20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

31. mál, klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Um leið og ég tek undir þann áhuga sem býr að baki þessari tillögu um að koma á fót klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska hlýt ég að rifja það upp að þessi mál hafa verið hér til meðferðar á undanförnum þingum og sú meðferð hefur verið langt frá því að vera með þeim hætti sem æskilegt væri til þess að koma þessum málum á þann rekspöl, bæði rannsóknum og eldi í sambandi við sjávarfiska og raunar einnig vatnafiska, sem vert væri.

Ég held að gagnlegt væri fyrir hv. flm. að kynna sér það í sambandi við frekari meðferð málsins hvernig staðan er í þessu efni og hversu mikið vantar á að tekið hafi verið á þessum málum af stjórnvalda hálfu með þeim hætti sem æskilegt hefði verið. Það hefur staðið yfir um margra ára skeið togstreita á milli stjórnvalda, ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, um það hver skuli vera frumkvæðisaðili í sambandi við eldismál, fiskeldið. Þar hafa tekist á landbrn. og sjútvrn. sem á síðasta kjörtímabili og í tíð síðustu ríkisstjórnar voru undir forustu ráðherra úr sama flokki og í ríkisstjórn sem formaður þess flokks veitti forstöðu, en kjörtímabilið allt nægði þeim ekki til þess að ná samkomulagi um það hver skyldi sjá um hvað.

Ég flutti ásamt fleiri þm. ítarlega tillögu um þessi efni á þinginu 1983–1984, sérstaklega um rannsóknarþörf varðandi fiskeldi, þar á meðal og ekki síst eldi sjávarfiska, og henni fylgdi ítarleg ritgerð og mjög fróðleg frá dr. Birni Bjarnasyni sérfræðingi á þessu sviði, ég hygg einum fróðasta manni á þessu sviði sem hér starfar en hann er nú starfandi við Hafrannsóknastofnun. Tillögunni var vísað til ríkisstjórnarinnar þá um vorið, eða árið eftir kann það að hafa verið, alla vega var henni þangað vísað, en ekki nægði sú hvatning sem í tillögunni fólst til þess að stjórnvöld og þessi ríkisstjórn ynni sig fram úr málinu — svo að notað sé kannski heldur slæmt orðalag — þ.e. kæmi þessum málum í það horf af hálfu stjórnvalda hvað stýringu snerti og fjármögnun að vel horfði.

Síðan hafa verið fluttar ýmsar tillögur um fiskeldismálefni. Það hefur verið fjárfest mjög mikið í fiskeldi á þessu tímabili og við ættum að vera reynslunni ríkari. Þó er engan veginn séð hver afkoma þeirra fyrirtækja verður og hver útkoman verður úr þeirri miklu fjárfestingu sem hér hefur átt sér stað í fiskeldi, þó fyrst og fremst í laxfiskeldi, á undanförnum árum. Ég vil ekki leggja neinn dóm á það hér og nú hvert horfir í þeim efnum en margir hafa haft uppi hrakspár um að þarna sé of geyst farið og það vanti kannski alveg sérstaklega rannsóknarþáttinn í þessa starfsemi. Hafrannsóknastofnun hefur fyrir lítið fé verið að reyna að koma upp rannsóknaraðstöðu, í Grindavík að ég hygg, alveg upp á síðkastið, og það er sem sagt vísir að því sem þarf að koma, en þarna þarf að taka miklu betur á varðandi þennan þátt mála.

Þetta er í rauninni það sem ég vildi segja um þessa till. nú, virðulegur forseti. Varðandi grg. get ég tæpast látið hjá líða að gera kannski vissa athugasemd við þá útreikninga sem þar koma fram. Mér sýnist þeir eitthvað vera á tvísýnum forsendum og þar á ég við þá útreikninga að nýta hrognin úr einni hrygnu og, eins og þar segir, að þá þyrfti ekki nema 8500 hrygnur til að ala upp hrognin og þá hefðum við afla ársins 1986. Þetta held ég að sé ekki byggt á sterkum líffræðilegum forsendum, sérstaklega ef um hafbeit væri að ræða eða strandeldi þar sem kunnugt er að viðkoma þorsksins er jú mjög háð umhverfisaðstæðum og megnið af hrognum og seiðum fer forgörðum, en fjöldinn er einmitt það sem náttúran hefur tryggt til þess að viðkoma og viðhald stofnsins sé öruggt.

Virðulegur forseti. Ég var að fá í hendur þá tillögu sem ég var að vísa til frá þinginu 1983, 106. löggjafarþingi, till. til þál. um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra á þskj. 100 á því þingi, 91. mái. Ég ætla ekki að rekja efni hennar frekar en vísa þeim sem áhuga hafa á þetta þingmál.