17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fara löngu máli um þessa skýrslu né heldur um málið almennt, heldur ætlaði ég að fara nokkrum orðum um ákveðna þætti málsins og velta því aðeins fyrir mér hér úr þessum stól, ef það mætti verða til þess að hjálpa til við áframhaldandi umhugsun og umræðu um þetta mál, velta því aðeins fyrir mér hvar er komið stöðu og ábyrgð þjóðþingsins, lýðræðisins, þingræðisins, framkvæmdarvaldsins, þegar við stöndum frammi fyrir þeirri alvarlegu staðreynd að það hefur verið farið fram úr fjárveitingaheimildum þessarar virðulegu stofnunar svo nemur 871 millj. kr. samkvæmt þessum gögnum. Það liggur einnig fyrir samkvæmt upplýsingum þessarar skýrslu að byggingarnefndin telur sig hafa haft allar heimildir í þessu efni frá sínum yfirboðara sem er þáv. hæstv. utanrrh. Allar heimildir.

Ég ímynda mér að það hafi þá gengið þannig fyrir sig að byggingarnefndin hafi óskað eftir því að fá framlag innan fjárlagaheimilda eða til viðbótar við þær úr ríkissjóði, kannski án þess að tilgreina í hvað peningarnir áttu nákvæmlega að fara, beðið um yfirfærslu á summum, tilteknum upphæðum án þess að greina frá því nákvæmlega hvort um væri að ræða rör eða gardínur eða eitthvað því um líkt. Þessar upphæðir hafi síðan verið yfirfærðar. Þetta hafi náttúrlega gerst vegna þess að í fjmrn. naut verkið velvildar undir forustu hæstv. þáv. fjmrh. sem m.a. birtist í því að nánasti samstarfsmaður hans á skrifstofu Sjálfstfl., Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri, var einn af þeim mönnum sem höfðu með málið að gera.

Nú kunna menn að velta því fyrir sér og setja á stór orð um það hvað eigi að gera við þessa menn, þ.e. hæstv. núv. samgrh., hæstv. forsrh. og framkvæmdastjóra Sjálfstfl. — sem ég ætlaði nú að fara að kalla hæstv. og væri það svo sem eftir öðru að maður yrði skyldaður til þess einn góðan veðurdag í þessu landi. — Hvað á að gera við þessa menn? Frammi fyrir því stöndum við sem hér sitjum og berum ábyrgð gagnvart þjóðinni að við eigum tveggja kosta völ samkvæmt ákvæðum íslenskra laga. Önnur leiðin er sú að ákveða það hér á Alþingi að landsdómur verði kallaður saman til þess að fjalla um embættisfærslu þessara núv. ráðherra þó í öðrum póstum séu. Hin leiðin er sú að bera fram tillögu á Alþingi um vantraust á ráðherrana. Þetta eru þau úrræði sem þingið á samkvæmt lögum landsins.

Um fyrra úrræðið, þ.e. landsdóm, er það að segja að hann hefur aldrei verið kallaður saman. Og ég hygg að það megi með nokkrum rökum halda því fram að lagaákvæðin um landsdóm séu orðin svo úrelt að það sé tæplega hægt að gera ráð fyrir því að hann teljist virkur þáttur í okkar stjórnkerfi nema með því að breyta lögunum um landsdóm frá því sem þau voru sett á sínum tíma að því er varðar vissa tæknilega útfærslu hans.

Hin leiðin, að bera fram till. til þál. um vantraust á þessa hæstv. ráðherra, er einnig mjög snúin vegna þess að þeir eru ráðherrar í samsteypustjórn og yrðu vafalaust varðir af sínum samstarfsflokkum gagnvart slíkri vantrauststillögu og þess vegna bæri hún ekki árangur að ætla má. Ég geri ekki ráð fyrir því að Alþfl. mundi þrátt fyrir yfirlýsingar formanns hans um hneykslið styðja vantrauststillögu á kollega sína í ríkisstjórn.

