17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Fyrir rétt um ári var fræðslustjóra norður í landi fyrirvaralaust vikið úr embætti, sakaður um, að vísu ranglega eins og síðar kom í ljós, að hafa farið nokkrar milljónir fram úr fjárveitingum þess árs við sérkennslu barna í sínu umdæmi. Nú stendur Alþingi og þjóðin frammi fyrir því að 1 milljarði af almannafé hefur verið eytt og sóað með ýmsum hætti án heimilda og enginn verið rekinn. Og það sem meira er, eins og ljóst er af ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan og ummælum ýmissa annarra aðila sem tengjast byggingunni: Enginn telur neitt athugavert við þetta. Þetta er allt í fína lagi. Svo er verið að tala um Jón og séra Jón!

Ég verð að segja að ræða hæstv. utanrrh. áðan kom mér á óvart og er ég þó búinn að þekkja manninn um allnokkurt skeið. Svo aumleg var frammistaða hans hér í ræðustóli að hún var verri en skýrslan sem hann lét dreifa í gær og er þá mikið sagt. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, áður en ég fer yfir þetta mál í heild sinni að víkja nokkrum orðum að framlagi hæstv. utanrrh. hér.

Hann sagði að vísu að hann hefði ekki miklu við skýrslu Ríkisendurskoðunar að bæta og harmaði nokkrar prentvillur í þeirri skýrslu sem hann hafði látið dreifa. Ja, væri það svo gott að ekkert væri að þeirri skýrslu nema prentvillur mætti hæstv. utanrrh. þakka sínum sæla.

Það er þannig, eins og öllum verður ljóst sem bera saman þessar tvær skýrslur, að þær eru í algerri mótsögn hvor við aðra frá upphafi til enda, bæði hvað varðar meðferð talna, meðferð upplýsinga og sérstaklega þó ályktanir sem dregnar eru af málinu. Þannig segir í lok skýrslu utanrrh., sem hann hefur lagt hér fram að beiðni nokkurra hv. þm. úr stjórnarandstöðunni, að í þessari skýrslu, eins og glöggt má sjá, komi fram að flestar þær fullyrðingar, sem fram hafi komið síðustu daga, vikur og mánuði um byggingarframkvæmd og byggingarkostnað Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, séu rangar. Og ég verð að segja að það gengur ekki hjá hæstv. utanrrh. að ætla að halda því fram að hann geti mælt fyrir báðum skýrslunum og talað um þær sitt í hvoru orðinu eins og það sé allt í lagi, þar á milli sé fullt samræmi. Annaðhvort verður hæstv. utanrrh. að draga sína skýrslu til baka og leiðrétta þá ýmislegt fleira en prentvillurnar eða standa við þau orð sem þar eru skrifuð í þinglegu gagni. Og ég spyr hæstv. utanrrh.: Ætlar hann, þegar plagginu verður dreift endurprentuðu, að hafa þá setningu þarna inni áfram að þetta rýra plagg hans upp á fáeinar síður sýni og sanni að allt sé í himnalagi?

Þá verð ég líka að segja, virðulegur forseti, og sný nú málinu til hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, að ég kem hér með þeirri ósk á framfæri að forseti Alþingis hlutist til um fund formanna þingflokka og forseta þingsins með ríkisendurskoðanda þannig að hægt sé að ræða við þennan starfsmann Alþingis og þetta óháða endurskoðunarvald í þjóðfélaginu þá meðferð sem skýrsla Ríkisendurskoðunar fær af hálfu hæstv. utanrrh., bæði þegar hann leggur fram sitt gagn, en þó miklu fremur sú misþyrming sem fólst í því að hæstv. utanrrh. leyfði sér að taka skýrslu Ríkisendurskoðunar og velja úr henni þær fáu setningar sem eru hagstæðar byggingarnefndinni, hagstæðar fyrrv. utanríkisráðherrum, en sleppa öllu hinu utan einni málsgr. sem hann neyddist til að lesa þegar ég kallaði fram í og fór fram á það við hann. Og ég ætla að taka dæmi, virðulegur forseti, um hvað hæstv. utanrrh. kaus að lesa og hverju hann kaus að sleppa þegar hann vitnaði í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Hæstv. utanrrh. fór inn á miðja bls. 7 og þar fann hann eina heldur jákvæða setningu og sperrti sig í stólnum og las hana: „Þó verður að telja að yfirstjórnin hafi að ýmsu leyti brugðist rösklega við þegar verulegir erfiðleikar steðjuðu að og eru eftirfarandi viðbrögð dæmi þess“, og síðan las hæstv. utanrrh. frá 1–5. En hvað stendur á bls. 7 í skýrslu endurskoðunar að öðru leyti? Það eru kaflarnir sem hæstv. utanrrh. kaus að sleppa og lesa innan úr samhengislaust. Með leyfi þínu, hæstv. forseti, ætla ég að lesa kaflana sem hæstv. utanrrh. sleppti. Þá byrjar það efst á bls. 7 og ég tek fram samhengisins vegna að það er verið að fjalla um verkáfanga 5:

„Verkið fór því mjög hægt af stað og allan verktímann var um að ræða mikla erfiðleika á framkvæmd þess, fyrst og fremst vegna skorts á hönnunargögnum. Afleiðingar þessa voru tvenns konar. Í fyrsta lagi var kostnaður meiri við þennan verkáfanga en ætlað hafði verið og í öðru lagi að í stað þess að flugstöðin yrði afhent fullbúin hinn 1. mars 1987, eins og samningur við verktaka gerði ráð fyrir, tókst aðeins að taka í notkun hluta hennar hinn 14. apríl 1987. Ástæður fyrir ofangreindu ástandi í hönnunarmálum eru m.a. eftirfarandi:

Breytingar á byggingunni og fyrirkomulagi í henni á byggingartímanum, vanmat hönnuða á umfangi verksins, ófullnægjandi hönnunarstjórn bæði hjá einstökum hönnuðum og í heild, vandamál sem komu upp vegna ólíkra staðla þar sem byggt var á erlendri grunnhönnun, fjarlægð milli hönnuða og ábyrgðarskiptingar.“

