollnúmer spyrjum við hvort það taki því að leggja vörugjald á þessi tvö númer. Heildarinnflutningur 1986 á koparvörum var um 1,3 millj. kr. og á hreinlætisvörum úr áli var heildarinnflutningurinn 1986 heilar 20 þús. kr. Þetta er nú aldeilis gjaldstofn að leggja vörugjald á. Þetta líklega réttir við halla ríkissjóðs þegar vörugjaldið fer að innheimtast af þessum 20 þús. kr. á hreinlætisvörum úr áli.

Það er búin að fara fram töluverð umræða um varahluti í þvottavélar. Það kom fram við umræðuna um tollskrána að hæstv. fjmrh. og aðstoðarmenn hans telja mjög eðlilegt að það séu tollar og einnig vörugjald á varahlutum í þvottavélar. En hins vegar er ekki talið rétt að setja tolla eða vörugjald á varahluti í uppþvottavélar, þurrkara og kælitæki. Þetta er rökstutt með því að þvottavélar, sem er um að ræða undir þessu tollnúmeri, séu aðallega notaðar á heimilunum, en uppþvottavélar séu notaðar vítt og breitt í atvinnurekstri. Ég skal viðurkenna að ég hef séð allmargar uppþvottavélar í hinum ýmsu salarkynnum Alþingis. Það eru dæmi um að uppþvottavélar eru vissulega notaðar á fjölmörgum vinnustöðum, en þvottavélar síður, þó svo að það fari kannski að koma að því að nauðsynlegt reynist að koma upp þvottavél í Alþingishúsinu svo þm. gætu átt kost á því að þvo skyrtur sínar þegar þeir eru orðnir sveittir af því að standa í umræðum kannski 10, 12 jafnvel upp í 15 tíma samfellt. Það kynni að vera gott að geta skroppið frá og þvegið skyrtuna sína og komið upp aftur.

Eins má líka benda á annað og það er að með því að hafa varahluti í þessar vélar mjög dýra er náttúrlega hætta á að þvottavélar verði ekki eins endingargóðar og ella. Þvottavélar eru allar innfluttar til landsins og kosta gjaldeyri. Það hlýtur að vera kappsmál fyrir okkur að reyna að nýta slíka hluti eins lengi og hægt er til þess að við séum ekki að eyða óþarfa gjaldeyri í að flytja þá inn til landsins. Ég hefði talið eðlilegt að hafa varahluti í þvottavélar án vörugjalds til þess að stuðla að því að þvottavélar entust lengur en annars.

Sömu sögu er að segja um tollnúmer 8509.9000 sem eru varahlutir í ryksugur og hrærivélar. Ef ekki væri tekið vörugjald af varahlutum í ryksugur og hrærivélar væri kannski minna um það að það kæmu hingað 13 ryksugur með einni flugvél frá Glasgow eins og dæmi eru um á undanförnum vikum.

Þá er það tollnúmer 8518.3000 og 8518.9000 en hér er um að ræða heyrnartól, eyrnatól og sambyggð hljóðnema- og hátalarasett og varahluti í það sama. Við leggjum til að vörugjald verði fellt niður af þessum hlutum, enda er hér um mjög „smyglna“ vöru að ræða. Það hugtak kom ekki fram í fróðlegri umræðu sem fór hérna fram fyrr í kvöld, þ.e. hvaða orð skyldi notað yfir varning sem ferðamenn taka gjarnan með sér í töskunum og reyna að koma fram hjá tollgæslunni. Það var stungið upp á „smyglrænum“ og „smyglnæmum“ vörum og „smyglgjörnum“. Einn hv. þm. í Ed. hvíslaði því að mér að það mætti líka hugsa sér að kalla þessar vörur smyglnar vörur. Ég sting upp á því að við höllumst helst að þessu síðasta orði og tölum um smyglnar vörur.

Mikið af vörum sem eru fluttar inn undir þessu tollnúmeri eru með undanþágum fyrir stærstu notendurna, þ.e. Ríkisútvarpið, aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar og upptökuiðnaðinn. Þeir sem þurfa því raunverulega að borga vörugjald og toll af þessum vörum eru að sjálfsögðu almenningur, sem kaupir slíkar vörur til heimilisnota, en stærstu aðilarnir, sem kaupa mest af þessum vörum, sleppa. Ég held aftur að aukin sala á þessum hlutum, ef vörugjaldið yrði fellt niður, mundi í raun og veru útvega ríkissjóði meiri tekjur vegna söluskatts en vörugjaldið gæfi.

