16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

128. mál, sóknargjöld

Frsm. menntmn. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 297 um frv. til l. um sóknargjöld o.fl.

Nefndin hefur athugað þetta frv. og fengið umsagnir frá Biskupsstofu og ríkisskattstjóra. Þessar umsagnir voru án athugasemda.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem koma fram á sérstöku þskj., þskj. 298. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Sverrir Hermannsson, Ragnhildur Helgadóttir og Árni Gunnarsson.

Brtt. sem fram koma á þskj. 298 eru tveir liðir. Það er í fyrsta lagi breyting við 2. gr., um að 3. tölul. 1. mgr. orðist eins og þar segir. Hér er eingöngu um að ræða brtt. til samræmingar á orðalagi þessa liðar við liði 1 og 2 í frv.

Varðandi 2. lið brtt. er rétt að það komi fram að í umræðum í nefndinni var það nokkuð rætt að síðasta mgr. 3. gr., um hversu skuli skipta þessum gjöldum, gæti eða hefði valdið einhverjum misskilningi þannig að þeir sem í ákveðnum trúfélögum væru hefðu lent beint inn í þjóðkirkjuna við flutning búsetu. Því var brugðið á það ráð að fella niður í síðustu mgr. orðin „Búsetu og“ og í staðinn kæmi bara: Trúfélagsskráning miðast við 1. des. næst á undan gjaldári, en taka hins vegar inn til frekari skýringar í 1. mgr. 3. gr. að hún orðist svo: Vegna einstaklings sem skráður er í þjóðkirkjuna greiðist gjaldið til þess safnaðar sem hann tilheyrir og miðast við 1. des. næst á undan gjaldári.

Þessu var skotið inn til frekari skýringar ef mætti verða til auðveldunar við framkvæmd laganna, en eins og fyrr kom fram er nefndin sammála um þessa afgreiðslu frv.