Enn segir: „Varðandi yfirstjórn verkefnisins verður að telja að skort hafi á heildaryfirsýn, bæði fjárhagslega og framkvæmdalega. Samræmdri áætlanagerð og eftirfylgni hennar var ábótavant.“

Svo kemur þessi stutta setning á miðri síðu sem hæstv. utanrrh. fann, eða einhver fyrir hann sem hefur undirbúið hann fyrir umræðuna hugsanlega, og hann kaus að lesa hana en sleppa líka því sem er neðst á bls. og er, með leyfi þínu, herra forseti, svohljóðandi: „Upplýsingagjöf um gang og stöðu verkefnisins til ýmissa opinberra aðila var áfátt. Áfangaskýrslur voru ekki gefnar út eftir 17. febr. 1984. I skýrslum utanrrh. til Alþingis um utanríkismál árin 1984–1987 er í kafla um byggingu flugstöðvar ekki gerð grein fyrir þeim breytingum sem orðið höfðu frá upphaflegri áætlun. En ætla má að alþm. hafi verið þetta ljóst með samþykki fjárlaga og lánsfjárlaga. Ekki er heldur í skýrslunum til Alþingis gerð grein fyrir viðbótarsamningi við Bandaríkjamenn sem gerður var 24. apríl 1986.“

Úr þessu samhengi, herra forseti, kaus hæstv. utanrrh. að slíta þessa aumlegu setningu sem hann hafði þarna fundið til nokkurra málsbóta byggingarnefndinni, sínum mönnum.

Slík meðferð á opinberu gagni er ámælisverð. Slíkt framlag af hæstv. utanrrh. styrkir ekki þann málstað þeirra manna sem hann er bersýnilega að gæta hagsmuna fyrir.

Síðan kemur eitt enn áður en ég hverf alveg frá hæstv. utanrrh. Málsvörnin mikla, sem á að felast í því að stækkanir og breytingar utan endis án heimilda hafi verið í góðu lagi og nauðsynlegar til þess að flugstöðvarbyggingin væri nothæf, er það einhver málsvörn? Ég spyr? Er sem sagt verið að segja að Alþingi Íslendinga hafi verið blekkt á árinu 1983 þegar hér var lagt fram frv. að lögum um byggingu flugstöðvarinnar, að alþm. hafi þá verið talin trú um að lægri fjárhæð dygði fyrir nothæfri flugstöð en rétt var? Það er það sem hæstv. utanrrh., það er það sem byggingarnefndin er að segja. Þá er málið ekki betra, ef ekki verra. Ég hefði haldið að menn hefðu átt að sleppa því, bæði hæstv. utanrrh. og aðrir, að reyna að verja hendur sínar með þessum hætti, enda er um það borið, bæði af aðilum sem leiddir eru fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar svo og virðist afstaða bandarískra tæknimanna hafa verið sú, að flugstöðin samkvæmt áætlun frá 1983 væri vel starfhæf. Og auðvitað samþykkti Alþingi lög um lántökuheimildir í trausti þess að það hefði fengið réttar upplýsingar. Þannig er að í frv. til laga og lögum um byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli eru heimilaðar lántökur upp á 616 millj. ísl. kr. eða 22 millj. bandaríkjadala. 22 millj. bandaríkjadala gera á núverandi gengi rétt rúmar 800 millj. Alþingi Íslendinga var sagt árið 1983 að þetta dygði fyrir starfhæfri flugstöð. Engir fyrirvarar voru þar hafðir á. Um tvennt er því að ræða í þessu efni: annaðhvort var Alþingi blekkt, annaðhvort var logið að Alþingi þegar hér voru rekin í gegn lög um lántökuheimildir fyrir þessari flugstöð eða málsvörn hæstv. utanrrh., málsvörn byggingarnefndar og annarra aðila sem tengjast málinu er hrunin.

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls og þeirrar byggingar sem hér er til umræðu er langur. Verkið hefur frá upphafi verið umdeilt. Þegar fyrstu áætlanir um þessa byggingu litu dagsins ljós kom fram gagnrýni á það að bæði hönnun byggingarinnar og það samkrull við bandaríska aðila sem þarna var boðað mundi leiða til ógæfu. Byggingin yrði óhemjulega dýr og þessi verkaskipting væri óheppileg Fyrir utan þau pólitísku rök sem mæltu gegn því að Íslendingar þægju þannig fé af erlendum aðilum til að byggja upp íslenskt samgöngumannvirki.

Ákvörðun um þessa byggingu var tekin í skyndingu í tengslum við myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Samkomulag Framsfl. og Sjálfstfl. frá 25. maí 1983 í tengslum við ríkisstjórnarmyndun markar upphaf þeirrar hörmungarsögu sem hér e;r verið að ræða um. Þetta er því skilgetið afkvæmi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, nánast einkabarn þeirrar ríkisstjórnar sem hér er til umræðu og auðvitað sérstakt gæludýr Sjálfstfl. eins og menn muna bæði af fyrri sögu málsins og frá kosningabaráttunni sl. vor, í einstöku uppáhaldi hjá Sjálfstfl., þetta mannvirki, og öll þess saga, skilgetið afkvæmi ríkisstjórnar þess manns sem nú er hæstv. utanrrh.