Alveg sömu sögu er að segja um tollnúmer 8519.2100 og tollnúmer 8519.2900, en það eru plötuspilarar og snælduspilarar og varahlutir í það sama. Hér er um mjög smyglna vöru að ræða því að það eru mörg dæmi um það að Íslendingar gera sér beinlínis ferð til Glasgow til þess að kaupa t.d. geislaspilara. Er talið að með því að kaupa einn til tvo geislaspilara í ferðinni sé ferðakostnaður, flugfar og hótelkostnaður í Glasgow að fullu greiddur með því sem sparast. Þannig er það alveg augljóst að með því að fella niður vörugjald af þessum tækjum mundi sala þeirra aukast mjög hér innan lands. Ríkissjóður mundi fá mun meiri tekjur af sölu þessara tækja í gegnum söluskattinn en hann mundi fá í gegnum vörugjaldið.

Þá komum við að tollnúmeri 8520.2000 sem er símsvarar. Og skylt þessu er tollnúmerið 8520.3100 sem eru segulbandstæki fyrir snældur. Við viljum aðeins vekja athygli á því að símtækin sjálf, sem eru í tollflokki 8517.1000, eru komin í 0% toll. Og það er heldur ekkert vörugjald á símum. Við teljum því mjög eðlilegt að símsvararnir séu einnig án vörugjalds, sérstaklega þar sem á síðustu mánuðum er farið að flytja hingað inn símtæki með innbyggðum símsvara. Nú vandast málið hjá tollinum þegar á að fara að greiða tolla- og vörugjald af slíkum tækjum þar sem ekki er hægt að sundurliða hver er kostnaður símtækisins í þessum sambyggða hlut og hver er kostnaðurinn vegna segulbandsins sem er í símtækinu. Óska ég tollþjónustunni til hamingju með það þegar hún fer að ráða fram úr þeim vanda að taka á símum með innbyggðum segulbandstækjum, þ.e. þegar símsvarinn og síminn er eitt sambyggt tæki. Það verður mjög skrýtið að ráða fram úr því hvernig á að tolla það og leggja á vörugjald.

Tollnúmer 8527.1100 og næsta númer við, 8527.2100. Um er að ræða sambyggð útvarps- og hljóðupptökutæki. Hér gilda alveg sömu rök og ég hef fjallað um hér á undan, þ.e. þetta eru mjög smyglin tæki. Þetta eru oft og tíðum lítil tæki, sem er auðvelt að taka með sér í töskunni, mjög vinsæl ferðamannavara ásamt mörgu öðru sem sóst er eftir að kaupa inn ódýrt í nágrannalöndunum og taka með sér heim til Íslands. Hér gilda sömu rök og ég hef komið inn á áður. Ef vörugjaldið væri fellt niður af þessum vörum, þessum útvarpstækjum, mundi sala þeirra innan lands aukast það mikið að söluskattstekjur mundu áreiðanlega verða meiri en það sem tapast vegna vörugjaldsins.

Mig langar til að fjalla um erindi sem okkur barst frá Sambandi ísl. rafveitna til umfjöllunar í hv. fjh.og viðskn. Fulltrúar raforkuiðnaðarins í landinu og rafveitnanna komu á fund nefndarinnar og lögðu fram bréf, dags. 11. des. 1987, með umsögn um frv. til laga um vörugjald sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Samband ísl. rafveitna hefur fengið í hendur stjfrv. um vörugjald. Til að fara yfir frv. var efnt til fundar fulltrúa stærstu raforkufyrirtækja landsins, Landsvirkjunar, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitna ríkisins. Við athugun frv. kemur í ljós að stefna þess virðist sú að draga sem mest úr álögum á aðföng iðnaðarins í landinu nema þá helst þeirra vörutegunda sem af einhverjum ástæðum er talið nauðsynlegt að stýra kaupum frá, t.d. í hollustuskyni.“

Hér eiga fulltrúar raforkuiðnaðarins væntanlega við vörugjald á ýmsum vörum til gosdrykkja- og sælgætisgerðar. Þeim hefur hins vegar yfirsést sú stýring í frv. að stýra kaupum frá t.d. búnaði til þrifnaðar og hreinlætis sem af einhverjum ástæðum er talið nauðsynlegt eins og kemur fram í frv. Bréfið heldur svo áfram, virðulegi forseti:

„Undantekningar frá þessu eru einna helst nokkur tollskrárnúmer sem ná yfir mikilvæg aðföng raforkuiðnaðarins í landinu, tollnúmerin 8535, raftækjabúnaður, rofar o.fl., yfir 1000 volt. 8536, raftækjabúnaður, rofar, vör, liðar o.fl. fyrir 1000 volt. 8537, töflur, stjórnborð, tæki til rafstýringar o.fl. 8544, vír, kaplar og aðrir rafleiðarar með tengihlutum o.fl. Þessu vill Samband ísl. rafveitna mótmæla.