Og hvað er okkur þá eftir skilið í þessu efni þegar maður virðir það um leið fyrir sér að fyrir því er eitt fordæmi að opinber embættismaður hafi umsvifalaust verið leystur frá starfi vegna þess að hann fór yfir fjárlagaheimildir, fræðslustjórinn Sturla Kristjánsson, fyrir einu ári eða svo heldur vansællar minningar fyrir þessa stofnun? Hvaða leiðir eru í rauninni til? Vegna þess að það er nauðsynlegt hvað sem öllu öðru líður að átta sig á því að þegar mistök eiga sér stað er það eðli hins lýðræðislega þjóðfélags að það sé hægt að átta sig á því nákvæmlega hvar ábyrgðin liggi í málinu. Hvar liggur ábyrgðin?

Við höfum staðið frammi fyrir fleiri hliðstæðum málum hér á Alþingi, mjög erfiðum málum. Hliðstæðum að því leyti að það hefur verið erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvar ábyrgðin lægi. Dæmi: Útvegsbankamálið. Þar var um að ræða ríkisfé, ríkiseign. Þar var um það að ræða að opinberir sýslunarmenn stóðu ekki vörð um þessa eign eins og þeir hefðu átt að gera. Og má svo endalaust um það deila af hverju þetta fór svona hjá þeim en ekki á betri veg. Við héldum langar ræður daglangt og náttlangt hér í þessari virðulegu stofnun um þetta mál og ekki var það væntanlega einvörðungu til þess að halda ræðurnar, þó sumum finnist gaman að því, heldur var það kannski fyrst og fremst til þess að tjá óánægju sína með niðurstöðu. En þar við sat í rauninni. Ábyrgðin var ekki skráð á þessa aðila með þeim hætti sem nauðsynlegt er að unnt sé að gera. Ég held þess vegna að við þurfum að komast út úr því stigi ef okkur þykir vænt um lýðræðið og þingræðið, sem okkur þykir örugglega öllum, þá þurfum við að komast út úr því stigi að við látum okkur nægja að setja á langar ræður og deila um málin hér. Við þurfum að finna málum af þessu tagi eðlilegan farveg. Á að skýra t.d. betur og setja ný lög um ráðherraábyrgð svo ég nefni sem dæmi? Eða á að setja almenn lög um ábyrgð opinberra sýslunarmanna hvar svo sem þeir eru? Kæmi til greina að mínu mati. Og ég nefni þetta vegna þess að mér finnst niðurstaðan í þessu flugstöðvarmáli fyrst og fremst ákaflega dapurleg vegna þess að allir segja í rauninni: Ekki ég. Ekki ég. Þó liggur það fyrir að ákveðin upphæð, 1000 millj. kr., hefur farið fram yfir heimildir þessarar stofnunar. Þó liggur það fyrir og í rauninni gera menn lítið annað en halda langar tölur.

Þingflokkur Alþb. hefur lagt fram ákveðna tillögu þar sem lagt er til að kosin verði nefnd til þess að rannsaka þennan þátt sérstaklega, ábyrgðina hjá hönnuðum, húsameistara, byggingarnefnd, einstökum ráðherrum. Ég held að það væri skynsamlegt að setja svona nefnd niður. Það gæti verið leið að því marki að á þessum málum yrði tekið nokkuð föstum og traustum tökum. Ég mun aðeins koma nánar að þessu máli hér á eftir.

Ég sagði í upphafi máls míns, virðulegi forseti, að ég ætlaði ekki að fara að ræða þessa skýrslu nákvæmlega, það er búið að lesa mikið upp úr henni, en fjarska fannst mér athyglisverð ein setning hér neðst á bls. 56, þar sem ríkisstjórnin og Fjárlaga- og hagsýslustofnun og utanrrn. eru að reyna að hjálpast að við það að plata Ameríkanann til að fá pínulítið meira út úr honum á einu tilteknu ári. Ég ætla að lesa, virðulegi forseti, upp úr svarbréfi Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, dags. 18. nóv., við skriflegum fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar um þetta mál:

„Rétt er það sem fram kemur í bréfi yðar, að „framkvæmdastjóri byggingarnefndar“ benti Fjárlaga- og hagsýslustofnun á, skömmu eftir samþykkt fjárlaga og lánsfjárlaga, að rétt hefði verið að lækka framlag Bandaríkjamanna að sama skapi," stendur hér, sem framkvæmdum miðaði hægar árinu á undan.

Hins vegar var honum gerð grein fyrir því að þetta hefði verið gert af ásettu ráði — þeir voru svo klókir þarna í byggingarnefndinni — ásettu ráði til að halda opnum þeim farvegi ef Bandaríkjamenn væru fúsir að láta fé af hendi rakna til framkvæmdanna örar en áætlað hafði verið.

