17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, aðeins koma að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í umræðum hér.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði allmörg orð um framsöguræðu mína. Ég vil segja það um hana að ég tók ákvörðun um að leggja þessa skýrslu fram hér til þess að hana mætti ræða. Ég gerði mér far um að gerast ekki dómari í þessu máli, enda tók ég fram í upphafi minnar ræðu að þekking mín á málinu væri í raun ekkert meiri en kemur fram í þessari skýrslu. Ég reyndi að fara yfir niðurstöðurnar hlutlaust, en það hefur hv. þm. auðsjáanlega ekki þótt ég gera.

Ég tók t.d. mjög greinilega fram að það sem væri ámælisvert væri að viðbót er ákveðin við bygginguna án þess að fjárveitingarvaldið viti um það. Þetta tók ég skýrt fram. Ég tók líka skýrt fram að það hefðu augljóslega orðið mistök í hönnun og m.a. stafaði það af því að þarna lægju mismunandi staðlar til grundvallar. Hv. þm. gerir athugasemd við að ég hafi ekki lesið 7. bls. alla. Það er megininntakið í fyrri hluta 7. bls., sem ég var þá búinn að rekja, að það hefðu orðið mistök í hönnun sem af þessum ástæðum stafa.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki talið postulínstæki þarna suður frá eða annað þess háttar og er ekki eins kunnugur þeim atriðum og hv. þm, augljóslega er.

Ég tók líka fram að það væru mistök að fjárveitingarvaldinu hefði ekki verið gerð grein fyrir umframkostnaði fyrr en í apríl 1987. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að þetta séu þau meginatriði, sem fram komu í skýrslunni, sem eru svo sannarlega umræðu- og athugunarverð.

Hv. þm. mislíkar að ég skuli ekki hafa lesið úr skýrslunni nokkur atriði sem Ríkisendurskoðun segir og má telja jákvæð fyrir byggingarnefnd. Þau þrjú sem ég hef nú rakið eru augljóslega neikvæð fyrir þá sem voru með yfirstjórn byggingarinnar. Ég rakti nokkur atriði sem má segja að hafi verið jákvæð. Af hverju mega þau ekki koma líka fram þannig að hlutirnir séu í sæmilegu jafnvægi? Það var mín ætlun en ekki að gerast dómari í þessu máli. Á það vil ég leggja ríka áherslu.

Hér hefur verið töluvert um það spurt hver beri ábyrgðina og menn hafa haldið hér ræður um það. Mér datt satt að segja ekki í hug að nokkur þyrfti að efast um það. Við samþykktum lög sem fólu utanrrh., sem sat á hverjum tíma, að sjá um bygginguna. Ég held að það sé alveg ljóst að utanrrh. ber ábyrgð, enda hefur ekkert verið skorast undan ábyrgð. Ég hef ekki orðið var við það. Spurningin er hins vegar um hækkanir. Það er fyrst og fremst um þær að ræða sem hafa komið á borð utanrrh. Ég hygg að það sé reyndar ekki í tíð núv. hæstv. samgrh. heldur mun það vera fyrr. Það er fyrst og fremst um þessar viðbætur að ræða. Ég las úr skýrslu Ríkisendurskoðunar álit Ríkisendurskoðunar á því að þetta kunni að hafa verið nauðsynlegt til að byggingin væri starfshæf eða gæti sinnt því hlutverki sem henni er ætlað.

Mér sýnist það ekki nein goðgá þó slíks sé getið. Hitt er svo annað mál ef við viðurkennum að það hafi verið nauðsynlegt t.d. að hafa sex landganga í staðinn fyrir þrjá o.s.frv. Ég viðurkenni það. Ég held að það hafi tvímælalaust verið nauðsynlegt. En þá er það hin spurningin, sem er vissulega umhugsunarverð, ef þörfinni fyrir aukið fjármagn í þessu skyni og öðru sem þar er í skýrslunni er ekki komið eðlilega á framfæri við fjárveitingarvaldið. Það er gagnrýni vert.

Af því að hér var töluvert fjallað um aðra skýrslu, sem ég hef látið leggja hér fram, sem er þó ekki til umræðu, vil ég segja þetta: Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að það var of mikill flýtir á þessari skýrslu, en það var gert í þeirri góðu trú af þeim mönnum sem unnu hana að hún yrði rædd hér í dag og af því að þeir vissu að hún yrði á dagskrá og einnig að það væri mjög þarft að hafa þá skýrslu við hendina meðan skýrsla Ríkisendurskoðunar er rædd. (SJS: Hverjir unnu skýrsluna?) Það er nokkuð langt mál að telja þá upp, en Þorsteinn Ingólfsson, sem er forstöðumaður varnarmáladeildar og kemur að þessu máli mjög seint og ég get sagt að sé nokkuð hlutlaus í þessu máli, hafði yfirumsjón með vinnslu þessarar skýrslu. Til voru kallaðir ýmsir þeir verkfræðingar sem gleggstar upplýsingar hafa um tölur. Ef hv, þm. þykir skýrslan of stutt er mér um það að kenna. Ég óskaði eftir því að hún yrði einu sinni stutt en greinileg. Ég óskaði líka eftir því að þarna yrði dregið fram betur en ég hef séð að hvaða leyti kostnaðurinn væri vegna meiri verðhækkana á tímabilinu en raun varð á. Það er hárrétt, sem hæstv. fjmrh. sagði í dag, að það var gert ráð fyrir 8,5 millj. dollara vegna verðhækkana á tímabilinu. Það eru um 24% eða þar um bil. Verðhækkanir á tímabilinu urðu 88%. Þess vegna, eins og kemur fram í þessari skýrslu, má rekja til verðhækkana 962 millj. umfram áætlun ef ég man þessa tölu rétt. Ég taldi vera gott fyrir þm. að hafa þetta einnig fyrir framan sig.

Ég hef hins vegar upplýst að ýmsar villur urðu í skýrslunni og hún yrði dregin til baka af þeim sökum. Ég tel mér alls ekki heimilt að breyta efnislega því skjali sem búið er að leggja fram. Hins vegar hef ég gert ráðstafanir til þess að viðbót verði lögð fram sem skýrir nánar t.d. hvernig á þessum mismun stendur. Það er rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að það kemur ekki nógu glöggt fram í skýrslunni. Hvort hv. þm. verða ánægðir með þær skýringar veit ég ekki, en það verður gerð tilraun til að skýra það aðeins nánar.

Um það atriði, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggur áherslu á að dregið verði út úr skýrslunni, verð ég að svara því að ég tel mig ekki hafa heimild til þess, en ég bendi á að það sem ég hef sagt um það atriði er væntanlega þegar komið í þingskjöl eða a.m.k. á segulband þingsins og ég held að það sé jafngilt þar og þó það væri í prentuðu formi.

Hins vegar vil ég taka undir það að lokum með hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að þetta er ekki besti tími til að ræða þetta stóra mál og hefði mín vegna gjarnan mátt bíða þar til eftir áramótin. Sú skýrsla verður þá væntanlega til umræðu og við getum tekið upp þráðinn aftur, sömuleiðis sú till. sem hér liggur fyrir um rannsóknarnefnd.