18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

196. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég er nú orðinn svo ruglaður í ríminu að ég er ekki einu sinni alveg viss um hvað er á dagskrá, en ég geri ráð fyrir að það sé söluskatturinn, svo ég viti nú um hvað ég ætla að tala hér í ræðustól.

En við erum um það bil hér í hv. Ed. að ljúka meðferð okkar á söluskattsfrv. ríkisstjórnarinnar. Ég er sannfærður um að þegar fram líða stundir og menn rifja upp Íslandssöguna á oft eftir að vitna til þeirrar stundar þegar hv. þm. stjórnarliðsins í Ed. settu söluskatt á helstu nauðsynjavörur heimilanna, þær matvörur sem eru undirstaða heimilishaldsins. Það kom fram í umræðum um húsnæðisfrv. hér á dögunum að þá var vitnað til umræðna í Ed. sem höfðu farið fram fyrir tæpum 60 árum þegar þeir Jón Baldvinsson og Jón Þorláksson voru að takast á um lögin um Byggingarsjóð verkamanna. Alveg á sama hátt er ég viss um að afkomendur okkar eiga eftir að fjalla oft og mörgum sinnum um þá merkilegu atburði sem gerðust hér rétt fyrir hátíðarnar í desembermánuði 1987 þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og hv. stjórnarþm. í Ed. ákváðu að leggja matarskatt, söluskatt á helstu nauðsynjavörur heimilanna.

Ég vil við 3. umr. freista þess að fá í gegn eina mjög einfalda brtt. og það er að soðningin verði undanskilin söluskatti. Ég er búinn að sætta mig við það að eftir áramótin muni ég þurfa að greiða söluskatt af nánast öllum nauðsynjavörum. Eitt finnst mér þó alveg forkastanlegt, að fiskveiðiþjóðin Íslendingar skuli ætla að leggja 25% söluskatt á soðningu á sama tíma sem hégómi eins og afruglarar fyrir sjónvarpsstöð skuli vera án söluskatts. Það er með ólíkindum. Ég næ því ekki að ég skuli standa inni á hinu háa Alþingi og taka þátt í að leggja 25% söluskatt á soðningu um leið og verið er að fjalla um það að hégómi eins og afruglarar á einhverjar sjónvarpssendingar skuli vera undanþegnir söluskatti. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli geta átt sér stað á hinu háa Alþingi.

Þess vegna leggjum við fram þm. Borgarafl. í hv. Ed. brtt. við 3. gr. frv. þannig að á eftir 22. tölul. Aliðar 3. gr. bætist nýr liður sem verði þá 23. tölul. og orðist svo: Fiskur og fiskmeti.

Ef það endar svo að þessi brtt. verður felld og þjóðin nánast hættir að borða fisk, það hefur oft komið fram í umræðum að fiskur er einhver hollasta matvara sem við getum lagt okkur til munns og því hefur verið haldið fram m.a. af sérfræðingum í manneldismálum að heilabúið hafi mjög gott af fiskmetinu, menn verði skarpari í hugsun við að borða mikinn fisk, þá óttast ég satt að segja um framgang mála hér á hinu háa Alþingi í framhaldi af því að þjóðin hættir að borða fisk og fer að leggja sér til munns aðrar óhollari matvörur. Hvernig gengur þá að koma málum hér í gegn? Það getur vel verið að það gangi ekkert verr í sjálfu sér að koma málunum hér í gegn, en skyldu ekki málin verða mjög skringileg í meðferð okkar þm. þegar við erum hættir að borða fisk?

Það má svo bæta því við að lokum að fiskur hefur hækkað mjög í verslunum á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á undanförnum mánuðum. Vegna tilkomu fiskmarkaðanna segja sumir, og það má vel vera að það sé ekkert við því að segja, það sé raunverulega komið eðlilegt verð á fisk með þeim hætti. A.m.k. eru margir sjómenn þeirrar skoðunar að verð á fiski hafi verið allt of lágt hér á undanförnum árum, því hafi verið haldið óeðlilega lágu þannig að þeirra hlutur væri rýrður. En með tilkomu fiskmarkaðanna hefur fiskverð hækkað verulega, einkum í fiskbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar svo þar á ofan bætist 25% söluskattur er ekki nokkur vafi á því að fiskur er orðinn svo dýr að hann er orðinn munaðarvara. Þá þykir mér illa komið hjá fiskveiðiþjóðinni Íslendingum.