Menn geta ekki sagt að þeir hafi ekki verið varaðir við í þessu máli. Alþb. lagði fram á Alþingi 1983–1984 tillögu um allt aðra málsmeðferð, tillögu um að falla frá áformum um þessa ógæfulegu byggingu og endurhanna í staðinn eða hanna frá grunni nýtt smærra mannvirki sem unnt væri að byggja upp í áföngum, stækka eftir þörfum og byggja með hliðsjón af hönnun og reynslu nágrannaþjóða. Því miður var sá kostur ekki tekinn. Því miður var ekki horft t.d. til Finnlands, Svíþjóðar, Hollands og fleiri slíkra landa, þaðan sem reynslu og fordæmi var að fá fyrir allt öðruvísi byggingum sem gefist höfðu vel og höfðu þá stóru kosti að unnt var að byggja þær upp í áföngum og stækka eftir þörfum. Það var valin „íslenska leiðin“ að byggja sérstakt „monument“, bæði hvað varðar arkitektúr og alla innri uppbyggingu, um íslenskt afrek og íslenska getu í þessum efnum. Og það var m.a.s. fallið frá þeim áformum sem Bandaríkjamenn höfðu lagt til grundvallar sinni hönnunarvinnu, sinni forhönnun, að fullnaðarhönnun verksins yrði boðin út með öðrum verkáföngum.

Það er rétt að taka þetta sérstaklega fram í ljósi þess að hönnunarþátturinn er ein stærsta sorgarsaga þessa máls. Vegna hvers? Jú, vegna þess að verkið var í raun og veru aldrei fullhannað heldur voru framreiknaðar árið 1983 gamlar forhönnunartillögur Bandaríkjamanna sem gengu út frá því að endanleg hönnun verksins yrði boðin út ásamt öðrum áföngum. Svo kemur í ljós við skoðun málsins og kemur skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þessi vinna fór í raun og veru aldrei fram heldur var spilað af fingrum fram hvað þetta snertir. Og engin framreiknuð kostnaðaráætlun á öllum byggingartímanum, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. fjmrh., utan vandræðaleg plögg frá árinu 1985 og 1986 sem þýdd voru í skyndingu og send Bandaríkjamönnum vegna þess að þeir fóru fram á að fá að vita hvernig verkinu miðaði. Og hvers vegna höfðu Bandaríkjamenn, sem höfðu þak á sínu framlagi, bundnu í samningum upp á 19,8 millj. dollara, áhuga á að vita hver væri framkvæmdakostnaður verksins, hvernig það stæði? Vegna þess að það var mat hinna bandarísku aðila að upphaflega kostnaðaráætlunin væri svo rúm að ástæða væri til að ætla að endanlegur framkvæmdakostnaður byggingarinnar yrði lægri. Og hvað þýddi það? Það þýddi það fyrir Bandaríkjamenn að í samningum stóð að þeir þyrftu þá ekki að greiða nema helminginn af kostnaðinum. Fram á árið 1986 virðast Bandaríkjamenn sem sagt hafa verið þeirrar skoðunar að auðvelt ætti að vera að byggja mannvirkið fyrir minna fé en upphaflega kostnaðaráætlunin gerði ráð fyrir og þeir vildu því eiga tryggt að greiða ekki meira en þeim bæri ef svo færi. En nú þurfa þeir ekki lengur að hafa áhyggjur af því. Þeir eru búnir að greiða sitt framlag upp í topp og það kemur að sjálfsögðu á íslenska ríkið sem út af stendur.

Það er einnig ljóst, herra forseti, að öll stjórnun þessa verkefnis, bæði verkstjórnun og hönnunarstjórnun, var í molum. Á það er bent af sérfróðum aðilum um byggingu stórra mannvirkja að hér var ekki valin sú leið, sem annars hefur gjarnan verið viðhöfð þegar ráðist er í stórar framkvæmdir, að setja á sérstakt verkstjórnarskipulag sem hæfir stærð verkefnisins. Sú leið var ekki valin. Hafa þó Íslendingar áður á eigin vegum framkvæmt slík verkefni, ráðist í stórframkvæmdir. Nægir að benda á byggingu virkjana, byggingu t.d. Seðlabankans, Útvarpshússins og fleiri slíkra mannvirkja, þangað sem sækja hefði mátt fordæmi um verkstjórnarskipulag sem hæfir milljarðabyggingum en ekki það sem hér var notað og líkist því helst að hæstv. utanrrh. og ráðherrar liðinna tíma, formaður byggingarnefndar og aðrir slíkir hafi talið sig vera að fara að byggja hrútakofa eða eitthvað af álíka stærðargráðu, kannski biðskýli fyrir strætisvagn. Verkstjórnarskipulagið hefði verið nær því að hæfa slíku mannvirki en þeim stórframkvæmdum sem hér var verið að ráðast í. Þetta liggur fyrir og þarf ekki um að deila.

Það er mjög alvarlegur þáttur þessa máls einnig, sem þegar hefur verið dreginn hér nokkuð rækilega fram af hæstv. fjmrh., sá skortur á upplýsingastreymi, það fjárveitingavald, það ákvörðunarvald, það framkvæmdarvald sem hæstvirtir utanríkisráðherrar og byggingarnefndin og aðrir ráðamenn verksins hafa bersýnilega tekið sér í hendur. Það er mjög stór og alvarlegur hluti þessa máls.

Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. að engar áfangaskýrslur voru gefnar út eftir 17. febr. 1984. Engar framreiknaðar kostnaðaráætlanir voru á öllum framkvæmdatímanum lagðar fram fyrir utan þau léttvægu plögg sem sýnd voru Bandaríkjamönnum að þeirra ósk. Ekki orð um breytingar frá upphaflegri áætlun er í skýrslum utanrrh. frá árunum 1984–1987 að finna, ekki stafkrók. Engin grein er gerð fyrir umframeyðslu áranna 1985, 1986 og ekki fyrr en komið er langt fram á árið 1987. Þó kemur berlega fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að mönnum var ljós sú umframeyðsla sem átt hafði sér stað umfram heimildir á milli ára. Yfir því var þagað og það kom ekki í ljós fyrr en allt í einu uppgötvuðu menn það fjórum dögum eftir síðustu alþingiskosningar í hvert óefni var komið. Nokkrum dögum eftir að hæstv. núv. samgrh. var myndaður ásamt með meðframbjóðendum sínum fyrir utan mannvirkið og nokkrum dögum áður en Samband ungra sjálfstæðismanna á Reykjanesi ku hafa sett mynd af flugstöðinni á bréfhaus sinn til þess að lífga svolítið upp á útlitið á kosningaáróðrinum, nokkrum dögum eftir þetta allt saman og kosningarnar kom staðan loksins fram. Þá voru það ekki smáaurar sem voru á ferðinni heldur fleiri hundruð milljónir allt í einu, bara allt í einu vantaði þetta. Svo er sagt að allt hafi verið í fína lagi, allir fengið upplýsingar, allar framkvæmdir verið heimilaðar. Ja, af hverjum? Ekki Alþingi, ekki ríkisstjórn. Þessir hlutir verða að koma fram. Hver bar ábyrgðina? Hver tók sér fjárveitingarvaldið? Hver tók sér það vald að heimila framkvæmdir umfram það sem Alþingi hafði leyft með lögum? Hver tók sér löggjafarvald í þessum málum? Gera menn sér grein fyrir því að í gildi í landinu eru lög sett af Alþingi sem setja þessari framkvæmd ákveðinn ramma? Vissi hæstv. utanrrh. á hverjum tíma ekki að það voru sett lög á Alþingi, á þinginu sem starfaði árin 1983 og 1984? Er ræðumanni mjög minnisstætt að hans fyrsta þing setti lög um þetta efni.

