17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég hef lesið þá skýrslu, sem hér hefur einkum verið til umræðu, frá Ríkisendurskoðun um smíði flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og ég get ekki orða bundist vegna ýmissa þeirra þátta sem ég hef rekið augun í við lestur þessarar skýrslu.

Það sem er rauði þráðurinn í þessari skýrslu er að hér hafa átt sér stað óheyrileg hönnunarmistök, hönnunarmistök sem kosta íslenska skattgreiðendur nær 1 milljarð kr. Ég hef í huganum verið að leggja þetta mál að jöfnu við Kröflumálið sem kom mjög til umræðu á hinu háa Alþingi á sínum tíma. Niðurstaðan af allri þeirri umræðu varð sú að þar var enginn maður ábyrgur. Það bar enginn ábyrgð á því sem þar hafði gerst og íslenska þjóðin er enn þá að greiða hundruð milljóna á hverju einasta ári fyrir mistökin sem þar voru gerð.

Ég held ég verði að segja það sem mína skoðun að í þessari skýrslu kemur mjög skýrt fram að það er embætti húsameistara ríkisins sem ber mjög verulega sök í þessu máli. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það embætti ætti að leggja niður. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar að hafa embætti húsameistara ríkisins með þeim tilkostnaði sem ríkissjóður verður fyrir vegna þess embættis og m.a. vegna margvíslegrar gagnrýni sem komið hefur fram á embættið, ekki bara í þessu máli heldur í fleiri málum.

Annar þáttur þessa máls, sem er mjög áberandi í þessari skýrslu, er sambandsleysi byggingarnefndar og hönnunaraðila við lögmæt stjórnvöld í landinu. Þetta er sagt skýrum orðum í skýrslunni og kemur m.a. fram að stjórnvöld hafi haft á tímabili a.m.k. sáralitla vitneskju um hvernig komið var málum við smíði flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Hér hefur ýmislegt verið nefnt sem fram hefur komið í skýrslunni, en mig langar að bæta við nokkrum atriðum.

Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að hugtakið „ábyrgð“ er að verða mjög óljóst að ég hygg í hugum margra þm. Ég minni þingheim á að ekki fyrir löngu var fræðslustjórinn í Norðurlandskjördæmi eystra sviptur starfi sínu á einni nóttu, sviptur launum fyrir það að fara nokkrar krónur fram úr þeirri áætlun sem hið háa menntmrn. hafði gert honum að fara eftir. Á bls. 5 í þessari skýrslu er talað um óskiptan kostnað, 871 millj., sem aðallega hefur verið til umræðu hér, og þar er setning sem ég held að flestir hljóti að hafa staðnæmst við, en þar segir, með leyfi forseta:

„Athugun Ríkisendurskoðunar hefur leitt í ljós að viðbætur og magnaukning eru efnislega til staðar. Hvað kostnað varðar eru flest atriðin sem um er að ræða byggð á útboðum og verður því að telja að kostnaður við þau sé eðlilegur.“

Hér er engu slegið föstu, en síðan segir, með leyfi forseta: „Aðrar tölur eru þó byggðar á umdeilanlegum forsendum og stundum á hreinni ágiskun, t.d. kostnaður vegna endurhönnunar, sem fundinn er þannig að deilt er með tveimur í heildarkostnað vegna sérfræðiþjónustu og hönnunar.“

Það er deilt með tveimur í heildarkostnað vegna sérfræðiþjónustu og hönnunar. Það eru hreinar ágiskanir sem koma fram frá byggingarnefnd um hver kostnaður vegna endurhönnunar hefur í raun og veru verið, en hann er gefinn upp í skýrslunni um 100 millj. kr.

Þá segir á bls. 6 m.a. um einn dýrasta endurhönnunarþáttinn, með leyfi forseta:

„Þegar samningar við Hagvirki hf. voru á lokastigi um áramótin 1985/1986 kom í ljós að endurhanna þyrfti loftræsikerfið, auk þess sem hönnun á öðrum sviðum var áfátt.“ Hönnunin kemur hér við sögu enn á ný.

Á bls. 7 segir m.a., með leyfi forseta: „Varðandi yfirstjórn verkefnisins verður að telja að skort hafi á heildaryfirsýn, bæði fjárhagslega og framkvæmdalega. Samræmdri áætlanagerð og eftirfylgni hennar var ábótavant.“

Neðar á þessari sömu bls. segir, með leyfi forseta: „Upplýsingagjöf um gang og stöðu verkefnisins til ýmissa opinberra aðila var áfátt. Áfangaskýrslur voru ekki gefnar út eftir 17. febr. 1984.“

Í skýrslum utanrrh. til Alþingis um utanríkismál árin 1984–1987 er í kafla um byggingu flugstöðvar ekki gerð grein fyrir þeim breytingum sem orðið höfðu frá upphaflegri áætlun. Ástæðan sem ríkisendurskoðandi gefur upp er sú að utanrrh. hefur ekkert um málið vitað.