Með vísun til þeirrar stefnu að koma á samræmi í álagningu gjalda, þeirra almennu óska að halda raforkuverði sem lægstu og lækka með því útgjöld heimila og atvinnufyrirtækja, vill Samband ísl. rafveitna fara þess á leit við hæstv. fjh.- og viðskn. að hún hlutist til um úr ofangreindum misfellum á frv. verði bætt.“ Undir þetta rita fulltrúar Sambands ísl. rafveitna.

Við gerðum ekki neinar tillögur um að breyta þessu í þeim brtt. sem við leggjum fram á þskj. 326. Við reiknuðum með því að meiri hl. fjh.- og viðskn. mundi taka þetta að sér en ég hef ekki séð að þeir hafi gert það. Vil ég vekja sérstaka athygli á þessu og benda á hvað hér er raunverulega um alvarlegan hlut að ræða, þ.e. að rafveiturnar í landinu þurfa að greiða vörugjald af ýmsum þeim tækjabúnaði sem þær þurfa á að halda. Þetta hlýtur af sjálfu sér að hækka raforkuverð til neytenda sem getur ekki verið stefna hæstv. fjmrh. Ég vona að svo sé ekki, að ástæðan fyrir þessu sé sú að þeir hafi eitthvað á móti því, hæstv. ráðherrann og aðstoðarmenn hans, að raforkuverð til almennings og fyrirtækja hér á Íslandi sé haft eins lágt og hægt er. Nógu hátt þykir það sumum.

Ég mundi gjarnan vilja spyrja: Hvað væri því til fyrirstöðu að setja t.d. vörugjald á þessi númer, svo sem eins og á 3303, ilmvötn sem lækka úr 80% tolli niður í 0? Það er ekkert vörugjald á ilmvötnum. Margar konur sem ég hef spurt um þetta atriði núna undanfarna daga hafa sagt mér að þessi þungu ilmvötn, sem voru algeng áður fyrr, séu orðin úrelt. Ég minnist þess að þegar ég var drengur var ekki óalgengt ef maður nálgaðist virðulega eldri konu að hún væri umlukin skýi af þungu ilmvatni. Mér er tjáð að þetta sé eiginlega alveg orðið úrelt, konur noti ekki svo mjög þessi þungu ilmvötn nú, heldur sé um að ræða léttari efni úr einhvers konar úðunarbrúsum sem virka á allt annan hátt. Það væri því alveg óhætt að hafa smávegis vörugjald á ilmvötnum. Sömu sögu er að segja um 3304, varaliti og krem, ég held að það mundi alveg þola smávegis vörugjald.

Númer 3605 eru eldspýtur, 3606 kveikjaragas, 3926 styttur og skrautvörur ýmiss konar, 4016 ýmsar skrautvörur úr gúmmí, 4205 ýmsar leðurvörur, 4206 eru vörur úr þörmum — þó er skýrt tekið fram í tollskránni að það séu ekki vörur úr silkiormaþörmum — og 4813 er vindlingapappír. Ég held að það hefði verið allt í lagi að hafa vörugjald á honum. A.m.k. væri mér sama þótt hækkaðir væru mjög tollar og álögur á tóbaki og tóbaksvörum. Ég er lítt hrifinn af slíku en ég þykist samt vita að margir hv. þm. séu ekki sammála mér um það.

Svo er um að ræða 6406, legghlífar, 6505, annan höfuðfatnað, 6601, sólhlífar, 7013, skrautvörur úr gleri, 7326, skrautvörur úr járni, 8306, bjöllur og skrautmuni, 9504, myndbandsleiktæki og spil, 9505, hluti til jólahalds og töfrabragða, 9613, kveikjara, 9614, reykjarpípur. Ég tek aftur fram að ég er mjög sáttur við að leggja vörugjald á slíka hluti en það er einhverra hluta vegna ekki gert. Síðan er um að ræða 9616 en það eru ilmúðarar og duftpúðar, og tel ég að hv. þingkonur Kvennalistans séu mér sammála um að það gerði ekkert til þótt vörugjald væri á þessum liðum. Þeir eru tiltölulega ódýrir eftir þá breytingu sem verður gerð á tollskránni.

Eins mætti hugsa sér að fyrirtækin í landinu gætu vel borið vörugjald á áprentuðum umslögum og bréfsefnum, 4817, á reiknivélarúllum, 4823, 8304, skjalakössum og skrifstofubúnaði, 8469, ritvélum, 8470, reiknivélum, 8472, fjölritunarvélum, 8476, sjálfsölum. Númer 8517 eru símar og telex- og telefaxtæki og þá skyldi ég alveg vera sáttur við það þó að það sé vörugjald á símsvörum. Ég held að fyrirtæki í landinu mundu ekkert kvarta óskaplega yfir því þó að væri vörugjald á þessum vörutegundum. Þær mundu aðeins hækka í verði, en ekki svo mikið.