Það er alveg ljóst að það samkrull við Bandaríkjamenn, sem upphaflega átti nú að vera einhver mesta uppspretta fjármagns og auðvelda þetta mannvirki öðrum fremur, hefur reynst okkur mjög dýrt, mjög, mjög dýrt. Þeirra framlag, þeirra talentur í þetta verk eru dýru verði keyptar. Það hefur þegar komið fram að hönnunarþátturinn fór allur úr böndunum í og með vegna þess samkrulls sem var við Bandaríkjamenn um framkvæmdina. Og það hefur fleira verið dregið fram, m.a. af hæstv. fjmrh. áðan. Þetta framlag var keypt því verði að það var samþykkt að nota ævinlega þá staðla við verkefnisuppbygginguna sem gengju lengra í hverju tilfelli, íslenska eða ameríska. Og hvaða staðla var verið að tala um? Það var verið að tala um einhverja ströngustu staðla í heimi sem ameríski sjóherinn viðurkennir. Og hvaða afleiðingar hafði þetta fyrir verkið þegar á leið? Það hafði t.d. þær afleiðingar, svo nokkur dæmi séu tekin, að þegar byggingarnefnd datt það snjallræði í hug að stækka kjallara flugstöðvarinnar umtalsvert kom í ljós að amerísku staðlarnir tóku þá til við að flokka bygginguna, ekki sem tveggja hæða hús heldur sem þriggja hæða hús. Þegar kjallarinn útþaninn var orðinn þetta stór sögðu amerísku staðlarnir: Þetta er orðið þriggja hæða hús. Og hvað þýddi það? Það þýddi tugi ef ekki hundruð tonna af stáli, járni og steinsteypu til viðbótar til að uppfylla staðlana með umtalsverðum viðbótarkostnaði. Þetta er eitt dæmi.

Annað mjög frægt dæmi og dálítið skemmtilegt er dæmið um engisprettufaraldurinn. Hæstv. núv. samgrh., þáv, hæstv. utanrrh., kann örugglega þessa skemmtilegu sögu um engisprettufaraldurinn. Ef ekki skal hún höfð hér fyrir hann.

Það var nefnilega þannig að utanhúss víða í kringum bygginguna eru niðurfallsbrunnar og eins og venja er til á Íslandi höfðu framkvæmdaraðilar hugsað sér að setja sand þar í botninn af mjög skiljanlegum ástæðum og praktískum. En þá er aftur farið að fletta upp í stöðlunum. Og hvað segja nú amerísku staðlarnir annars vegar og íslensku staðlarnir hins vegar? Jú, þetta er allt í lagi, enda alltítt hér á Íslandi. En í amerísku stöðlunum, stöðlum sjóhersins, stendur: Nei, þetta gengur ekki vegna þess að þessi sandur gæti orðið uppspretta fyrir engisprettufaraldur. Þetta gætu orðið hreiður fyrir engisprettur. Það verður að steypa upp í þetta allt saman. Og menn sögðu: Já, auðvitað verðum við að koma í veg fyrir að engisprettur komist inn í bygginguna, ekki síst á stríðstímum. Og þetta tókst með glæsilegum árangri. Það hefur ekki orðið vart við eina einustu engisprettu í byggingunni enn þá. Hún er hins vegar full af músum! Það gleymdist nefnilega að gera ráð fyrir músunum því að það stóð ekkert um mýs sérstaklega í amerísku stöðlunum. En engispretturnar skulu ekki fá að komast þarna inn óboðnar. Þetta tókst vel, kostaði að vísu eitthvað af peningum en tókst mjög vel, er eitt af því sem gekk fullkomlega samkvæmt áætlun.

Annað dæmi er loftræstingin og loftræstikerfið. Bæði hönnun þess og virkni hefur verið nokkuð til umræðu. Eitt af því sem menn máttu láta sig hafa að gera vegna amerísku staðlanna var ekki bara að bolta allt sem hengt er neðan í loft og utan á veggi með sérstökum amerískum boltum, sverari en menn höfðu áður séð á Íslandi. Hvað um það. Nei, menn máttu láta sig hafa það vegna þess að það stendur í stöðlum sjóhersins að einangra allar að- og frálagnir loftræstikerfisins. Hvers vegna? Nú er það þannig eins og menn vita að úr byggingunni kemur loft nokkurn veginn með herbergishita. Því er blásið í burtu. Menn hafa ekki vanist því að þurfa að hafa af því miklar áhyggjur hér á Íslandi að einangra pípur sem flytja loft með herbergishita innan húss á Íslandi. En í stöðlum sjóhersins stendur að á einstöku stöðum í bandaríska heimsveldinu sé svo mikill loftraki að það sé nauðsynlegt að einangra slíkar pípur. Íslendingum þótti dálítið hart að þurfa að sæta þessu, sóttu um undanþágu. Svarið kom: Nei, gerið þið svo vel og einangrið þið allan „retour“ í byggingunni, allt útsog. Annað stenst ekki staðla. Og menn sögðu auðvitað já og gerðu það.

