18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

196. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu nú, en mig langar til að vekja athygli á einu sem er til athugunar í sambandi við söluskattsmál.

Það er svo að einkaflugvélar og bensín til þeirra verður héðan í frá með söluskatti. Ég ætla ekki að reyna að koma brtt. þar að lútandi fram í lok 3. umr., fjarri því, en ég vil einungis benda mönnum á að það hefur ætíð verið svo að einkaflugmenn hafa getað keypt bensín á sínar flugvélar án söluskatts,

enda er það tekið af sama tanki og söluskattsfrítt bensín farþegavéla sem eru reknar í því skyni. Það er alveg ljóst að það verður aldrei hægt að ná neinum söluskatti af eldsneyti til einkaflugvéla. Einkaflugmenn munu væntanlega kaupa bensínið gegnum flugfélög sem eru með farþegaflutninga.

Ég vildi vekja athygli á þessu. Þetta er eitt dæmið enn um hversu flausturslegt þetta frv. er og hve lítt hugsað margt er sem er sett í frv. Það má út af fyrir sig mælast til þess að hv. þm. í Nd. taki þetta til meðferðar og hugsanlegra breytinga. Ég á þó ekki von á því að svo verði því þetta er fyrri deild og miðað við þá tímaþröng sem við erum í má búast við því að málið eins og það verður afgreitt héðan verði samþykkt óbreytt í Nd. Þar með sitjum við uppi með ótalmarga agnúa og hortitti í þessum frumvörpum sem því miður verða að lögum eftir meðferð í Nd. Ég vildi rétt vekja athygli á þessu undir lokin.