16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

197. mál, vörugjald

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er orðið áliðið nætur hér og enginn í salnum nema við tvö, forsetinn og ég, en ég ætla samt að segja nokkur orð um vörugjald.

Eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. stend ég að nál. minni hl. fjh.- og viðskn., en þar sat ég fundi sem áheyrnaraðili, eins og komið hefur fram, í því máli sem hér var áður rætt, frv. til laga um breyting á tollalögum. Satt að segja, varðandi vörugjaldið, eru orðnar svo fáar vörutegundir eftir sem vörugjaldið er tekið af að það vekur upp hugsun um það að raunverulega þyrfti að fara fram endurskoðun á tilvistarrétti þess sem skattstofni fyrir ríkið. Þetta voru upphaflega mun fleiri vöruflokkar sem ætlað var að væru felldir undir vörugjald, en síðan var hreinsað til í vinnslu frumvarpanna og þarna eru einungis örfáir flokkar inni. Það er spurningin hvort þetta er ekki orðinn svo mikill hortittur að það eigi raunverulega að fella þetta inn í eitthvert annað gjald eða jafnvel e.t.v. að lækka það og setja það á fleiri vörur. En þetta eru fyrst og fremst vangaveltur.

Gerðar hafa verið breytingar af meiri hl. sem varða sumar þær vörutegundir sem áður voru með vörugjaldi.

Á fundi nefndarinnar komu ýmsir aðilar sem m.a. vöktu athygli okkar á því hversu sumar vörutegundir lentu í því að vera smyglað. Menn hneigðust til að smygla smáum hlutum sem hefðu á sér mikla tolla. Okkur var t.d. sagt frá því þegar menn smygluðu rafmagnsrakvélum eftir að lagður var lúxustollur á slíkar vörur. Könnun var gerð á því í Evrópulöndum eða Efnahagsbandalagslöndunum hvernig velta smáhluta eins og t.d. rafmagnsrakvéla breyttist eða verslun virtist hreyfast eftir því hvers kyns tollur væri á tækjunum. Að sjálfsögðu koma kannski margir aðrir þættir inn í þetta. Sem dæmi má taka að talsvert almenn tala í Efnahagsbandalagslöndunum var um 40 rakvélar á hverja 1000 íbúa. Eftir að settur var lúxustollur á slíka muni í Danmörku datt notkun á þessari ákveðnu vörutegund niður í 23 rakvélar á hverja 1000 íbúa og það var talið að Danir hefðu misst um 3 milljarða kr. veltu úr landi, ekki einungis auðvitað vegna þessa ákveðna tækis heldur annarra sem heyrðu undir þennan lúxustoll á raftæki.

Það kom líka fram að á Íslandi voru 12 slíkar vélar á hverja 1000 íbúa og þá eru meðtalin kaup í Fríhöfninni þar sem um það bil helmingur þessara tækja er seldur. Það leiðir hugann að því hvort mikið er af smygli á slíkum varningi hérlendis og það komu t.d. einmitt athugasemdir um það að nauðsyn væri að færa verslun inn í landið á varningi sem slíkum.

Þetta er sem sé til umhugsunar. Og það leiðir einnig hugann að því að þeir sem fara til útlanda hafa meiri tök á því að fá sér hlutina ódýrt en þeir sem minna ferðast þannig að þarna er um verulega mismunun að ræða.

Ég vil nefna líka það sem hefur komið hér fram að um er að ræða ákveðna hækkun sem verður á ýmsum raftækjum sem eru fyrst og fremst til heimilisnota og það vekur upp spurningar um það hvort ekki sé fullt eins gott að leggja svipað gjald á atvinnurekstur þar sem um er að ræða ýmis tæki eins og ritföng, ritvélar, alls kyns smávélar og hluti sem notaðir eru í skrifstofurekstur og fyrirtækjarekstur. Það má velta því fyrir sér hvort þessi atvinnurekstur geti ekki fullt eins vel greitt sinn skerf til samneyslunnar eins og t.d. heimilin í landinu sem þurfa að greiða talsvert meira en áður ef þessi þrjú frv. verða samþykkt.

Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja um þetta mál frekar þó að full ástæða væri til þess. Það hefur ýmislegt komið fram hér í umræðum sem ég ætla ekki að fara að endurtaka. Það er ástæðulaust. Ég ítreka það bara að ég stend að því nál. sem þegar hefur verið kynnt og mun ræða þessi mál enn frekar þegar kemur að því máli sem fylgir á eftir þessu, þriðja málinu í syrpunni, frv. til laga um breyt. á lögum um söluskatt.