Svona mætti áfram halda lengi dags um skemmtileg eða dapurleg dæmi eftir atvikum um hvað þessi vitleysa kostaði, hvað alls konar svona vitleysur kostuðu svo ekki sé nefnt að m.a.s. hreinlætistækin, meira að segja pissuskálarnar urðu að vera nákvæmlega þannig staðsettar og hannaðar að hermenn Sáms frænda kynnu þar til verka ef þeir skyldu einhvern tíma þurfa að yfirtaka bygginguna. Þetta þýddi að flytja varð allt postulín inn sérstaklega frá Bandaríkjunum og ef brotnaði nú skál á leiðinni var ekki hægt að hlaupa niður í kaupfélag og kaupa nýja í staðinn. Nei, veskú. Það varð að fá aðra sendingu frá Bandaríkjunum. Svona var þetta allan tímann. Þetta vita allir. Ræði menn við verktaka eða menn sem þarna störfuðu og spyrji þá um hversu miklu verktakar bættu ofan á í útboðum til að tryggja sig fyrir alls konar svona vitleysum. Það voru ómældar fjárhæðir er mér sagt af ábyggilegum mönnum. Þetta er um samkrullið við herinn og ég hef þegar vikið ofurlítið að hönnuninni, þeim þætti þessarar sorgarsögu sem stendur upp úr ásamt ýmsu öðru.

En langalvarlegustu mistökin tel ég þó vera, herra forseti, og þau mistök sem hljóta að koma til umræðu á Alþingi sérstaklega vegna þess að þau eru stórpólitískt mál, þá ákvörðun að reka á eftir því að flugstöðin yrði opnuð, þá dæmalausu ákvörðun að ákveða í nóvember 1986 að flugstöðin skuli vera opnuð fyrir kosningar hvað sem það kostar og um það er gerður sérstakur viðaukasamningur við verktaka. Ríkisendurskoðun, sem er varkár stofnun eins og kemur fram í hógværum ályktunum og hógværum niðurstöðum sem þar eru dregnar, segir að það sé ljóst að þessi ákvörðun kostaði einhverja tugi millj. kr. Ég veit að það er óhemju varlega áætlað af Ríkisendurskoðun og sæmir alveg þeirri virðulegu stofnun, en ég ætla að leyfa mér að segja að þessi pólitíska ákvörðun sé nær því að hafa kostað hundruð millj. en tugi millj. og ég skal rökstyðja það. Annað sæmir ekki þegar menn taka stórt upp í sig.

Hvers vegna er það nú, herra forseti? Í fyrsta lagi vegna þess að um svipað leyti og þessi ákvörðun er tekin, að það skuli vera hægt að halda kosningaveisluna í flugstöðinni hvað sem það kostar, er einmitt að koma í ljós að hönnun verksins er í molum. Það liggur fyrir um sama leyti. Og hefði þá ekki verið rökréttara að taka alveg gagnstæða ákvörðun, ákveða þá að seinka framkvæmdum til þess að unnt væri að hanna verkið, til þess að hönnunin kæmist á það stig að unnt yrði að hefja framkvæmdir? Jú, auðvitað. Auðvitað ber öllum saman um það og það er auðskilið mál. En þessi endileysa leiddi til þess að allar framkvæmdir urðu mun dýrari en ella. Hún leiddi til þess að verktakar gengu inn í endalaus aukaverkefni sem af þessu stöfuðu. Hún leiddi til þess að aðalverktaki við verkáfanga 5 gerir aukakröfur upp á á fjórða hundrað millj. kr. fyrst og fremst vegna þess öngþveitis sem skapaðist í framhaldi af þessari ákvörðun.

Hv. utanrmn. Alþingis fór í heimsókn þarna suður eftir ekki langt frá þeim tímamótum sem við erum að tala um. Ég verð að segja að ég er alveg viss um að formaður hv. utanrmn. er mér sammála um að ekkert í mannanna ríki eins og sú sjón að koma inn í flugstöðina hefur minnt mig á ég segi ekki engisprettuþúfu heldur mauraþúfu, hefur minnt mig jafnmikið á mauraþúfu og að líta þarna inn. Vegna hvers? Vegna þess að þá var dælt inn mannskap, það var flogið með iðnaðarmenn af öllum landshornum, m.a. tugi úr mínu kjördæmi til að reyna að knýja þessa niðurstöðu fram, að unnt yrði að opna einhvern hluta byggingarinnar. (EKJ: Þeir voru allir vinnandi.) Þeir voru vinnandi. Ég tek það fram að ég er ekki að ásaka þá góðu menn, öðru nær. Veit ég vel að við Íslendingar eigum góða iðnaðarmenn. En það sýnist að við eigum vonda stjórnendur á ýmsum sviðum.

Ég ætla að halda hérna uppi þessari mynd fyrir hv. þm. Þetta er rétt aftan við bls. 41, ef ég man rétt, í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hvað sýnir hún? Ég hef að vísu prýtt hana nokkrum litum hérna. Á þessari mynd eru tvær línur. Þetta er verkáfangi 5, verksamningur FK5, og þetta er mannafli við verkframkvæmd. Hér er gul lína sem sýnir þann mannafla sem áætlanir gerðu ráð fyrir að yrði að störfum í byggingunni. Og það eru manndagar í hverjum mánuði upp á rétt nálægt 3 þús. manns þegar mest er, en svona á bilinu 2000–2500 og átti síðan að fara lækkandi þegar kom út á árið 1986 og fram á árið 1987. En hvað gerist? Hver varð reyndin? Hvernig urðu mannmánuðirnir á þessum lokaáfanga verksins? Þeir urðu nálægt núlli á miðju ári 1986 eða á árinu framan af tímabilinu. Vegna hvers? Vegna þess að hönnunin var svo gersamlega hrunin að það var ekki hægt að koma neinum mannskap til starfa fyrr en búið væri að lappa upp á þau verk. Lengi framan af eru því miklu færri menn í vinnu við verkáfanga 5 en gert hafði verið ráð fyrir. Það var einfaldlega ekki hægt að fá þeim neitt til að gera af því að menn vissu ekkert hvað þeir áttu að gera. Það lágu engar teikningar fyrir. Svo skeðu ósköpin rétt um áramótin 1986–1987 þegar kosningaopnunarákvörðunin er tekin. Þá er tekið til við að dæla inn mannskap þannig að á örfáum vikum rís mannaflinn sem er að störfum upp í 8 þúsund manndaga í mánuði. Það er þessi rosalegi toppur sem menn sjá hér. Og halda menn ekki, þeir sem eitthvað þekkja til verklegra framkvæmda, að þetta hafi skapað sinn slatta af vandamálum? Ég held að það sé alveg ljóst.

