18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér skilst að til umræðu sé 125. mál, frv. til l. um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fjh.- og viðskn. hefur athugað frv. og fengið á sinn fund ríkisskattstjóra og skrifstofustjóra fjmrn. að ég ætla, Indriða Þorláksson, og gáfu þeir ýmsar gagnlegar upplýsingar um stöðu málsins og var farið yfir einstakar greinar frv.

Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með samþykki frv., en skylt er að taka fram að hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson gerir þann fyrirvara að tryggt verði með ákvæði í lögum að vasapeningar aldraðra og öryrkja á stofnunum verði undir engum kringumstæðum skertir með sköttum og undir þennan fyrirvara taka Júlíus Sólnes, hv. 7. þm. Reykn. og hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir sem setið hefur fundi nefndarinnar.

Ég vil taka fram af þessu tilefni að nefndarmenn eru allir sammála um að undir engum kringumstæðum geti komið til greina að vasapeningar aldraðra og öryrkja á stofnunum séu skertir og sé svo skv. núgildandi lögum um staðgreiðslu að hætta sé á því verður að sjálfsögðu að kippa því í lag, en slík lagaákvæði eiga ekki heima í frv. sem við erum hér að fjalla um og er um það algert samkomulag milli nefndarmanna. En þessir hv. þm. óskuðu þess sem sagt að þetta yrði sérstaklega fram tekið og tekur nefndin öll heils hugar undir að framkvæmd staðgreiðslunnar má með engum kringumstæðum vera með þeim hætti að það skerði þessa nánös sem aldraðir og öryrkjar á stofnunum fá, þeir sem ekki hafa fullnægjandi lífeyri.

Nefndin mælir m.ö.o. með, herra forseti, að þetta frv. verði samþykkt.