21.10.1987
Efri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

9. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir ágætar undirtektir við skattastefnu Alþb. sem hann samþykkti í heilu lagi hér úr ræðustólnum áðan. Það bendir auðvitað til þess að hann sé eða vilji gjarnan vera á réttri leið í þessum málum. Hann benti að vísu á að hugmyndin um stighækkandi stóreignaskatt ætti ekki fylgi að fagna í núv. ríkisstjórn, en að öðru leyti samþykkti fjmrh. hvern einasta punkt í skattastefnu Alþb. eins og hún var samþykkt á aðalfundi miðstjórnar Alþb. 7. nóv. 1986. Ég tel það út af fyrir sig nokkurn áfanga að vita af því að hæstv. núv. fjmrh. skuli taka með jafneindregnum hætti undir allar þær megintillögur í skattastefnu Alþb. sem birtar eru á þskj. 9.

Það er einnig nauðsynlegt, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að hann telji þær hugmyndir jákvæðar sem í frv. koma fram um einföldun á skattakerfi fyrirtækjanna. Það er einnig ánægjulegt að hæstv. fjmrh. hefur, þrátt fyrir afstöðu hæstv. sjútvrh., lýst því yfir að það þurfi að grípa til sérstakra úrræða vegna þess að menn færa persónulega eyðslu á fyrirtæki og vegna þess að menn telja fram risnukostnað úr hófi og taldi óhjákvæmilegt að settar yrðu reglur í þeim efnum.

Ég tel það einnig mjög mikilsvert að hæstv. núv. fjmrh. er inni á þeirri meginhugmynd sem fram kemur í 8. gr. frv. um að fram fari reglulega rannsókn á bókhaldi og skattskilum a.m.k. 100 fyrirtækja. Og ég vek sérstaka athygli á því að í 6. gr. þessa frv. okkar þm. Alþb. hér í hv. deild er gert ráð fyrir því að heimilt verði að losa einstaklinga undan framtalsskyldu. Ef skattgreiðandi býr við mjög einfaldan fjárhag þá geti hann losnað við venjulega framtalsskyldu. Ég get ekki neitað því að mér finnst að við höfum unnið hér dálítinn málefnalegan áfangasigur, en hins vegar er spurningin sú hvernig þessu verður öllu saman fylgt eftir.

Hæstv. ráðherra tók einnig undir þau orð mín að það þyrfti að skapa sem víðtækasta samstöðu um skattakerfið yfirleitt og skattaframkvæmdina en svaraði því hins vegar því miður ekki með hvaða hætti væri heppilegast eða hann hygðist koma þessum skattafrumvörpum fyrir þingið, hvernig hann hygðist tengja þingflokkana við þá vinnu sem verður að fara fram um skattamálin núna á komandi vikum og mánuðum. Ég mun inna hann nánar eftir því síðar þar sem hann hefur eðlileg forföll núna. En það er mjög mikilvægt — og ég vil undirstrika það hér þó hæstv. ráðherra sé farinn og fer fram á það við hæstv. forseta, flokksbróður hans, að hann komi því á framfæri — að ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi frumvörp, sem ætlun ríkisstjórnarinnar er að afgreiða, komi hingað hið fyrsta.

Ég veit að stjórnarflokkarnir eru óskaplega lengi að kvotlast með mál. Þetta húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er nú ekki viðamikið, er búið að liggja í stjórnarflokkunum langtímum saman (Gripið fram í: Það er afleitt mál.) — og er auk þess afleitt mál, segir það af stjórnarliðinu sem er hér í salnum — þrátt fyrir ítarlega athugun stjórnarflokkanna núna langtímum saman þannig að maður getur leyft sér að hafa rökstuddan grun um að það gæti tekið þá tímana tvo að koma saman öllum þessum átta skattafrumvörpum, sem snerta alla tekjuöflun ríkisins eins og hún leggur sig, núna á næstu dögum.

Nú veit ég að hæstv. fjmrh. hefur margar góðar hugmyndir, sérstaklega eftir að hann fór að styðja skattastefnu Alþb., og þá þætti mér vænt um ef hæstv. forseti vildi bera hæstv. fjmrh. þau boð að ég fyrir hönd Alþb. er tilbúinn til þess að lýsa því yfir að við munum aðstoða fjmrh. eins og við mögulega getum við að koma í gegn góðum málum. Eins og við mögulega getum því að við vitum að í sumum efnum getur hann átt erfitt þegar hann fer að glíma við Sjálfstfl. og Framsfl. í þessum málaflokki. Varðandi ágreining um þessi mál þá er hann hinsvegar því miður mjög verulegur við núv. hæstv. ríkisstjórn. Ágreiningurinn er þessi: Ríkisstjórnin ákveður að byrja á því að leggja matarskatt á einstaklingana áður en snert er á fjármagnstekjunum, vaxtatekjunum, stórfyrirtækjunum og undanþáguheimildum fyrirtækja. Þetta er grundvallarágreiningur. Við teljum í Alþb. að það hefði átt að byrja á því að taka á fyrirtækjunum, stoppa upp í smugurnar þar. Síðan var auðvitað hugsanlegt að ganga í verkin að því er varðar einstaklingana með þó þann fyrirvara af okkar hálfu: Við teljum ekki að það séu nein rök uppi, ekki skattatæknileg rök fyrir matarskatti heldur. Fram hefur komið að verkalýðshreyfingin sé andvíg matarskattinum, verulegur hluti hennar. Þó að hæstv. forseti og formaður Verkamannasambands Íslands hafi skrifað upp á þessi ósköp, sjálfsagt í fljótræði núna á dögunum, þá er ástæða til þess að leyfa sér að vona að augu hans verði unnt að opna þannig að þessum sjónarmiðum um matarskattinn verði hafnað þegar þau koma til meðferðar hér á hv. Alþingi. A.m.k. mun verða séð til þess að haldnar verði nægjanlega ítarlegar ræður með rökum um þennan matarskatt til þess að hjálpa hæstv. forseta þessarar virðulegu deildar að gera upp hug sinn í samræmi við hagsmuni sinna umbjóðenda, sem eru launafólkið í landinu, sem hvað sem öllu öðru líður verður að kaupa mat — jafnvel þó að formaður Alþfl. sé fjmrh.