Svo er til viðbótar það um þennan opnunartíma, sem er auðvitað stórpólitískt hneyksli, að aprílmánuður er mjög óheppilegur opnunartími. Það hafa ýmsir sem kunnugir eru ferðamálum og flugrekstri viðurkennt í einkasamtölum. En frammi fyrir utanrrh. og byggingarnefnd hefði að vísu reynst erfiðara að draga það upp úr ýmsum mönnum. En ljóst er að það að opna hálfkaraða flugstöð meira og minna á hvolfi rétt í byrjun ferðamannatímans er ekki gáfuleg ráðstöfun. Það þýðir að allir byrjunarerfiðleikar lenda á mesta annatíma mannvirkisins á hverju ári. Það var næsta sjálfgefið við þær aðstæður sem uppi voru í október-nóvember 1986 að skynsamlegt og í raun og veru alveg sjálfgefið var að fresta opnun byggingarinnar fram á haustið. Þá höfðu menn rólegri tíma, t.d. október til nóvember, til þess að taka mannvirkið í gagnið og komast yfir þá byrjunarörðugleika sem slíkum flutningum eru samfara. Úr því að gamla flugstöðin réði við þær annir sem fylgdu leiðtogafundinum á sl. hausti hefði hún væntanlega ráðið við þetta sumar, enda hefur komið í ljós að sá ágalli gömlu flugstöðvarinnar sem mönnum þótti nú einna verstur, þ.e. að hún skyldi leka vatni, er einnig fyrir hendi í nýju flugstöðinni. Hún lekur líka vatni þannig að hvað þetta varðar hefur ekki neitt breyst.

Herra forseti. Það hefði verið gaman að fara rækilega yfir útreikninga og fullyrðingar um byggingarkostnað vegna þess að ég hef kynnt mér það mál sæmilega vel og borið mig þar saman við ýmsa menn sem eru fróðir og kunna vel að fara með tölur. Það verður að segjast að ýmsir tilburðir byggingarnefndarmanna og hæstv. utanrrh. eru með slíkum endemum hvað varðar meðferð talna að ég hef sjaldan séð annað eins. Ég ætla að láta mér nægja, vegna þess að þessar tölur um 870 millj. kr. umframkostnað eru óumdeilanlegar, þannig er um hnútana búið í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það verður ekki hrakið, að vitna í tvennt í sambandi við leikfimi hæstv. utanrrh. og byggingarnefndarmanna við að reyna að þvo af sér skömmina. Það er svo yfirgengilegt, hv. alþm., hvað menn láta frá sér fara á prenti, jafnvel á prenti, í þeim efnum að lengi getur maður undrast, hæstv. samgrh.

Hér er fréttatilkynningin góða frá byggingarnefndinni, sem reyndar er á blöðum merktum utanrrn. Varnarmálaskrifstofa og síðan kemur neðst: Byggingarnefnd flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þannig er nefnilega goggunarröðin. Það er utanrrh., það er Varnarmálaskrifstofan og svo er það byggingarnefnd. Þetta er sú goggunarröð, eins og sagt er á máli líffræðinga, sem menn eiga að hafa í huga. Og hvað gerir þessi ágæta byggingarnefnd þegar hún ætlar bara að þvo þetta allt af sér á miðju sumri? Hún falsar tölur eða gerir sig bera að slíkri hyldýpisvanþekkingu að þeir hefðu átt að segja allir saman af sér og ættu að vera búnir að því fyrir löngu þegar þetta er ljóst. Þeir fullyrða að hin upphaflega kostnaðaráætlun hafi hljóðað upp á 42 millj. dollara, minnast ekki einu orði á að inni í þeirri tölu eru 8,5 millj. dollara sem voru áætlaðar verðhækkanir á framkvæmdatíma. Kostnaðaráætlunin sjálf hljóðaði upp í 33,5 millj. og var talin rúm að áliti sérfræðinga, svo rúm að byggingarnefndin hefur m.a. vísað í það þegar hún er að reyna að afsaka hvers vegna hún tók það upp á sína arma að stækka og bæta við og breyta eins og hún gerði. Jú, í ljósi þess að upphafleg kostnaðaráætlun var talin svo rúm. Þetta átti nefnilega að vera allt í lagi. Mennirnir virðast hafa ímyndað sér að þeir gætu gert þetta innan ramma hinnar upphaflegu kostnaðaráætlunar sem er miðað við núverandi gengi dollars, þ.e. hlutur Íslendinganna, rétt rúmlega 800 millj. kr. Síðan er byggingarnefndin með ýmsar æfingar t.d. með byggingarvísitölu. Hér notar byggingarnefndin í fréttatilkynningu sinni byggingarvísitöluna upp á 120 stig. Hvenær er það? Það er í maímánuði. Byggingarvísitalan í ágúst, þegar verksamningar eru gerðir og þegar kostnaðaráætlunin er endanlega uppreiknuð, er orðin 142 stig og það er frá þeirri tölu sem menn eiga að framreikna byggingarkostnað, ekki 120.