Þannig átti að opna þann möguleika að Kaninn borgaði aðeins meira og það átti að reyna að svindla pínulítið á þeim, Könunum, með því að láta þá ekki vita alveg nákvæmlega hvernig þetta hefði gengið fyrir sig á fyrra ári. Þessi setning vakti athygli mína á þeim móral sem var í kringum þessa framkvæmd þar sem allir reyndu að plata alla að því er virðist.

Að lokum er staðan sú að sá sem situr hér á móti mér ber í rauninni stærsta ábyrgð á þessu máli, að mínu mati, hvað sem öllu öðru líður.

Ég ætla að víkja aðeins, virðulegi forseti, að ræðu hæstv. samgrh. Það var fyrst það þegar hann sagði að það væru aðallega óánægðir vinstri menn og herstöðvaandstæðingar sem hefðu verið að agnúast út í þessa flugstöð. Þeir hefðu helst viljað hafa gömlu flugstöðina til þess að fólk sem kæmi til landsins og færi frá því sæi að herinn væri hér og ekki yrði um þennan aðskilnað að ræða. Og hæstv. ráðherra tók þannig til orða að þessir herstöðvaandstæðingar hefðu haft þessa afstöðu vegna þess að þeir hefðu pólitíska hagsmuni af óbreyttu ástandi.

Ég segi alveg eins og er að ég skil ekki hvernig í ósköpunum hæstv. ráðherra finnur þetta út því að staðreyndin er sú að andstaða okkar við flugstöðina stafaði fyrst og fremst af því að inn í þetta samgöngumannvirki, sem á að þjóna Íslendingum, voru teknir erlendir peningar. Við töldum að með þessu væri verið að innleiða aronskuna hér í íslensku efnahagskerfi og utanríkismálastefnu. Við vöruðum við þessu og áttum í rauninni lengi vel góðan stuðning í þessum efnum hjá ákveðnum hópi í Sjálfstfl. sem vildi ekki blanda saman efnahagslegum hagsmunum og utanríkisstefnunni. Við lögðumst gegn flugstöðinni og byggingu hennar, eins og hæstv. samgrh. benti á, og stöðvuðum í raun og veru þessar hugmyndir á árunum 1980–1983.

Ég man það örugglega lengi hvernig sendiherra Bandaríkjanna á þeim tíma, Marshall Brement, reyndi aftur og aftur að hafa áhrif á atburðarásina á árunum 1980-1983 til þess að tryggja það að af þessari framkvæmd yrði og Alþb. sem andstöðuflokkur í þessu efni yrði borið ofurliði. Það eru býsna skuggalegir hlutir sem verður kannski sagt frá eftir 30 ár þegar birtar verða dagbækur bandarískra sendiherra á Íslandi frá árunum 1980–1983 eins og nú er verið að gera frá árunum 1945-1950. Það hygg ég að verði býsna fróðlegir hlutir að sjá.

Auðvitað var þróun málsins sú að íhaldið og kratarnir og Kaninn höfðu á því sérstakan pólitískan áhuga að koma þessari flugstöð upp til þess að ganga yfir herstöðvaandstæðinga í þessu landi. Þeir höfðu pólitískan áhuga á því og það er þess vegna engin tilviljun að rétt eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er mynduð árið 1983 þá er gengið frá upphaflegum pappírum í sambandi við þetta mál. Ég tel að offorsið í málinu hafi stafað af því að þarna voru menn að reisa pólitískt flagg. Þarna var flaggskipið sem átti að sigla á þessu kjörtímabili, 1983–1987, í þessum málum og það var reynt þó að niðurstaðan liggi nú fyrir, sem sé sú að það er brotlending í málinu. Þrátt fyrir myndirnar af frambjóðendunum í Reykjaneskjördæmi rétt fyrir kosningar fyrir utan flugstöðina, litprentaðar í kosningabæklingum íhaldsins á Reykjanesi, þrátt fyrir það að það tækist að opna sjoppuna fyrir kosningarnar, þrátt fyrir dýrðina, þá er um pólitíska dapurlega brotlendingu að ræða.

