20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

31. mál, klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska

Flm. (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað. Þessi till. er ekki komin fram fyrir tilviljun. Aðdragandi hennar er langur út af fyrir sig þó þetta mál hafi verið flutt á Alþingi áður eins og bent hefur verið á.

Ég kynntist fyrst fiskeldi sennilega í kringum 1958 og hef fylgst með þeim málum gerla síðan og unnið við þau fyrstu árin þegar Kollafjarðarstöðin fór af stað þannig að mér er ekki ókunnugt um þessi mál.

Ég rifja líka upp að 1965 skoðaði ég í Noregi tilraunir á þessu sviði, þ.e. á sviði sjávarfiska, og hef alla tíð síðan haft þetta mál uppi sem eitt af þeim málum sem ég tel að væru mjög mikilvæg fyrir þjóðina. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið 1974 sem m.a. fjallaði um þetta og kom þá mjög svipaðri tillögu á framfæri. Ég sendi líka þingflokki Sjálfstfl. bréf 1985 sama efnis til að ítreka þetta. En ég tel að þær umræður sem hér hafa átt sér stað séu mjög jákvæðar.

Ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um þessi mál og tel að það sé mjög brýnt að það sé mörkuð mjög skýr og góð stefna í þessu. Eins vil ég taka undir það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði, sérstaklega það að hann taldi að sjávarfiskar yrðu í framtíðinni nokkurs konar húsdýr. Ég vil í því sambandi sérstaklega undirstrika að í þessari till. eru ekki undanskilin sérstaklega humar og rækja eða annað slíkt.

Það er alveg ljóst að þessi mál eru mjög víðtæk og sú tillaga sem hér er flutt er fyrst og fremst til að snerpa á þessum málum en engan veginn bundin á klafa þannig að menn geti ekki farið einhverjar aðrar leiðir. Við tillögumenn erum ekki sérstaklega fastheldnir á orðalag hennar, ef það þykir meiri háttar mál, og við munum verða opnir fyrir því að það sé tekið með víðsýni á þessu máli því að ég hygg að það muni verða stórmál í framtíðinni. Ég undirstrika að mjög víðtækar rannsóknir hafa átt sér stað á þessu sviði, bæði í Japan, Rússlandi, Noregi og með mörgum öðrum þjóðum, þannig að það er ekki bara ein þjóð sem hefur haft forustu um þetta.

Ég tek líka undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson sagði um þessi mál. Hann kom inn á vatnafiska reyndar líka, t.d. bleikju. Ég man að 1963, þegar við vorum að vinna í eldisstöðinni á Kollafirði, var einmitt verið að gera tilraunir með bleikju. Ég veit ekki hvernig því hefur reitt af síðan, en sannleikurinn er sá að hún er afskaplega auðalinn fiskur og mjög gott að eiga við hana á allan hátt.

Einnig vil ég taka undir það sem hv. 4. þm. Reykn. sagði um þetta. Hann sagði að honum fyndust þetta mjög athyglisverðar tillögur og rakti síðan þær tillögur sem fram komu á Alþingi 1980 og voru fluttar af Magnúsi Magnússyni og Árna Gunnarssyni.

Ég held að þær umræður sem hér hafa átt sér stað séu mjög jákvæðar og ég tel mjög mikilvægt að við sameinumst á Alþingi um að fá þessum tillögum þann farveg sem skiptir máli og það sé unnið að þeim mjög markvisst og þetta geti haft áhrif, eins og hv. 10. þm. Reykv. kom réttilega inn á, til þess að við tryggjum klak okkar nytjafiska í sjónum og einnig að við getum hugsanlega haft eldi innan einhverra marka á þeim hér við ströndina.

Ég vil minna í þessu sambandi á frétt sem var í síðustu viku, ef ég man rétt, í einhverjum fjölmiðli um að Japanar væru með tilraunir með karfa. Þeir tóku hann inn í hafbeitarstöð fyrst og síðan slepptu þeir honum á haf út, en þeir voru búnir að venja hann áður á ákveðin hljóðmerki þannig að 10% af stofninum komu inn aftur til að taka við fóðri. Þetta eru mjög athyglisverðar tilraunir. Ég held að við verðum að fylgjast með á þessu sviði og nýta okkur það því að ég tel að hafið hér í kring geti fætt miklu fleiri fiska en við veiðum í dag og geti orðið grundvöllur að meiri og betri efnahagsafkomu og tryggt jafnframt að þær sveiflur sem hafa orðið í sjávarútvegi og veiðum verði ekki jafnmiklar og nú er.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, þakka fyrir þær umræður sem hafa verið hér og vona að við getum sameinast um að koma þeim í þann farveg að það verði öllum til góðs.