Það er ýmislegt svona, hv. alþm. og virðulegur forseti, sem er með slíkum endemum að það gengur ekki annað en farið verði rækilega ofan í saumana á þessum málum. Það er ekki hægt að horfa upp á að nefnd af þessu tagi, sem heyrir beint undir verksvið utanrrh. í landinu, hegði sér með þessum hætti óátalið. Eða skýrsla hæstv. núv. utanrrh. sem lögð er á borð alþm. Hvað stendur í henni? Jú, það stendur á bls. 2 að byggingarnefndin hafi gert ráð fyrir að byggingarkostnaður yrði rúmar 2500 millj. kr. með áætlun til verkloka. Og svo segir, með leyfi forseta:

„Þessar áætlanir byggingarnefndar, sem hún lagði fyrir Fjárlaga- og hagsýslustofnun, gerðu því glögga og raunsæja grein fyrir byggingarkostnaði. Um umframkostnað samanborið við þessar áætlanir er því ekki að ræða.“

Og hvaða áætlanir er verið að tala um? Hvað er verið að tala um? Það er verið að tala um fjárlagabeiðnir byggingarnefndarinnar til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Og hvað er með þær? Eru þær lög í landinu? Eru óskir byggingarnefndarinnar lög eins og halda mætti af þessu plaggi? Nei. Það eru nefnilega fjárlögin sem ráða í þessum efnum. Og hvernig eru fjárlögin? Þau eru þannig að ósk byggingarnefndar um rúmlega milljarð á árinu 1986 var skorin niður í 710 millj. kr. og þeim var sagt: Þetta verður að duga. Fjárhagur ríkissjóðs, skuldastaða ríkisins leyfir ekki meiri lántökur í þessa framkvæmd en 710 millj. kr. á árinu. Svo leggur hæstv. utanrrh. plagg fyrir Alþingi, (HG: Hann er flúinn úr sal.) sem er reyndar flúinn úr sal, virðulegur forseti, kannski farinn til útlanda, hann hefur verið þar talsvert undanfarið, hann leggur plagg fyrir Alþingi með beinni fölsun. Hæstv. utanrrh. lætur líta út sem ósk byggingarnefndarinnar, sem var skorin niður um tæpar 300 millj. kr., eigi bara að meðhöndlast sem lög í landinu. M.ö.o.: hæstv. utanrrh. segir við Alþingi Íslendinga: Byggingarnefndin átti ekkert að gera með það sem Alþingi Íslendinga setti í fjárlög. Hún átti að vinna út frá sinni kostnaðaráætlun og láta svo sem henni kæmi ekki annað við. Það er það sem verið er að segja með þessum orðum. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, ég get endurtekið þetta þegar hæstv. utanrrh. kemur aftur til landsins, ég fer fram á það við forseta Alþingis, því það er þeirra mál, að þau gögn sem eru lögð fyrir Alþingi sem þingskjöl séu rétt, það verði farið fram á við hæstv. utanrrh. að hann afturkalli þessa skýrslu, þessa ómynd sem ég hef hér sýnt fram á að er röng, því að hún falsar staðreyndir byggingarnefndinni eða framkvæmdaaðilum málsins í hag. Ég vona að virðulegur forseti komi þessari ósk minni á framfæri og hlutist til um það ásamt öðrum forsetum þingsins að þessari ósk verði komið formlega á framfæri við hæstv. utanrrh. Það skal þá koma í ljós hvorum megin hæstv. ráðherra ætlar að stilla sér í þessum efnum, sannleikans eða lyginnar, Alþingis eða einhverra annarra aðila.

Þetta plagg gengur ekki. Það er fyrir neðan virðingu Alþingis að láta kyrrt liggja þegar beðið er um skýrslu af tíu hv. alþm., beðið er um ítarlega skýrslu um mál, að það sé hent inn á borð alþm. svona snepli upp á nokkrar blaðsíður sem er annars vegar að hluta til falsanir á tölum, hins vegar sleggjudómar og fullyrðingar sem hæstv. utanrrh. var reyndar þegar farinn að biðjast afsökunar á áðan þegar hann setti sérstakan fyrirvara, hæstv. utanrrh., um að niðurstöðudómurinn mikli í skýrslunni ætti ekki við Ríkisendurskoðun. Hún var innan sviga. Það voru allir aðrir en Ríkisendurskoðun sem áttu að taka þetta til sín. Sem sagt: það er talað einni tungu við Ríkisendurskoðun og annarri tungu við aðra. Þetta gengur ekki. — Nú er hæstv. utanrrh. kominn, hefur verið fljótur í förum að þessu sinni. Ég ætla því að endurtaka ósk mína til hans, sem ég að vísu vil að forsetar þingsins komi formlega á framfæri, að skýrsla þessi verði endurkölluð þar sem hún er röng, þar sem hún er bersýnilega röng og fyrir neðan virðingu þingsins að láta við það sitja að hafa slíkt plagg í Alþingistíðindum án þess að það sé leiðrétt.

Og nokkur orð um ábyrgðina, herra forseti. Það lítur svo út, ef marka má viðbrögð þeirra aðila sem bornir hafa verið ábyrgð í þessu máli, sem enginn ætli að taka það á sig að nokkuð athugavert hafi gerst þó að milljarður af almannafé hafi gufað upp í loftið, að hluta til lent að vísu í einhverja steinsteypu, án heimildar í íslensku fjárlögunum, án heimildar af hálfu Alþingis og fjárveitingavalds, þegar í gildi eru lög í landinu um heimildir til lántöku í ákveðið verkefni, þeim lögum er ekki breytt, það stendur væntanlega enn í þessum lögum sama krónutalan og stóð í þeim árið 1984 þegar þau voru sett. Svo kemur í ljós að það er búið að eyða margfaldri þeirri fjárhæð, meira en 100% meira fé en lögin heimila og síðan ætla menn að láta eins og ekkert sé, þetta sé bara allt í lagi. Nei, það gengur ekki, virðulegi forseti.

