16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

137. mál, launaskattur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur lagt á flótta þegar ég kom í ræðustól, en það kæmi mér ekki á óvart. Ég vissi ekki að ég hefði slík áhrif á hann, en það hlýtur að vera svo.

Hér er lagt fyrir enn eitt frv. um aukna skattheimtu á þessa þjóð. Ég stóð hér upp í gær og rakti nokkuð stöðu sem komin er upp í undirstöðuatvinnugreinunum eins og þær eru títt nefndar og hún er ekki góð.

Í viðtali í gær í dagblaðinu Tímanum sagði Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, og ég ætla að endurtaka það, með leyfi forseta: „Ég held að það sé ekkert ofsagt. Bæði er að fiskvinnslan er komin í bullandi hallarekstur og ekki þarf að tala um annan útflutningsiðnað eins og t.d. ullariðnaðinn. Ég tel að því miður sé obbinn af atvinnurekstri þeim sem við (SÍS) og kaupfélögin í landinu stöndum í komin í bullandi hallarekstur og hann fer hratt vaxandi.“

Þá sagði forstjórinn enn fremur: „Það gerist ekki mikið í desember, en ég mundi segja að strax þegar kemur fram á nýja árið þolir málið ekki langa bið þangað til verulegt átak verði gert til að leiðrétta afkomuskilyrði undirstöðuatvinnugreinanna.“

Ríkisstjórnin er nú að leiðrétta afkomu þessara atvinnugreina með því að leggja á meiri skatta og ef marka má ummæli forstjóra stærsta fyrirtækis landsins, Sambands ísl. samvinnufélaga, er nú ljóst að ofan á allt það sem er fyrir þola þessar greinar ekki meiri álögur. Það á að leggja 400 millj. á þessar greinar. Það getum við séð að mun ekki bæta afkomuna. Ullariðnaðurinn er í miklum vanda staddur, fataiðnaðurinn er í miklum vanda staddur, sjávarútvegurinn er í miklum vanda staddur. Og það á einnig að leggja þetta gjald á vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi, fiskirækt.

Það er ekki ofsögum sagt að góðæriskreppa þessarar ríkisstjórnar ætlar að verða erfið. Henni hefur tekist að koma fjármálum þjóðarinnar þannig að fyrirtækin eru að sigla í strand út af gengisstefnu, út af vaxtastefnu, út af skattastefnu. Og þegar við komum fram á næsta ár mun blasa alvarlegur vandi við. Hvað mun ríkisstjórnin gera þá? Mun hún standa áfram á þessum málum eða mun hún láta atvinnuvegina sigla í strand?

Þetta er sú stefna sem nú er rekin og ég furða mig á að þeir sem telja sig málsvara atvinnulífsins í landinu og hafa gert um árabil skuli samþykkja þetta. Sjálfstæðismenn standa að því að leggja meiri skatta á þessi fyrirtæki og hafa þó um árabil sagst vera málsvarar atvinnulífsins í landinu. Það er furðulegt að góðæriskreppan skuli ætla að verða til þess að það eigi að sigla öllu atvinnulífinu í strand. Ég hef áhyggjur af því að þessi ríkisstjórn skuli standa þannig að málum að búast megi við því að í þessu góðæri verði verri afkoma hjá fyrirtækjum en nokkru sinni áður. Ég mun ekki standa og við í Borgarafl. að þessum álögum.