17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

192. mál, ríkisfjármál og heilbrigðisáætlun

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þegar menn hafa vondan málstað að verja er gripið til ýmissa ráða. Mér heyrðist hæstv. fjmrh. leyfa sér að nýta orð mín, sem fram komu í ræðu í gær, til stuðnings stefnu sinni og þeirri forgangsröð sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið. Ég mótmæli þeirri túlkun, sem mér fannst koma fram í orðum hans, og minni á að ég tók einmitt fram að þrátt fyrir að það hlyti að vera meginmarkmið að mismuna ekki hvað aðstöðu atvinnugreina varðar yrði að taka tillit til aðstæðna. Og í því máli sem hér er til umræðu er réttlætið í okkar huga ofar einfölduninni eins og í svo mörgum öðrum málum.