18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af fsp. hv. 7. þm. Reykv. Ég lét það reyndar koma fram áðan að ég teldi ekki æskilegt að fresta málinu alveg og færði fyrir því þau rök að ég teldi að það væri betra að vinna þessu máli framgang með samkomulagi við hlutaðeigandi aðila. Það hefur tekist með samkomulagi við önnur sveitarfélög og eru nú í gangi samningar við Garðakaupstað sem ég vona að leiði til þess að við náum þar fram okkar sjónarmiðum sem við eigum sameiginleg í þessu, við hv. þm. Við erum sammála um hvernig við viljum að þessi mál gangi fram. Ég legg hins vegar áherslu á að fá frest til að vinna það. Ég mun reyna að hefja það starf gagnvart Reykjavíkurborg strax á nýbyrjuðu ári þannig að það þurfi ekki að dragast lengi fram eftir.

Hvað varðar sjónarmið embættismanna og hugmyndir þeirra um að vinna þetta mál lét ég það líka koma fram í fyrra svari mínu til hv. þm., en hann hefur þá ekki lagt alveg eyru eftir því. Ég veit að þeirra sjónarmið eru þannig í heilbr.- og trmrn. að þeir vilja gjarnan að lög um heilbrigðisþjónustu nái fram að ganga, en voru sammála mér um að við yrðum einu sinni enn að leita eftir því að fá frest, fá framlengingu með því að leggja til breytingar á lögunum til að heimila það form sem nú gildir áfram um sinn í Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæmi Garðakaupstaðar.

Hvað varðar það að flýta málinu meira en hér er gert ráð fyrir, þá vil ég aðeins ítreka að ég hyggst hefja þessar samningaviðræður, ef ég fæ að hafa þann hatt á málinu og vinna málið þannig fram, strax upp úr áramótum og vonast til þess að því geti verið lokið tímanlega þannig að við lendum ekki í neinu öngþveiti með þetta aftur síðari hluta næsta árs eða í desembermánuði. Ég vil ekkert útiloka að menn næðu samkomulagi um einhver önnur tímamörk í því en árslok. Ég vil ekkert útiloka það þó að ég nefndi áðan t.d. mitt ár, en það er kannski ekki besti tími heldur að vera að stefna þessu inn á sumarið. Ef okkur tekst ekki að leysa þetta seinni part vetrar verður aftur að taka það upp á haustmánuðum næsta árs og ég vildi alls ekki hafna því að það kæmi til greina að semja um einhver önnur tímamörk en er í þessu frv. gerð tillaga um. En til þess að fylgja fordæmi sem verið hefur og til að hafa tímann örugglega rúman fannst mér eðlilegt að miða það við áramótin eins og hér er gerð tillaga um.

Ég vona að ég hafi þá svarað þeim fsp. sem beint var til mín frá hv. þm. Það var aðallega tvennt. Annars vegar um að fresta málinu. Það tel ég að sé ekki rétt og ég bið hv. þingdeild að vinna málið fram og ég veit að ef hv. heilbr.- og trmrn. vill hjálpa mér og við náum samkomulagi um að afgreiða málið þarf þetta ekki að taka langan tíma. Það er búið að fara í gegnum Nd., var samþykkt þar án mótatkvæða. Að vísu hafði einn hv. þm. fyrirvara við undirskrift nál. Það var hv. 13. þm. Reykv. sem á sæti í heilbr.- og trn. og hafði fyrirvara um málið. En málið var sem sagt samþykkt þar með öllum greiddum atkvæðum og ég vona að okkur takist að koma þessu fram hér líka þó tíminn sé naumur. Ég viðurkenni það og gaf reyndar líka skýringu á því áðan af hverju það hefði ekki verið fyrr fram lagt. Ég var að vonast til þess að við gætum náð samkomulagi við Garðbæingana fyrir áramót sem sýnt er að ekki verður.

Ég ítreka að ég fer eindregið fram á að málið fái framgang á hv. Alþingi fyrir jólahlé eða fyrir áramót og er þá frekar tilbúinn til að skoða hvort menn geta komist að einhverju samkomulagi um tímasetningar nánar, þó best þætti mér að þetta væri óbreytt og þyrfti ekki að taka það aftur inn í Nd. til umræðu þar, og þá gæti það hugsanlega leitt til einhverra erfiðleika við að koma málinu í gegn, og heiti því að beita mér fyrir því að efni málsins fái framgang á næsta ári sem er auðvitað það mikilvægasta.