18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Meiri hl. þessarar deildar, hv. þm. Egill Jónsson, Salome Þorkelsdóttir, Jóhann Einvarðsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Blöndal, Eiður Guðnason, Stefán Guðmundsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Karl Steinar Guðnason, Jón Helgason og Halldór Ásgrímsson hafa tekið um það ákvörðun að fjmrh. megi ekki endurgreiða söluskatt af mjólk og mjólkurvörum. Ég óska eftir því í tilefni af þessum ákvörðunum meiri hl. að atkvæðagreiðslu um þetta mál verði frestað og fjmrh. verði kallaður inn í salinn til að lýsa því yfir hvaða afstöðu hann hefur. Mun hann ekki endurgreiða söluskatt af mjólk og mjólkurafurðum og þar með verða við þeirri ákvörðun sem meiri hl. tók eða mun hann hafa ákvörðun meiri hl. að engu og endurgreiða þrátt fyrir ykkar afstöðu, í blóra við ykkur, söluskatt af mjólk?

Ég veit að það yrði mikið högg fyrir meiri hl. hér ef fjmrh. réðist þannig gegn honum og endurgreiddi söluskatt af mjólkurafurðum, en það er óhjákvæmilegt að þetta komi fram og ég óska eftir því að fundinum verði frestað, fjmrh. verði kallaður hér inn og geri grein fyrir afstöðu sinni í málinu.