17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

204. mál, afstaða Íslands til framkvæmdar afvopnunartillagna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Að ósk minni í utanrmn. gerði hæstv. utanrrh. ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til afgreiðslu tillagna úr fyrstu nefnd allsherjarþingsins og það áður en atkvæði voru greidd í allsherjarþinginu sjálfu. Ég lýsti yfir sérstakri ánægju yfir þeirri breytingu sem fram kom gagnvart tíu tillögum frá hæstv. ráðherra, þar á meðal í þessu máli. Ég sé ekki að texti þessarar tillögu geti verið skaðlegur á neinn hátt, hvorki fyrir orðstír Íslands né utanríkisstefnu. Ég sé ekki betur en ráðherrann hafi í afstöðu sinni verið að fylgja eftir ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 og það sé nokkuð langsótt hjá hv. þm. Sjálfstfl. að vera að gera þar athugasemdir við. I þeirri ályktun er m.a. lýst því yfir að Alþingi fagni hverju því frumkvæði sem rofið getur vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.

Málefni Sameinuðu þjóðanna hafa verið hér á dagskrá, meðal annars að frumkvæði okkar alþýðubandalagsmanna. Ég minni á tillögu um svokallaða frystingu, stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins þar sem Sjálfstfl. stóð fyrir því að Ísland hefði sérstöðu með Bandaríkjamönnum á móti viðhorfum annarra Norðurlandaþjóða. Hæstv. utanrrh. hefur með réttu breytt þeirri afstöðu og við höfum lýst yfir ánægju með þá stefnubreytingu.

Ég held að hv. þm. Sjálfstfl. séu nefnilega frosnir í gamla kaldastríðsfarinu enn þá og hafi ekki áttað sig á breytingu sem orðið hefur í heimsmálum að undanförnu.