17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

189. mál, ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Það er stutt stund milli stríða hjá 6. þm. Reykv. í dag, hæstv. forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri með þrjár fsp. þennan morgun. Ég hélt þær væru bara tvær.

Á sl. kjörtímabili var hæstv. þáv. forsrh. beðinn um skýrslu af núv. hæstv. félmrh. um ástand í fíkniefnamálum. Þessari skýrslubeiðni var svarað og henni fylgdi ítarleg greinargerð um ástand í fíkniefnamálum, í hinum ýmsu þáttum þeirra mála. Jafnframt fylgdi í kjölfarið nefndarskipun, sem hæstv. þáv. forsrh. setti á laggirnar þann 15. maí á árinu 1986, og var henni ætlað að samræma aðgerðir stjórnvalda til bóta í þessum málum, en í henni áttu sæti fulltrúar alls sjö ráðuneyta auk fulltrúa biskups Íslands. Nefndin hafði í raun fremur stuttan vinnutíma og vann ötullega og skilaði af sér skýrslu í mars eða apríl á þessu ári. Eitt af viðfangsefnum hennar var að kanna hvernig háttað væri löggæslu og tollgæslu í fíkniefnamálum því það er að sjálfsögðu veigamikill liður í því að hafa einhverja stjórn á þessum málum.

Það kom fram í þessari skýrslu um fíkniefnamál, sem ég vitnaði til áðan, að starfsemi fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hafi vaxið á undanförnum árum og sé mikilvægur þáttur í starfi lögreglunnar. Það kom einnig fram að skipulag þessara mála hefði riðlast vegna manneklu í lögreglunni og einnig vegna þess að húsnæði deildarinnar væri talið of lítið.

Á sl. kjörtímabili flutti Kvennalistinn brtt. við fjárlög til að auka við starfsfólki í lögreglunni til að sinna þessum málum því að það var talið að þar væru allt of fáir menn og hafði reyndar verið lofað af stjórnvöldum þá að gera eitthvað til að bæta úr í þeim efnum. Til þess að kanna hvernig þessi mál standa nú, því ég hef grun um að þarna sé unnin geysilega mikil yfirvinna vegna manneklu og að lögreglan geti varla sinnt þeim málum sem henni berast, hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um hagi ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar. Ég hirði ekki um að lesa þessa fsp., sem er í sjö liðum, en vísa til hennar á þskj. sem þm. hafa fyrir framan sig.