17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

189. mál, ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það var af ásettu ráði sem ég bar fram munnlega fsp. þó að ég sé sammála honum um að það hefði verið mun skynsamlegra að mörgu leyti að bera fram skriflega fsp., sérstaklega þar sem hún er löng og talsvert ítarleg. En þennan hátt hafði ég á vegna þess að ég vildi fá svörin fram núna áður en fjárlög eru afgreidd.

Eins og kom fram í máli hans eru þarna fáir menn sem vinna geysilega mikla vinnu á öllum tímum sólarhrings reyndar, og fara eftir upplýsingum og ábendingum sem að þeim berast og vita auðvitað ekki hver þeirra leiðir til fanga. Þau föng sem orðið hafa eru talsverð, eins og hæstv. ráðherra tilgreindi þegar hann taldi upp það magn og þá fjölbreytni af fíkniefnum sem lögreglunni hefur tekist að hafa hendur á.

Ég hef eins og hv. 9. þm. Reykn. einnig heyrt um mikið vinnuálag og að menn hafi ekki getað í raun fengið að sinna öllum þeim málum sem eru aðkallandi vegna þess að yfirvinnutímar hafi verið skornir niður og þeim hafi verið bannað að vinna lengur en ákveðinn tímafjölda. Þetta er kannski gert í vinnuverndarskyni til að vernda heilsu þessara manna. Kannski er það líka gert vegna þess að það er ekki til fé til að greiða þeim meiri laun. En hvort heldur sem er, þá er það ómanneskjulegt vinnuálag sem þeir hafa þurft að gegna en gert það vegna þess að þeir hafa viljað sinna þessum málum af elju og áhuga og það er ljóst að þeim þarf að sinna ef við ætlum að bera gæfu til að stjórna innflutningi fíkniefna í landið svo einhverju nemi því vitanlega er mun meira magn sem berst inn í landið ólöglega en nokkurn tíma eru hafðar hendur á.

Ég fagna því að fíkniefnalögreglan er á leiðinni í nýtt og betra húsnæði sem ég reyndar vissi að stóð til. Ég fagna því einnig að henni skuli standa til boða á næsta ári fjórar nýjar stöður. Það hefur reyndar áður staðið til að veita nýjar stöður, en þær hafa ekki orðið að veruleika. Því verður nauðsynlegt að fylgja því vel eftir á næsta ári að við þessi fyrirheit sé staðið.

Að öðru leyti mun ég ekki orðlengja þetta frekar, en þakka ráðherra fyrir skýr og greið svör.