Það er eitt atriði enn sem ég ætla að nefna hér, virðulegur forseti, úr þessum aðdraganda í sambandi við Alþb. og það var að Alþb. hafði áhrif á það að húsið var minnkað, plönin um húsið voru minnkuð. Og til marks um skepnuskap Alþb. og þröngsýni, hvað haldið þið að ráðherrann hafi nefnt: Reykskynjara! Reykskynjarar voru skornir niður úr hönnuninni fyrir kröfu Alþb. Hugsið ykkur þvílíkt og annað eins! Ja, það er erfitt að finna rök þegar menn þurfa að sækja svona langt eftir þeim.

Hæstv. samgrh. sagði: Það kom snemma í ljós að niðurskurðurinn var óraunhæfur. Og þá ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju var það ekki tryggt að Alþingi væri látið vita af þessu? Ég er að spyrja hæstv. ráðherra og ég vil að hann svari því: Af hverju var Alþingi ekki látið vita? Af hverju gerðist það haustið 1984 að við fengum ekki tillögur um hækkanir á þessum framlögum heldur blað frá utanrrn. um það að í rauninni hefði flugstöðvarplanið reynst mikið ódýrara en áður hafði verið gert ráð fyrir. Og talsmenn flugstöðvarinnar í þessum sal gengu hér um með stjörnur í augunum og sögðu: Þetta verður ódýr flugstöð, ódýrari en talað hafði verið um.

Þessi ódýri pappír, í margföldum skilningi þess orðs, er eini marktæki pappírinn, ekki marktæki í raun og veru, eini formlegi pappírinn sem fjh.- og viðskn. fékk um þessa flugstöð árin 1983, 1984,1985 og 1986. Ekkert annað liggur þar fyrir. Ég hef beðið starfsmann fjh.- og viðskn. Nd. og formann nefndarinnar bæði nú og á síðasta kjörtímabili að rannsaka það hvaða pappírar eru til. Það er býsna ræfilslegt og ekki mikið af því að hafa.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn láta Alþingi ekki vita? Vildu menn fela þetta fyrir Alþingi? Er það hugsanlegt að þingið og þjóðin hafi ekki mátt frétta af þessu? Getur það verið, eins og hv. 18. þm. Reykv. lét liggja að hér áðan, að leyndin hafi að einhverju leyti verið með ráðnum hug, að það hafi átt að fela þennan umframkostnað fram yfir kosningarnar 1987? Getur það verið? Og ég spyr hæstv. samgrh.: Er hann tilbúinn til að leggja fram þau bréf til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem utanrrh. sagði frá hér áðan? Ég vil fá að sjá þau bréf. Ég vil fá að sjá þau bréf sem hæstv. utanrrh. sagði að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefði fengið um þetta mál þegar kostnaðurinn fór hækkandi. Alþingi á rétt á því að fá að sjá þau bréf og Alþingi á líka rétt á því að fá svör við því frá hæstv. þáv. fjmrh. hvort hann hafi séð bréfin, hvort hann hafi fengið bréfin. Ef svo er: Af hverju lét hann þá Alþingi ekki vita? Og ef hann fékk þau ekki: Voru embættismenn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að fara á bak við hann í þessu efni? Eða voru engin bréf? Er það rangt sem utanrrh. sagði hér áðan? Voru engin bréf í þessu efni? Var það kannski byggingarnefndin og utanrrh. þáv. sem allan tímann voru að fara á bak við fjmrh.? Eða var byggingarnefndin að fara á bak við hæstv. þáv. utanrrh.?

Ég segi fyrir mig, virðulegi forseti, ég er sannfærður um það að hæstv. þáv. utanrrh. og hæstv. þáv. fjmrh. hljóta að hafa vitað um þennan umframkostnað miklu fyrr en bréfin fóru að berast. Það getur ekki annað verið. Þó það sé ekki nema vegna þess að sérlegur flokksfulltrúi Sjálfstfl. í byggingarnefndinni er framkvæmdastjóri sama flokks.

