16.12.1987
Neðri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

188. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til l. um breytingar á lögum nr. 74/1982, um brunavarnir og brunamál, frá félmn. Nefndin hefur athugað frv. og fengið til fundar Ingimund Sigurpálsson, sem er formaður stjórnar Brunamálastofnunar, Bergstein Gizurarson brunamálastjóra, Magnús E. Guðjónsson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Húnboga Þorsteinsson og Þórhildi Líndal frá félmrn.

Eins og hv. alþm. er ljóst er hér á ferðinni breyting á gjaldtöku í sambandi við að halda uppi þessari stofnun, Brunamálastofnun ríkisins. Það er verið að breyta hér gjaldstofni stofnunarinnar. Í gildandi lögum eru það tryggingafélögin sem inna af hendi ákveðið gjald miðað við ákveðna prósentu af innheimtum iðgjöldum sem var 1,75%. Miðað við þær breytingar sem hafa orðið á tryggingum og samkeppni tryggingarfélaganna um tryggingar hefur gjaldstofn þessi hrunið á undanförnum árum þannig að stofnunin hefur ekki fyrir nauðsynlegum rekstrarútgjöldum og hefur þannig safnað skuldum við ríkissjóð. Eins og kemur fram í grg. með frv. skuldar stofnunin nú allstórar fjárhæðir hjá ríkissjóði sem var samið um að endurgreiða á 2–3 árum.

Það var skipuð nefnd, eins og kom fram við framsögu hæstv. félmrh., til að fjalla um þetta mál. Niðurstaða nefndarinnar var að breyta þessu stofnkerfi, það er gert í samráði við alla aðila sem um þetta mál fjalla, og í staðinn fyrir að innheimta af iðgjaldi tryggingarfélaganna er lagt á sérstakt brunavarnagjald sem er í frv. gert ráð fyrir að nemi allt að 0,04 prómillum af tryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, en samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir um þennan iðgjaldsstofn er hann um 620 milljarðar á þessu ári en mun hækka í samræmi við verðlagsforsendur.

Samkvæmt frv. sem hér var til meðferðar var gert ráð fyrir því að þessar tekjur gætu orðið um 24–25 millj. kr. fyrir stofnunina. Það er hins vegar að mati nefndarinnar of lágt þar sem gera verður ráð fyrir að greiða verði að fullu þá skuld við ríkið sem stofnað var til eins og ég sagði fyrr og eins að stofnunin hefur ekki nema að hluta til getað annast það hlutverk, sem henni er ætlað samkvæmt lögum, að vinna að því að efla brunavarnir í landinu og vinna að umbótum á því sviði sem allir eru væntanlega sammála um og mikil þörf er á, ekki síst með tilliti til þeirra miklu brunaskaða sem verða, ekki síst í atvinnufyrirtækjum eins og frystihúsum svo sem hér hefur komið fram.

Nefndin var algjörlega sammála um að mæla með samþykkt frv. með einni breytingu sem er á þskj. 289. Það er brtt. um að í stað 0,04 prómilla í 1. gr. frv. verði í staðinn 0,045 sem þýðir 3–4 millj. kr. aukningu á tekjum stofnunarinnar miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir. Telur nefndin eðlilegt að hafa það hámark á þessari gjaldtöku.

Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar og er samþykkur þessu áliti. Undir nái. skrifa Alexander Stefánsson frsm., Jón Sæmundur Sigurjónsson fundaskr., Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Eggert Haukdal og Kristín Einarsdóttir. Nefndin leggur til að frv. verði þannig samþykkt.