Á bls. 8 segir, með leyfi forseta: „Framreiknuð kostnaðaráætlun fyrir verkið í heild var ekki send fjármálayfirvöldum á verktímanum og ekki var gerð grein fyrir kostnaði vegna meiri háttar breytinga og aukningar á framkvæmdum.“ Þetta rennir enn stoðum undir þá fullyrðingu mína að sambandsleysi hafi verið milli byggingaraðila og stjórnvalda.

Á bls. 9 segir enn fremur, með leyfi forseta: „Ríkisendurskoðun bendir á að ekki var sótt um aukafjárheimild og ekki vakin athygli fjárveitingavaldsins á vandanum fyrr en með bréfi dags. 29. apríl 1987“, en þá var búið að taka stöðina í notkun.

Síðan segir, með leyfi forseta: „Ríkisendurskoðun hefur ekki fengið viðhlítandi skýringu á þessu.“ Ég sagði áðan að hér hefðu orðið mikil hönnunarmistök. Ég get ekki lesið annað úr þessari skýrslu en að það sé embætti húsameistara ríkisins sem ber ábyrgð á hönnun þessa verks, enda kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 23, með leyfi forseta:

„Húsameistari ríkisins var arkitekt byggingarinnar og hafði þegar í „samhöfundasamstarfinu“ 1980 verið mótandi aðili. Hann var hönnunarstjóri frá árinu 1981, en hafði áður verið hönnunarstjóri ásamt Henry Shriver. Verksvið hans var skilgreint þannig í upplýsingum framkvæmdastjóra til byggingarnefndar í janúar 1984:

Hönnunarstjóri gerir heildaráætlun um verkið og sér um hönnun þess, samræmir vinnu hönnuða og sér um að öll hönnunargögn séu tilbúin á réttum tíma. Hann annast samskipti við hönnunarstjóra bandarísku hönnunaraðilanna. Að fengnu samþykki byggingarnefndar sér hönnunarstjóri um útfærslu breytinga á hönnun, fer yfir framlagðar teikningar og gerir tillögur um efnisval og samþykkir breytingar.“

Samkvæmt þessari klausu er ábyrgðin á hönnun verksins alfarið í höndum húsameistara ríkisins. Síðan segir á þessari sömu blaðsíðu, með leyfi forseta: „Húsameistari hafði einnig umsjón með þeirri endurskoðun þarfagreiningar sem fram fór árið 1984 og leiddi til umfangsmikilla breytinga, sbr. skýrslu hans dags. í júní 1985.“

Á bls. 24 er rætt um útboð og hönnun og þar segir, með leyfi forseta: „Mikið var um villur í útboðsgögnum og sífelldar breytingar og viðbætur voru að berast á byggingartímanum.“

Sem dæmi um þær breytingar og villur sem fram komu langar mig að nefna eitt atriði í skýrslunni. Þar er fjallað um sérstaka lampa sem notaðir eru í flugstöðinni. Þar segir Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:

„Að beiðni hópsins [það er vinnuhópur] gerði eftirlit sérstaka skýrslu um lampa, en eftirlitið hefur bent á að þetta sé dæmi um ófullkomleika útboðsog verklýsingar fyrir verksamning FK 5 [sem mikið hefur verið ræddur hér í dag] þ.e. að magntölur hafi verið vanáætlaðar í útboði, verklýsing hafi ekki verið nógu nákvæm þannig að það sem keypt var varð annað en gert hafði verið ráð fyrir í útboði.“

Í skýrslunni, sem er hér meðfylgjandi merkt fskj. 18, er greint frá því að í útboðslýsingu hafi verið tilgreindir 3215 lampar í byggingunni, en við verklok voru þeir orðnir 5573. Í skýrslunni er frá því greint að samþykkt á lömpum hafi tekið 13 vikur og þær útfærslur sem hönnuðir hafi beðið um hafi valdið verulegum aukakostnaði. Og hver skyldi nú vera aukakostnaðurinn vegna þessara lampa? Jú, samkvæmt útboði eða upphaflegri áætlun er gert ráð fyrir að þeir muni kosta 15,7 millj. Endanlegur kostnaður er 37,8 millj. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum og hér erum við þó aðeins að tala um tugi milljóna. En mistökin skipta hundruðum milljóna.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt tvö mjög mikilvæg atriði sem fram koma í þessari skýrslu. Það eru hönnunarmistökin og sambandsleysið. Ég vil segja það að í kafla skýrslunnar sem fjallar um stjórnun verksins kemur það enn skýrar fram hver ber ábyrgð á hönnuninni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Til þess var ætlast að hönnuðir bæru ábyrgð hver á sínum hluta hönnunarinnar og stjórnuðu sínu verki sjálfir. Húsameistari sem hönnunarstjóri hefur lýst sínu hlutverki fyrst og fremst sem samræmingaraðila á „arkitektoniskum“ atriðum og vísar til langrar hefðar hér á landi í því efni“, vísar til langrar hefðar í þeim efnum hér á landi. „Þessi aðferð gekk upp meðan ekkert óvært skeði. Þegar erfiðleikar komu upp í hönnunarmálum kom í ljós að stjórnarþáttur þessa máls hafði verið vanmetinn.“

