17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

192. mál, ríkisfjármál og heilbrigðisáætlun

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvernig samrýmast nýlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. breytingar á söluskatti og tollum af matvælum, manneldismarkmiðum íslenskrar heilbrigðisáætlunar sem lögð var fram á síðasta þingi og áætlað er að leggja fram á því þingi sem nú situr?"

Það er og hefur alltaf verið ljóst að markmið á sviði skattamála og tilhögun skattlagningar hefur áhrif á fjölmörgum sviðum efnahags og þjóðlífs. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir snýst um hvernig ólík markmið verði samræmd.

Flestir eru sammála um að skattlagningu skuli almennt haga þannig að hún sé sem hlutlausust gagnvart neysluvali og framleiðsluaðferðum og að hún mismuni ekki framleiðendum. Undir þetta sjónarmið var tekið af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, málsvara Kvennalistans, í umræðum á Alþingi í gær.

Á hinn bóginn liggur líka ljóst fyrir að þessi meginstefna getur gengið þvert á hollustu eða atvinnusjónarmið eða markmið í verðlagsmálum svo að eitthvað sé nefnt. Tökum eitt lítið dæmi.

Í frv. til tollalaga er gert ráð fyrir að tollar á innfluttu grænmeti verði 30% þrátt fyrir þá meginstefnu að matvörur verði ekki tollaðar. Þar við bætist að innlendir framleiðendur njóta sérstakrar verndar þannig að innflutningur er ekki heimill þegar innlend framleiðsla er á boðstólum. Og af hverju er þetta svo? Grænmeti er talið vera hollustufæða. Það er m.a. af þeim ástæðum að það er líka meginstefna að fullnægja sem stærstum hluta fæðuþarfar landsmanna með innlendri framleiðslu. Það er líka óumdeilt að framleiðsla þessa hollustuvarnings er þýðingarmikil fyrir atvinnulíf í dreifðum byggðum landsins. Hvernig á að samrýma þessi þrjú ólíku sjónarmið sem þarna koma saman? Almenn stefna á sviði skattamála, læknisfræðileg sjónarmið og atvinnuspursmál fara þar ekki saman.

Annað dæmi: Ríkisstjórnin hefur ákveðið að niðurgreiða ýmsar mikilvægar neysluvörur þannig að þær hækki ekki vegna álagningar söluskatts. Meiningar eru mjög deildar um hollustugildi sumra þessara neysluvara sem þó eru mikilvægur hluti af daglegum kosti þjóðarinnar. Það er augljóst mál að til niðurgreiðslna er gripið til að halda aftur af verðlagsbreytingum í kjölfar þessara aðgerða. Niðurgreiðslur á feitu keti samrýmast kannski ekki markmiðum í manneldismálum. Á hinn bóginn eru þær og aðrar niðurgreiðslur óhjákvæmilegar með tilliti til hagsmuna tekjulágra eða húsbyggjenda sem illa geta borið hækkanir á vísitölu sem aftur ráða lánskjörum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sviði tolla og aðflutningsgjalda leiða til lækkunar lánskjaravísitölu sem er mikilvægt markmið ekki síður en það að stuðla að æskilegu mataræði. Þannig mætti áfram telja.

Mergurinn málsins er þessi: Með þeim aðgerðum sem koma til framkvæmda um áramót er stigið risastórt skref í endurbótum á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Þessar aðgerðir munu reynast heilladrjúgar í allri framkvæmd skattakerfis og til skattaeftirlits sem nánast hefur verið hornreka í viðjum flókins kerfis undanþága og sérákvæða. Þessar aðgerðir samrýmast að nokkru manneldismarkmiðum með því að nýtt vörugjald leggst fyrst og fremst á sætindi og sykurvörur.

Á hinn bóginn er ljóst að markmiðum á þessu sviði verður ekki náð til fullnustu með skattalegum ívilnunum. Þar eru okkur takmörk sett vegna annarra markmiða. Við verðum þess vegna líka að sækja að settum markmiðum á sviðum manneldismála eftir öðrum leiðum, fyrst og fremst með miðlun upplýsinga til neytenda sem sjálfir eiga að ráða neysluvali sínu. Þetta starf eiga stjórnvöld að efla í góðri samvinnu við neytendur og áhugafólk.