Þetta er nú sagt hér til þess að sýna fram á að hægt væri að leggja vörugjaldið á með allt öðrum hætti. Það er hins vegar mjög einkennilegt og athyglisvert þegar vörugjaldsfrv. er skoðað að nánast allar byggingarvörur, að einni undantekinni sem er steypustyrktarstál, eru án vörugjalds. Ég er mikið búinn að velta því fyrir mér hvernig stendur á því að nánast allar byggingarvörur, einkum byggingarvörur til hrábyggingarinnar, svo sem eins og timbur og annað, eru án vörugjalds, en steypustyrktarstál er með vörugjaldi.

Ég er að velta því fyrir mér hvort embættismenn og hæstv. ráðherra kunni virkilega það mikið í burðarþolsfræði að þeir geri sér grein fyrir því að með því að gera steypustyrktarstál eilítið dýrara er notuð meiri steypa. Það þýðir það að með því að hafa steypustyrktarstálið dýrara er yfirleitt valin sú leið að stækka steypuþversniðið, að auka steypumagnið. Ég er að velta því fyrir mér hvort það liggi einhver dýpri hugsun þarna á bak við, að þetta muni auka steypusölu innan lands. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn hverjum það mundi gagna, en þetta kom mér í hug þegar ég sá að sett var vörugjald á steypustyrktarstál. Það var afar einkennilegt.

Það er vörugjald á vír og þar á meðal er vörugjald á vír fyrir rafleiðslur fyrir 1000 volt og meira. Þarna er aftur verið að íþyngja raforkuiðnaðinum í landinu og rafveitunum. Þeim er gert að borga vörugjald af rekstrarvöru sem er vír fyrir rafleiðslur. Það er einkennileg árátta að hafa áhuga á því að stuðla að því að raforkuverð hækki í landinu. Þetta minnir dálítið á það sem var mjög áberandi og er væntanlega enn að raforkuiðnaðurinn í landinu hefur þurft að beita alls konar hundakúnstum til að sleppa fram hjá ýmsum óþarfa aðflutningsgjöldum, bæði tollum og vörugjaldi og söluskatti, til þess að reyna að halda raforkuverði til landsmanna niðri. Þannig hafa Rafmagnsveitur ríkisins þurft að fara út í það að hafa stofnlínur 132 kílóvolt í stað 66 kílóvolta lína vegna þess að það er hægt að fá felld niður öll aðflutningsgjöld af línum sem eru fyrir 132 kílóvolt en ekki af línum fyrir 66 kílóvolt. Það er alveg dæmigert fyrir hvernig yfirvöld líta á þessi mál að það hefur ekki með nokkru móti tekist í gegnum áratugi að fá þessu breytt. Hér er enn reiknað með því að rafveitur þurfi að greiða vörugjald af rafmagnsleiðslum. Ég vil biðja hæstv. ráðherrann og embættismenn hans að skoða þessa hluti betur.

Fulltrúar raforkuiðnaðarins greindu okkur einnig frá því að töflur og stýriskápar fyrir raforkuvirki eru með vörugjaldi en ekki hlutir í stjórnskápa og töfluskápa. Þetta veldur því, sögðu þeir okkur, að þeir neyðast til þess að biðja framleiðendur erlendis um að rífa þessa skápa alla í sundur því að svo ber undir að þegar þetta er flutt inn í lausum hlutum eru þessir hlutir án vörugjalds. Þegar á að flytja þessa flóknu skápa inn til Íslands, aðallega frá Frakklandi og Þýskalandi, til notkunar hjá rafveitum og raforkuverum er verið að bjástra við að rífa þetta allt í sundur í smáhluti, flytja þetta til Íslands og svo hnoða þessu saman hér aftur til þess að losa þessi fyrirtæki við að borga óþarfa vörugjald af þessum hlutum.

Ég skal fara að stytta mál mitt, hæstv. forseti. Ég held að ég hafi nánast lokið upptalningunni. Ég vildi kannski enda á því að spyrja hvers vegna vörutegund eins og ljósleiðarar er með vörugjaldi. Mér er ekki kunnugt um neinn annan aðila á Íslandi sem notar ljósleiðarakapla en Póst- og símamálastofnun, þeir eru notaðir til þess að skipta út úreltum símaleiðslum, en eins og öllum er kunnugt er núna unnið markvisst að því að tengja allar símstöðvar landsins með ljósleiðurum. Það vekur mikla furðu mína að það skuli sett vörugjald á ljósleiðara. Spurt er hvort hæstv. fjmrh. amist eitthvað við þessari þróun og hvort hann vilji stuðla að því að henni seinki.