18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

196. mál, söluskattur

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Við höfum, þm. Borgarafl., lagt til ákveðnar breytingar á þessu frv., sem er núna til lokaumræðu í þessari deild, en þær hafa því miður ekki fengið hljómgrunn. Aðallega hefur þetta miðað að því að undanþiggja matvörur söluskatti. Ég verð að segja að ég harma mjög að þessar tillögur hafa ekki fengið undirtektir. Hins vegar hafa hv. þm. viljað gefa fjmrh. heimild til að undanþiggja afruglara söluskatti og eru þá í mínum huga a.m.k. komnar svolitlar þverstæður í frv. Það er sem sagt meira lagt upp úr afruglurum en matnum. Þetta vildi ég að kæmi hérna fram svo að afstaða mín og okkar borgaraflokksmanna yrði skýr að þessu leytinu til og það yrði það vegarnesti sem þetta frv. fengi frá okkur niður í hv. Nd.