18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

180. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs við þessa umræðu vegna þess að mér finnst að það hafi ekki komist til skila nægilega vel um hvað þetta vasapeningamál snýst. Ég varð var við það t.d. hjá hv. þm. Halldóri Blöndal áðan. Um hvað snýst málið? Það snýst um að aldraður maður á stofnun fær lífeyri frá: 1. Tryggingastofnun ríkisins, 2. sínum lífeyrissjóði. Skv. lögum um málefni aldraðra og lögum um almannatryggingar ganga þessar greiðslur í fyrsta lagi til að greiða kostnað við dvöl viðkomandi á stofnuninni. Við þessar greiðslur bætast síðan svokallaðir vasapeningar. Þegar allt þetta er lagt saman eru þess mörg dæmi að heildargreiðslur verða kannski meiri en skattfrelsismörkin, kannski 38–39–40–45 þús. kr. á mánuði. Við það getur svo farið að viðkomandi lendi í því að bera skatt. Vandinn er þá sá fyrir skattyfirvöld að finna út hvaðan á að taka skattinn. Á að taka hann af því sem gengur til stofnunarinnar? Svarið er væntanlega nei vegna þess að það gengur til að kosta og greiða kostnað við rekstur stofnunarinnar. Hvað er þá eftir af lausu fé eftir að búið er að greiða uppihald viðkomandi? Það eru þessir vasapeningar og þá ættu skattyfirvöld í rauninni engan kost annan en að ganga í þessa vasapeninga nema það væri tekið fram að það eigi ekki að greiða skatt af þeim.

Þá segja menn sem svo: Ekki hafa verið teknir skattar af vasapeningum. Það er rétt. Það hefur ekki verið gert. En nú er verið að breyta þessu þannig að tekjugrundvöllur skattalaganna nær miklu víðar en áður. Inn í hann er allt tekið, lífeyrir, biðlaun og hvað eina, og vasapeningar eða elli- og örorkulífeyrir er hvergi undanþeginn neinum greiðslum í þessu skattakerfi. Þess vegna gæti svona farið ef ekki er tekið fram í lögum um tekju- og eignarskatt: Vasapeningar aldraðra skulu gersamlega undanþegnir þessu skattakerfi. Ég tel að það væri eðlilegast að fjmrh. hlutaðist til um að þessu máli yrði breytt í Nd. þar sem málið er enn þá. Ef svo fer að það verður ekki gert og málinu er breytt í þessari hv. deild, sem er samstaða um í þessari deild meðal fulltrúa allra flokka, yrði málið að fara aftur til Nd. Þess vegna teldi ég heppilegra og skynsamlegra upp á verklag allt að það yrði reynt að ganga frá þessu í Nd. Ef það er ekki unnt verður það gert í hv. Ed. Það liggur fyrir samkvæmt yfirlýsingum talsmanna allra flokka í þessari deild.

Ég þakka hv. 6. þm. Reykn. fyrir góðar undirtektir við þetta mál svo og nefndinni í heild, en undirstrika: Skynsamlegra er að breyta þessu strax í fyrri deild fremur en draga það til síðari deildar. Ég kvaddi mér hér hljóðs vegna þess að mér hefur fundist að þrátt fyrir nokkrar umræður um þetta mál hafi menn kannski ekki áttað sig nákvæmlega á því um hvað það snýst. Það stafar af því að tekjugrunnur staðgreiðslukerfisins er mikið víðari en gamla kerfisins og undanþágur eru fáar eða engar. Þess vegna verður með „pósitífu“ ákvæði að tryggja að vasapeningarnir lendi ekki þarna inni.