20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

31. mál, klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að hér er góðu máli hreyft. Það er auðvitað alltaf spurning hvernig á að standa að svona málum. Ég er t.d. í miklum vafa um að það mundi borga sig að setja á fót strandstöð með þorsk einfaldlega vegna þess hve lágt verð fæst fyrir þorskinn miðað við ýmsa aðra fiska sem við getum valið um. Þó geri ég ráð fyrir að það muni fást mikið meira fyrir eldisþorsk en þorsk sem er villtur, það verði öðruvísi vara. En það er bara tilfinning sem ég get ekki beinlínis fært rök fyrir.

Ég vil taka undir það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði áðan. Mér finnst þetta of þröngt. Ég held t.d. að einn álitlegasti fiskurinn fyrir eldi og sem þurfi að rannsaka sé bleikjan. Ég hef þá trú að hún sé enn þá álitlegri en nokkurn tíma laxinn. Það er vegna þess að það er hægt að hafa fjórum eða fimm sinnum meiri þéttleika í kerunum með bleikju en laxi. A.m.k. benda þær tilraunir sem gerðar hafa verið til þess. Þegar búið er að startala bleikjuna virðast vera mjög lítil afföll í þeim stofni, miklu minni en t.d. í laxinum. Og það fylgja henni ekki sjúkdómar, a.m.k. ekki eins miklir og virðist vera með laxinn.

Auðvitað er þetta byggt fyrst og fremst á tilraunum sem hafa verið gerðar í Noregi. Fyrir nokkrum árum voru þeir með marga bleikjustofna í tilraunum frá Grænlandi, frá Kanada, frá Íslandi, frá Skandinavíu. Ég held að þar hafi verið tólf stofnar. Það voru tveir eða þrír sem komu langbest út úr þessari tilraun og var íslenska bleikjan þar með.

Það er verið að rannsaka markaðsmál með bleikju og það bendir til þess að ef það er góð sjávarbleikja með slíkum einkennum sem hún hefur nýrunnin sé ekki langt frá að fáist það verð sem fæst fyrir laxinn. Og reynist það rétt — ég vil hafa fyrirvara á öllu vegna þess að það er verið að rannsaka þetta enn — held ég að þetta sé það álitlegasta.

Sandhverfan virðist vera líka mjög álitlegur fiskur til eldis, álitlegri en lúðan. Og það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. áðan, að klak á lúðunni hefur ekki heppnast. Það hafa aðeins lifað tvö seiði, sem hafa komist upp, þrátt fyrir nokkuð mikið fjármagn sem hefur verið lagt í það. Mér er a.m.k. tjáð að ástæðan sé talin vera sú að eins og hv. þm. vita sé lúðan djúpsjávarfiskur og hún þurfi mikið meiri þrýsting. Það sé ekki hægt að klekja henni út öðruvísi en það sé við lík skilyrði eins og eru úti í náttúrunni, í djúpum sjó. En af þessum tilraunum, sem er verið að gera, bæði á Reykjanesi og við Eyjafjörð, með lúðueldi mun sjálfsagt hægt að draga ýmsa lærdóma þegar fram líða stundir.

Það er líka margt sem bendir til þess að það sé hægt að ala bleikjuna í venjulegu köldu vatni með sæmilega góðum árangri. Ég fór í leiðangur upp í vötn á hálendinu og þar voru tekin sýni bæði urriða og bleikju og kannað hvað þetta væri gamall fiskur og hvernig ástand væri á þessum fiski. Þarna er um köld vötn að ræða. Og bleikjan var í ótrúlega góðu ástandi. Sex ára fiskur var í ótrúlega góðu ástandi sem bendir til þess að það væri hægt að ala hana í köldu vatni. Aftur á móti var urriðinn í mikið verra ástandi og hann var ekki orðinn kynþroska sex ára.

Ég hefði viljað mælast til þess að flm. að þessari till. mundu breyta tillögunni og hún væri ekki einungis bundin við sjávarfiska af þeim ástæðum sem ég hef hér komið inn á. Ég held að við verðum að reyna að fá áhættufjármagn með einhverju móti í svona eldisstöðvar, bæði með sjávarfisk og eins með t.d. bleikju. Og vegna þess að hv. 10. þm. Reykv. er í Þróunarfélagi Íslands bendi ég á að það væri alveg tilvalið verkefni einmitt fyrir Þróunarfélagið, vegna þess að bleikjan gæti styrkt mjög strjálbýlið ef niðurstöður yrðu jákvæðar, sem ég hef trú á að verði, og þetta væri verkefni bæði hvað snertir sjávarfiska og ferskvatnsfiska, að leggja fram fjármagn til að gera tilraunir um þetta eldi. Raunar skora ég á hv. alþm. að reyna að sameinast um það og finna leiðir til þess að koma slíkum stöðvum á. Og það á að finna þeim stað þar sem árangurs er að vænta.

Ég vil ekki níðast á hæstv. forseta, en ég hefði viljað ræða langtum lengur um þetta efni því að hér er sennilega á ferð eitt það mál sem gæti komið þjóðinni best að gagni ef rétt er staðið að málum. En því miður hefur það ekki verið gert.