17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

192. mál, ríkisfjármál og heilbrigðisáætlun

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þessi svör, en ég hafði heyrt talsvert af þeim áður í umræðum í Ed. í gær. Sú forgangsröð sem hæstv. ráðherra og hans ráðsmenn hafa valið fylgir í raun gömlu neyslumynstri ef við lítum einungis á manneldissjónarmiðin. Niðurgreiðslurnar eru náttúrlega fyrst og fremst til þess að styrkja landbúnaðinn, en þær hafa ekki beinlínis neytendur í huga. Það neyslumynstur sem þar er verið að verja er ekki lengur algengt meðal fjölskyldna á Íslandi og allra síst láglaunafjölskyldna sem hafa ekki efni á því að kaupa það dilkakjöt sem þarna er boðið upp á.

Síðan eru ýmsar aðrar vörur sem hefði mátt skattleggja, eins og sykur og sætindi, meira en gert var. Þær eru í raun orsök fyrir slæmri tannheilsu Íslendinga. Við erum einna mestu sykurætur í heimi og bíðum af því tjón á tönnum okkar, ekki síst börnin okkar sem hafa fleiri skemmdar tennur en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum. Þarna hefði t.d. mátt velja vænlegan skattstofn.

Ég viðurkenni að oft stangast á sjónarmið margra, eins og t.d. ríkissjóðs og garðyrkjubænda, sem hæstv. ráðherra nefndi í máli sínu, enda fluttu kvennalistakonur brtt. við þessi lög einmitt til að auðvelda neytendum að ná fersku grænmeti á markaði hér meðan ekki fæst grænmeti frá íslenskum framleiðendum, en reyndum hins vegar að koma til móts við þá síðarnefndu með því að fella niður aðflutningsgjöld af fjárfestingarvörum til þeirra því að það er rétt hjá ráðherra að það þarf að gæta margra sjónarmiða. Hins vegar er pólitík ekki bara að vilja, eins og hann sjálfur hefur oft sagt og vitnað í Olof Palme heitinn. Pólitík er líka að velja, að velja forgangsröð. Og að mínu mati og margra annarra hefur hæstv. ráðherra og hans félagar valið rangt með tilliti til viðurkenndra manneldissjónarmiða, en þeir áttu kost á því að velja betur og jafnvel gæta annarra sjónarmiða í leiðinni.