17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

204. mál, afstaða Íslands til framkvæmdar afvopnunartillagna

Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er alla jafnan ekki svo að tillögur til ályktana á þingi Sameinuðu þjóðanna séu tilefni mikillar umfjöllunar á Alþingi eða úti í þjóðfélaginu og er það sjálfsagt miður að þessum málum sé ekki gefinn meiri gaumur í fjölmiðlum hér á landi eða á Alþingi. En í grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. des. sl. vekur Hreinn Loftsson lögfræðingur og aðstoðarmaður fyrrv. utanrrh. athygli á því m.a. að Ísland hafi breytt afstöðu sinni í einu tilteknu máli á því þingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir.

Hér er um að ræða tillögu frá Tékkum og Úkraínumönnum. (Þess má geta að Úkraínumenn eru að sjálfsögðu ekki sjálfstætt ríki heldur eitt af þeim aukaatkvæðum sem Sovétríkin fara með á þingi Sameinuðu þjóðanna. Hitt er atkvæði Hvíta-Rússlands.) En við afgreiðslu þessarar ályktunar í fyrstu nefnd og síðan á allsherjarþinginu sjálfu höfðu Íslendingar greitt atkvæði með tillögu þessari þó svo á fyrri þingum hafi atkvæði Íslands jafnan fallið á móti tillögunni.

Ég tel nauðsynlegt að það komi fram hér á Alþingi hvort hérna er um stefnubreytingu að ræða í þessu máli eða hvort hér eru á ferðinni einhvers konar mistök eða handvömm eins og flogið hefur fyrir á göngum í þinghúsinu. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram til utanrrh. eftirfarandi fsp.:

„Fól utanrrh. sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að greiða atkvæði með tillögu Tékka og Úkraínumanna um skilyrðislausa framkvæmd allra afvopnunartillagna sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt?

Ef svo er, hver er skýringin á breyttri afstöðu Íslands til þessa máls frá því á tíma ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og hvaða rök voru fyrir því að taka aðra afstöðu en t.d. önnur ríki Atlantshafsbandalagsins og norrænu ríkin fjögur?

Hefur mál þetta verið kynnt í utanrmn.?"