16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

137. mál, launaskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því að Borgarafl. er andvígur þessum auknu álögum, launaskatti og mörgu öðru sem kynnt hefur verið, lagt fram, kynnt af hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja það með mikilli hryggð í huga að það er ekki ánægjuefni að sjá hve langt Sjálfstfl. lætur teyma sig í öfuga átt miðað við þá stefnu sem hann hefur haft í langan tíma, áraraðir, áratug og meira, áratugi ætti ég að segja. Ég harma á sama hátt og margir aðrir hugsandi menn í þjóðfélaginu að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar skuli skv. þessu frv. bera nýjan íþyngjandi skatt til viðbótar við það að líklega um milljarður, ef ekki meira, alla vega ekki langt frá milljarði, hefur þegar verið tekinn af atvinnuvegunum, fiskveiðunum aðallega, við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hætta við endurgreiðslu á söluskatti. Það er mjög íþyngjandi miðað við það sem áður var fyrir þann atvinnuveg. Til viðbótar kemur nú launaskattur.

Í athugasemdum við frv. segir, með leyfi hæstv. forseta, síðustu málsgr.: „Í frv. þessu er lagt til að greiða beri 1% launaskatt af vinnulaunum og þóknunum í starfsemi þeirri sem um getur í 1.–3. tölul. hér að ofan frá og með 1. jan. nk. Tekjuauki af launaskatti þessum eða vegna þessarar breytingar er talinn verða um 400 millj. kr. á næsta ári“ sem þýðir þá að það er tekjumissir fyrir útgerðina og sjávarútveginn í landinu, um a.m.k. hálfan annan milljarð, og það ofan á rekstrartap sem sjávarútvegurinn segist vera í um þessar mundir. Sem sagt: Hallalaus ríkissjóður skal það verða. Það skal yfirfæra hallann yfir á aukinn halla atvinnuveganna og halla heimilanna. Ég endurtek: Halla ríkissjóðs á að yfirfæra yfir á atvinnuvegina og yfir á heimilin.

Það er eiginlega sama hvað stjórnarandstaðan og hvað menn almennt geta sagt úr þessum ræðustól. Það skiptir engu máli. Alþýðuflokksstefnan, skattastefnan, vonskan út í mannfólkið skal ráða. Þar er ekkert tekið tillit til raka. Það eina sem fram kemur er: Við erum hinir sterku í augnablikinu. Hér er hnefinn. Og í gegn með allt íþyngjandi sem við höfum boðið upp á. Það þýðir ekki mikið að vara við skattgleði sem hv. síðasti ræðumaður talaði um. Hún læðist yfir þjóðina, ég mundi segja eins og nístandi köld vetrarþoka í hvert skúmaskot. Ég furða mig meira og meira á því að Sjálfstfl. lætur draga sig, lætur teyma sig lengra og lengra frá stefnu sinni í þessum málum.

Hæstv. forseti. Það er ekkert annað sem við getum gert en bent á hættuna sem í þessu felst og harmað að svo skuli komið að Alþfl. ræður ferðinni.