17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

160. mál, vegamál við Siglufjörð

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 4. þm. Norðurl. v. leyfi ég mér að upplýsa eftirfarandi og byggi þá á umsögn frá Vegagerð ríkisins:

Svar við 1. lið, Strákagöng. Nokkurt vatnsrennsli úr veggjum og lofti er í Strákagöngum og hefur verið frá upphafi, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Veldur þetta skemmdum á steyptu gólfi ganganna svo og hættu á frostskemmdum, eins og að er vikið í fsp. og fram kom hjá fyrirspyrjanda. Til að vinna gegn frostskemmdum voru settar upp hurðir við báða enda ganga og hefur önnur þeirra verið endurnýjuð nýlega. Til þess að frostskemmdir eigi sér ekki stað í göngum þurfa hurðir að vera lokaðar yfir veturinn, en á því vill verða misbrestur. Nauðsynlegt er að endurnýja hina hurðina og gera stjórnbúnað beggja megin þægilegri fyrir vegfarendur.

Skemmdum á gólfi hefur undanfarið verið mætt með bráðabirgðaviðgerðum og fer ástand þess versnandi. Til að leysa þetta vandamál til lengri tíma þarf að endurnýja niðurföll og frárennsli og stýra leka úr lofti í niðurföllin. Með því móti væri tekið fyrir vatnsrennsli eftir gólfinu, en það er skilyrði þess að gera megi við gólfið með viðunandi árangri.

Að öllu samanlögðu er þetta umfangsmikið verk og að sumu leyti sérhæft. Mun kostnaður líklega nema tugum milljóna um það er lýkur. Vegagerðin hefur hafið undirbúning m.a. með þann möguleika í huga að verk þetta gæti tengst jarðgangagerð í Ólafsfjarðarmúla á hagkvæman hátt og þannig nýttist það fyrir bæði göngin.

Varðandi vegaskemmdir við Siglufjörð: Af fimm vegagerðarverkefnum sem unnin hefur verið að á þessu svæði sl. þrjú ár hafa tvö verkefni dregist verulega. Hinum þremur var lokið í september, tvö verk, og október. Umrædd tvö verk eru Mánárskriður og flugvallarvegur í Siglufirði og verður hér gerð stuttleg grein fyrir ástæðum þess að þau drógust á langinn.

Á árinu 1986 átti að ljúka gerð nýs vegar um Mánárskriður. Var hönnun og öðrum undirbúningi lokið í júlí það ár. Verk þetta krafðist stórvirkra tækja og reyndust heppileg tæki til þess ekki fáanleg fyrr en um haustið. Var samið við verktaka í október og stóð vinnan til 15. des. Lokajöfnun ásamt lögn malarslitlags fór svo fram í júníbyrjun sl.

Flugvallarvegur í Siglufirði var boðinn út í júní sl. Var síðan samið við Framtak sf., Siglufirði, og skyldi skilafrestur vera 30. sept. Reyndin varð sú að önnur verk þessa verktaka, m.a. gatnagerð á Siglufirði, drógust mjög á langinn og hófst vinna við flugvallarveg ekki fyrr en í lok nóvember.

Við þetta bætast vandamál varðandi malarefni. Vegagerðin taldi sl. vor að fengist hefði leyfi Siglufjarðarbæjar til töku malarefnis í námum bæjarins. Þetta leyfi hefur ekki fengist staðfest í haust og óvíst hversu miklum hluta verksins verður lokið á þessu ári. Leggja á klæðningu á þennan veg á næsta ári og gæti það dregist fram eftir sumri af þessum ástæðum.