Í skýrslunni er einnig gagnrýnt mjög harðlega hvernig staðið var að bókhaldi við allt verkið. Þar segir, með leyfi forseta: „Samkvæmt ríkisbókhaldi er kostnaður vegna flugstöðvar færður á fjögur viðfangsefni, stjórnarkostnað, hönnunarkostnað, ráðgjafarkostnað og framkvæmdakostnað. Mánaðarlegar færslur ríkisbókhalds voru ekki yfirfarnar af skrifstofu byggingarnefndar. Þetta leiðir til þess að augljósar villur milli viðfangsefna eru ekki leiðréttar og oft er ekki samræmi í færslum, sérstaklega milli hönnunarkostnaðar og ráðgjafarkostnaðar. Þetta hefur þó ekki áhrif á niðurstöður heildarkostnaðar. Byggingarkostnaður er einungis uppfærður eitt árið, þ.e. 1984.“ Það er eina árið sem byggingarkostnaður við þetta mikla mannvirki er uppfærður.

Þá er þriðja atriðið og lokaatriðið, virðulegur forseti, sem ég vil koma að en mér virðist hafa gleymst í þessari umræðu, og það er að þrátt fyrir þann byggingarkostnað og aukningu hans sem við höfum verið að fjalla um hér í dag kemur fram í skýrslunni að það er æðistór upphæð eða kostnaður vegna smíði flugstöðvarinnar sem ekki er færður í bókhald hennar. Þessa er getið á bls. 66. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Eiríkssyni greiddu Bandaríkjamenn hönnunarkostnað, sem stofnað hafði verið til fyrir ágústmánuð 1983, vegna stöðvarinnar, svæða og annars sem tengist byggingunni. Samtals var þessi kostnaður 1 millj. 759 þús. 866 bandaríkjadollarar og var greiddur bæði íslenskum og bandarískum aðilum.“ Þessi kostnaður kemur ekki inn í þann byggingarkostnað sem við erum að tala um í dag.

Í öðru lagi, með leyfi forseta: „Samkvæmt samkomulaginu við Bandaríkjamenn halda þeir eftir 200 þús. bandaríkjadollurum af 20 millj. bandaríkjadollara framlagi vegna kostnaðar þeirra sjálfra við stjórnun og eftirlit eða 1%. Ef gert er ráð fyrir að þessi kostnaður falli til eins og greiðslur Bandaríkjamanna er þessi kostnaður 10 millj. 232 þús. kr. á verðlagi í september 1987.“

Í þriðja lagi, með leyfi forseta: „Hjá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli hefur verið eignfærður ýmis kostnaður vegna undirbúnings byggingar stöðvarinnar. Kostnaður þessi, sem hefur fallið til á árunum 1973–1983, er um 35,3 millj. kr. á verðlagi 1. jan. 1987.“ Þetta er ekki inni í tölunum yfir byggingarkostnað flugstöðvarinnar.

Í fjórða lagi, með leyfi forseta: „Nefndarlaun núverandi byggingarnefndar eru gjaldfærð og greidd hjá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Þau nema samtals um 3,2 millj. kr.“

Í fimmta lagi, með leyfi forseta: „Ýmis annar kostnaður hefur fallið til fyrir 1978 og er ekki greiddur af Íslendingum, t.d. kostnaður vegna sérfræðings frá ICAO og Vilhelm Lauritzens Tegnestue A/S. Ríkisendurskoðun hefur ekki upplýsingar um þann kostnað.“ Í raun og veru erum við því að tala um hærri tölur en koma fram í endanlegum útreikningum Ríkisendurskoðunar eða framreikningi á kostnaðaráætlun sem Seðlabanki Íslands gerði.

Ég hygg, virðulegi forseti, að þetta mál sé þess eðlis að því megi að verulegum hluta líkja við Kröflumálið fræga að því leytinu til að það er enginn ábyrgur. Og ég er sannfærður um það að allir hv. þm., jafnvel þeir sem verja kostnaðaraukann við flugstöðvarbygginguna, og raunverulega geta ekki annað, hljóta að viðurkenna það að í þessu máli hlýtur ábyrgð að falla á einhvern. Annað er hrein fásinna. Við horfðum upp á mál af þessu tagi fyrir nokkrum árum, deildum um það mjög hart hér á hinu háa Alþingi. Það mál, Kröflumálið, lagði hundruð og þúsund millj. kr. aukaskatt á íslenska þjóð. Þetta mál er af þeim toga spunnið að það gerir slíkt hið sama.

Við erum núna að tala um mjög umtalsverða aukningu á skattgreiðslum íslensku þjóðarinnar. Það er hart að þurfa að viðurkenna það að vegna óstjórnar í hönnunarmálum, vegna sambandsleysis stjórnvalda og þeirra aðila sem sáu um þessa byggingu skuli koma til nýr aukaskattur. Ég harma það mjög. Og ég hvet til þess að í framtíðinni þegar íslenska ríkið stofnar til framkvæmda af þessu tagi þá verði þess gætt vandlega að betra eftirlit verði haft með kostnaðaráætlunum og með þeim mönnum sem hafa yfirstjórn á verkum á hverjum tíma.