Ég sagði hér áðan, virðulegur forseti: Hvar er ábyrgðin? Er ábyrgðin hjá hönnuðunum? Þeim hafa orðið á mistök. Er ábyrgðin þar? Hvaða leið er þá til þess að slá því föstu að þeir hafi ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem væri nauðsynlegt ef þeir hafa misfarið með þann trúnað sem þeim var sýndur? Í læknalögum eru ákvæði um það að ef læknar standa að verkum með þeim hætti sem ámælisverður er út frá þeirra faglegu forsendum, þá eigi að svipta þá embættisleyfi, læknaleyfi. Á að fara í mál við hönnuðina? Hver á að gera það? Á hæstv. fjmrh. að fara í mál við hönnuðina og þar með í rauninni við sjálfan sig? Húsameistari ríkisins í öðru lagi ber stórfellda ábyrgð í þessu máli eins og hv. þm. Árni Gunnarsson benti á áðan og ég er alveg sammála honum um það að það hefði átt að vera búið að loka þeirri „stasjón“ fyrir löngu, löngu, löngu. Ég kynntist því best eftir að ég fór að vinna hér niðri í þessum húsum. Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir. Ber hann ábyrgð? Hver mundi eiga að höfða mál gagnvart húsameistara ríkisins? Byggingarnefndin? Er ábyrgðin þar? Utanrrh. þáv. Er ábyrgðin þar? Um það hef ég rætt nokkuð. Hæstv. þáv. fjmrh.? Hæstv. þáv. forsrh.? Núverandi utanrrh.? Alþingi?

Ég hygg að út af fyrir sig megi segja að Alþingi eða meiri hluti Alþingis beri ábyrgð í þessu máli vegna þess að Alþingi eða meiri hluti Alþingis báru ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem sat hér á þessum árum, 1983–1987. Þannig séð ber því Alþingi auðvitað vissa ábyrgð. En ef hvergi er hægt að koma fram ábyrgð gagnvart öllum þessum aðilum, hvað segir þá blessuð þjóðin sem sýnir okkur trúnaðinn? Hvað segir hún, og borgar kostnaðinn?

Það er kannski athyglisvert að bera þessar tölur, 871 millj. kr., saman við ýmis útgjöld ríkisins á þessu ári, 1987. Það má kannski nefna það að heildarútgjöld ríkisins til dagvistarstofnana á þessu ári eru 40 millj. kr. Þetta hefði nægt fyrir 22 ársframlögum þáverandi ríkisstjórnar til dagvistarheimila. Tuttugu og tveggja ára framlögum. Og það mætti bera þetta saman við fleira. Það má líka væntanlega benda á með fullri virðingu, herra forseti, að allt framlag Bandaríkjamanna er minna en umframkostnaðurinn þannig að þið hafið sjálfir staðfest það sem við sögðum að auðvitað gætum við byggt flugstöð sjálf. Framlag Bandaríkjamanna er minna en það sem fer fram úr í kostnaði við þessa stöð.

Ég hef hér, herra forseti, vikið að nokkrum almennum atriðum varðandi þetta mál og ætla að segja að lokum þetta:

Í fyrsta lagi. Er nauðsynlegt fyrir þingið að velta því fyrir sér hvort að það á að setja lög um ábyrgð opinberra sýslunarmanna og þar með að skýra lögin um ráðherraábyrgð vegna þess að landsdómsúrræðið og vantraustsúrræðið í þessu máli er dautt?

Í öðru lagi tel ég að þetta mál sýni það sem ég hef margoft nefnt úr þessum ræðustól og það er að það þarf að opna löglegar leiðir til að hér geti farið fram opnar yfirheyrslur yfir embættismönnum og stofnunum, rétt eins og tíðkast hefur í Bandaríkjunum um áratuga skeið og skapað virðingu þar í landi fyrir lýðræðinu og því að þar sé tekið heiðarlega á svona málum hver svo sem í hlut á og það sé ekki mikill munur á Jóni og séra Jóni.

Í þriðja lagi. Þetta mál er angi af herstöðvarmálinu og það sýnir betur en flest annað þá spillingu sem fylgir erlendu gjafafé. Þegar menn fara að taka við erlendu gjafafé til að knýja fram pólitísk mál eins og þetta, þá er hætta á spillingu. Það kemur fram í þessu máli.

Aðalatriðið er þó þetta, herra forseti: Því miður er þetta dapurlegt mál fyrir lýðræðið og þingræðið og við verðum að finna leið, sameinast um að finna leið sem tekur á málum af þessu tagi þannig að Alþingi Íslendinga öðlist þá reisn í vitund þjóðarinnar sem það þarf að eiga, það sé stofnun sem tekur á málum af þessu tagi af fullum myndugleik og veit hvernig á að gera það eftir mörkuðum leikreglum sem styðjast við eðlilegan lagabókstaf.