18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir ágæta og fróðlega ræðu hans um heilbrigðismál og heilbrigðisþjónustu og sérstaklega skemmtilegt ferðalag sem hann fór með okkur í kringum landið og hann lýsti þar uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og heilsugæslustöðvanna, að vísu í huganum, en það var fróðlegt samt og bar þess vitni að hann hefur sett sig vel inn í mál og fylgst vel með þegar hann var í embætti heilbrmrh. og fylgst með framgangi mála síðan eins og við er að búast með mál sem menn á annað borð hafa áhuga á að fylgjast með. Það heyri ég að hann hefur gert og mér fannst margt fróðlegt sem hann benti á og ég var um margt sammála honum í hans ræðu.

Heilbrigðisþjónustan er léleg, sagði hv. þm. eða eitthvað í þá veru. (SvG: Nei, ég orðaði það nú ekki þannig.) Það var a.m.k. mjög nærri því, en ... (Gripið fram í.) Ég skal ekki fullyrða að það hafi verið orðrétt svo, en ég vil ekki leggja neinn dóm á það. Ég vil hins vegar taka undir með honum að ég held að ef það heilsugæsluform væri að fullu í gildi sem lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir væri heilbrigðisfræðslu og forvarnarstörfum betur komið en ég hygg að sé miðað við það form sem hér gildir og það tvenns konar kerfi sem hér ríkir. Ég þarf ekkert að endurtaka það sem ég sagði í framsöguræðu minni með frv. að ég hefði áhuga á að koma því formi á sem lögin gera ráð fyrir og hefði áhuga á að beita mér fyrir því svo fljótt sem verða má.

Ég þakka einnig þessum hv. þm. fyrir falleg orð í minn garð. Það er auðvitað alltaf gaman að fá svoleiðis kveðjur. Hvort maður á þær skilið er svo aftur annað mál, en ég held þó að ég geti fullyrt að ég vil gjarnan vinna að þessu máli á félagslegum grundvelli og viðhafa víðsýni og samstarf við alla aðila sem málið varðar, eins og hann orðaði það einnig, eða a.m.k. eitthvað í þessa veru, þó að ég vilji ekki heldur segja að það hafi verið orðrétt svona hjá hv. þm. Það þýðir það að ég vil mjög gjarnan leita eftir samkomulagi um að fylgja þessu máli fram. Þess vegna held ég að sé nauðsynlegt að leggja fram það frv. sem hér liggur fyrir og fá það samþykkt og ég er ekki tilbúinn til þess að draga það til baka.

Ég vil hins vegar leggja mig fram um að flýta málinu svo sem verða má og minni á að það eru nú þegar í gangi viðræður við Garðakaupstað. Þá eru öll, ef það fer fram sem horfir nú, heilsugæsluumdæmi farin að vinna samkvæmt lögunum nema Reykjavíkurlæknishérað og ég ítreka einnig eða árétta það sem kom fram í ræðu hv. þm. að það tókst að lokum að ná samkomulagi um þetta í öðrum heilsugæsluumdæmum eins og t.d. á Akureyri sem er ekki langt síðan, líklega þrjú ár. Það gerðist með fullkomnu samkomulagi og ég held að það sé miklu betra en að láta lögin koma nú til framkvæmda við þær aðstæður sem eru í dag án þess að hafa náð um það fullu samkomulagi við alla aðila. Og ég fullvissa hv. þm. um það að þetta er stjfrv. sem liggur fyrir. Um það ríkir algjör samstaða. Ég vil þó segja við hann að ég hefði getað hugsað mér það að vinna þessu máli framgang hraðar en tekist hefur. E.t.v. tekst okkur að gera það strax í upphafi næsta árs og lögin hefðu þess vegna ekki þurft að gilda til ársloka. Ég held að það sé skynsamlegt samt að vera ekki að setja sér þannig neina hengingaról í þessu efni, að setja dagsetningu t.d. um mitt ár sem ég hefði þó vel getað hugsað mér. Ég held því að það sé rétt að hafa þetta eins og hér er orðað að lögin gildi til ársloka 1988 eða í eitt ár svo sem verið hefur að undanförnu.

Ég veit að ég á fullan stuðning í þessu máli hjá ráðherrum og þm. Alþfl., af því að hv. þm. spurði um það sérstaklega, og ég þykist nokkuð viss um sjónarmið embættismanna einnig. Hv. þm. þarf í raun ekkert að segja mér um það. Ég hef auðvitað rætt þessi mál við þá. En það var líka sameiginleg niðurstaða okkar allra sem um malið fjölluðum að rétt væri að vinna því framgang á þennan hátt, þ.e. fá þarna viðbótarfrest og ég vitna þá til þess sem hann rakti í sinni ræðu áðan, hv. þm., að ráðherrann er nýkominn til starfa. Að vísu átti það við um annan fyrrv. ráðherra sem hann var að vitna til þá, en það á einnig við í þessu tilviki og ég vonast til þess að hann, hv. 7. þm. Reykv., gefi mér tíma til þess að reyna að leita þess samkomulags sem ég held að sé miklu skynsamlegra að viðhafa í þessu máli. Ég held að það sé farsælla.

Hvað kann að gerast að ári, takist okkur ekki að nota þetta ár til þess að koma málum fram svo sem hér er boðað og svo sem ég hef lýst vilja til að gera, þá getur vel verið að við verðum sammála um einhverja aðra málsmeðferð, við hv. þm.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að fara um þetta mikið fleiri orðum. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem þegar hefur komið fram og það sem fram kemur í grg. frv. Ég hef reynt að lýsa huga mínum til málsins. Ég vil þó aðeins segja það við hv. 7. þm. Reykv. og aðra ágæta hv. þm. hér inni að það heilbrigðisþing sem hv. þm. vitnaði til verður haldið 5. febrúar nk. Undirbúningur að því þingi er í fullum gangi og mig langar líka til að gleðja hv. þm. með því, ef hann vildi bara gefa orðum mínum gaum, einni setningu, að ég hef þegar sent honum boðsbréf á þessa ráðstefnu, ég gerði það í gær og vona því að honum berist það í pósti á morgun eða hinn daginn, þannig að það fari ekki milli mála. Auk þess hefur hv. heilbr.- og trn. þingsins verið boðið að senda fulltrúa á þetta þing og ég vonast til þess að sem flestir sem fá boð á þingið sjái sér fært að sitja það. Ég held að það sé mikilvægt. Ég vil nota það tækifæri, þetta þing, til þess að fjalla um þá heilbrigðisáætlun sem hér var lögð fram á síðasta þingi og þá gefst auðvitað tækifæri til þess að ræða ítarlega um heilbrigðismál sem við höfum vart tíma til að taka almenna umræðu um hér og nú. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram að lokum, herra forseti.

Ég ítreka svo aðeins það að ég vona að hv. heilbr.og trn. geti afgreitt þetta mál með nokkru hraði. Það er auðvitað ekki gott að þurfa að afgreiða mál með hraði, hvorki þetta eða annað. Það er reyndar synd að það skuli ekki vera fyrr fram komið fyrst talin var nauðsyn á því að fá þessa framlengingu. Það stafaði að hluta til af því að ég vonaðist til þess að samningum við Garðbæinga gæti lokið fyrir áramót þannig að það hefði ekki þurft að vera í þessu frv. ákvæði um annað en Reykjavíkurlæknishérað en það hafðist ekki af, því miður, og þess vegna er þetta frv. flutt og er óbreytt frá því sem flutt var í fyrra. Þá voru það aðeins þessi tvö umdæmi sem eftir voru, en ég vona að ekki þurfi að flytja svona frv. aftur.