Ég tel því að till. okkar þm. Alþb., sem liggur fyrir þessum fundi, er hér á dagskrá, um að kosin verði sérstök rannsóknarnefnd þm. til að fara ofan í þetta mál, sé mjög rökrétt afleiðing af því að hér eiga hlut að máli miklir valdamenn og ábyrgðarmenn í þjóðfélaginu. Og er það ekki svo þegar framkvæmd er sett beint undir einn sérstakan ráðherra lögum samkvæmt og þegar háttsettir embættismenn taka á sig sérstakt ábyrgðarhlutverk, eins og húsameistari ríkisins gerir í þessu máli og eins og sendiherrar íslenska ríkisins á erlendri grund núverandi gerðu í þessu máli og eins og hæstv. fyrrv. utanrrh. auðvitað gerðu, núv. t.d. seðlabankastjóri, að það kalli á að það sé farið með myndarlegum hætti ofan í saumana á því hver ber þarna ábyrgð? Hvar strönduðu boðin um eyðslu umfram heimildir? Hvers vegna fékk Alþingi aldrei að vita neitt um þann vanda sem var að safnast upp og var yfirfærður milli ára með lántökum án þess að farið væri fram á fjárveitingaheimildir á næsta ári? Hvers vegna var þessu ekki komið rétta boðleið? Þessu verður að fást svarað. Hvernig ætla menn að standa að því að elta uppi aðra aðila í þjóðfélaginu sem fá opinbert fé í hendur og tryggja að þeir fari vel með ef margir af æðstu embættis- og stjórnmálamönnum ríkisins geta sóað heilum milljarði án þess að nokkur axli ábyrgð, án þess að nokkur svo mikið sem geri tilburði til að líta í eigin barm og segja: Kannski hefði átt að fara aðeins öðruvísi að þessu.

Ég vil ekki taka mikið meira af fundinum að þessu sinni til þess að fleiri ræðumenn komist að, virðulegur forseti, til þess að tjá sig og spyrja hæstv. ráðherra sem sitja fyrir svörum eða ættu a.m.k. að sitja fyrir svörum, svo sem eins og núv. hæstv. samgrh. og þm. Reykn. sem m.a. hefur verið myndaður hér og þar og hæstv. núv. forsrh. sem var fjmrh. að hluta til á þeim tíma sem þetta verk fór hvað mest úr böndunum, var þar með yfirmaður Fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem af núv. hæstv. utanrrh. er borin mjög þungum sökum. Það segir nefnilega í skýrslu hæstv. utanrrh. að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi fengið að vita allt sem hún þurfti að vita. Hvers vegna kom mönnum þá svo á óvart fjárvöntunin í fjmrn. á sl. vori, ef það er rétt að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi fengið allar upplýsingar? Ég held að úr þessu verði að fást skorið, hvor hæstv. ráðherranna, núv. eða fyrrv. fjmrh., ber hér ábyrgðina. Það gengur ekki annað. Í hnotskurn, virðulegi forseti, hefur þetta gerst:

Illa undirbúið verk er drifið af stað með pólitískri ákvörðun við myndun ríkisstjórnar. Samkrull við erlenda aðila, sem eiga að borga hluta kostnaðarins, skapar ómælda erfiðleika og mikil útgjöld. Öll stjórnun verksins er í molum, alveg sérstaklega hönnunarþátturinn. Verkstjórnarfyrirkomulag er valið eins og ætti að fara að byggja lítinn hrútakofa þegar um milljarðaframkvæmd er að ræða. Byggingarnefnd og framkvæmdaaðilar byggingarinnar lauma smátt og smátt inn breytingum, viðbótum, stækkunum og alls konar hringli sem leiðir til öngþveitis í stjórnunar- og hönnunarmálum, hreins öngþveitis. Allar þessar framkvæmdir eru án heimildar fjárveitingavaldsins. Allar þessar viðbætur, stækkanir og breytingar eru án heimildar fjárveitingavaldsins eins og þegar búin er til ný hæð undir mannvirkið, þegar öll eldhússtarfsemi Flugleiða er allt í einu flutt út o.s.frv. Umframeyðslu á opinberu fé til framkvæmdanna er haldið leyndri árið 1985, árið 1986 og fyrstu mánuði ársins 1987, nánar tiltekið þangað til fjórir dagar eru liðnir fram hjá alþingiskosningum og nokkrir dagar í viðbót liðnir frá kosningahátíð Sjálfstfl. á Reykjanesi. Tugum ef ekki hundruðum — sá sem hér stendur fullyrðir frekar hundruðum — milljóna kr. er sóað eingöngu til að knýja fram þá pólitísku ákvörðun að opna bygginguna löngu áður en það var í raun tímabært og gerlegt.

Niðurstaðan er því þessi að mínu mati, virðulegur forseti: Milljarði af fé almennings í landinu er eytt í leyfisleysi. Ráðist er í framkvæmdir án heimilda. Upplýsingum er haldið leyndum. Reynt er að blekkja um upphaflegan kostnað og um endanlegan kostnað byggingarinnar, bæði af byggingarnefndinni og nú síðast í skýrslu hæstv. utanrrh. Villandi meðferð talna er sett fram að því er best virðist til að reyna að blekkja menn í þessu efni. Í fimmta lagi: Enginn vill bera neina ábyrgð. Enginn viðurkennir neina ábyrgð í málinu. Í sjötta lagi: Hafi byggingarnefnd, sem ég út af fyrir sig dreg ekki í efa og Ríkisendurskoðun telur, haft heimildir hæstv. ráðherra fyrir þeim stækkunum og breytingum sem hún réðst í eru hæstv. ráðherrar sekir í málinu. Svo einfalt er málið.

Það þarf því ekki frekar vitna við. Það er áfall fyrir þingræðið, fyrir stjórnkerfið íslenska ef menn ætla að sópa þessu máli undir teppið og aka sér undan ábyrgð með þeim aumkunarverða hætti sem hæstv. núv. utanrrh. og aðrir sem málinu tengjast hafa verið og eru að reyna.