18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið stöndum við þm. Borgarafl. í þessari deild með þeirri breytingu sem hér um ræðir og viljum gera þann fyrirvara sem í nál. kemur fram. Það kemur þar fram að við teljum mikla nauðsyn að þessir peningar ellilífeyrisþega verði ekki skattlagðir.

En það sem rak mig hér upp er sú kynning sem verið hefur á þessu nýja kerfi, þær auglýsingar sem verið hafa. Nú vil ég sérstaklega nefna þá auglýsingu sem hefur birst í sjónvarpinu þar sem hæstv. fjmrh. er aðalmaðurinn í auglýsingunni. Ég tel að slíkar auglýsingar hafi mjög neikvæð áhrif á þessa nýju staðgreiðslukerfisbreytingu þegar það er haft í huga að hann er yfirlýstur skattagleðikarl að því leytinu til að það er nákvæmlega sama hvar hann kemur nálægt, það virðist eiga að setja skatta á allt saman.

Ég geri þetta að umtalsefni hér og svo þá kynningu sem verður að vera á slíkum málum. Það eru mjög fáir sem vita í raun og veru hvað þetta nýja staðgreiðslukerfi hefur í för með sér, bæði hvaða skatta viðkomandi þarf að borga og síðan hver framkvæmdin kemur til með að vera, hvað skattkort er og aukaskattkort o.fl. Þetta ruglast allt saman í huga fólks. Í raun réttri held ég að í byrjun næsta árs, þegar þetta kemur virkilega til framkvæmda, komi fram mjög miklir erfiðleikar í framkvæmd þessara laga og ég tel raunar að ríkisskattstjóri og skattstofur séu ekki nægilega vel undirbúin undir þessa breytingu.

En við viljum ekki standa í vegi fyrir því, þm. Borgarafl., að þetta mál nái fram að ganga og teljum raunar að breytingin sem slík geti haft góð áhrif. En að tala um þetta frv. eitt sér án þess að vita tekjuskattshlutfall og annað er mjög erfitt og að leggja beint mat á það á þessu stigi. Þess vegna þyrfti frekar það frv., sem er í þinginu nú, um tekjuskatt fyrst að koma hérna til umræðu áður en þetta frv. er rætt.