18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint tveimur spurningum. Sú hin fyrri var um talnagrundvöll tekjuáætlunar fjárlaga, þeirra tekjustofnalaga sem hér hefur verið fjallað um. Af því tilefni vil ég segja þetta:

Þessari spurningu var til mín beint af hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfi Konráð Jónssyni og því næst undir það tekið af hv. 7. þm. Reykv. við fyrri umræðu í hv. Ed. Nú er það svo að tekjuhlið fjárlaganna er verkefni Þjóðhagsstofnunar og endurskoðuð tekjuspá er væntanleg að venju frá Þjóðhagsstofnun fyrir 3. umr. fjárlaga. Af þessu tilefni skrifaði ég samnæturs eftirfarandi bréf þann 17. des. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hr. Þórður Friðjónsson forstjóri,

Þjóðhagsstofnun,

Kalkofnsvegi 1.

Í umræðu í efri deild Alþingis í nótt óskaði Svavar Gestsson alþm. eftir því að fjmrh. hlutaðist til um að afla sundurliðaðra upplýsinga um forsendur tekjuáætlunar fjárlaga fyrir árið 1988. Jafnframt óskaði hann eftir því að fram kæmu bæði eftirspurnaráhrif og áhrif verðbreytinga. Beðið var um að þessar upplýsingar lægju fyrir áður en 3. umr. í Ed. fer fram, væntanlega á morgun, föstudag. Þessari beiðni er hér með komið á framfæri við Þjóðhagsstofnun sem hefur annast undirbúning tekjuáætlunar fjárlaga fyrir næsta ár.“

Hæstv. forsrh., sem þessi stofnun heyrir undir, var jafnframt tilkynnt um þetta.

Í annan stað var spurt um hvort ekki væri tryggt að heilög ritning og sjómannaalmanak væru án söluskatts, en þessar bækur eru um borð í hverju fiskiskipi. Ég verð að játa að ég hef ekki svör á reiðum höndum við þessu vegna þess að ég treysti ekki minni mínu um það á hverju undanþágan var byggð. Það er að velkjast fyrir mér að söluskattur af heilagri ritningu, guðsorði, hafi verið endurgreiddur en sjómannaalmanak undanþegið. Ég heyrði þessa spurningu svo fyrirvaralítið að mér vannst ekki tími til að gá að því á hverju þessar undanþágur höfðu byggst áður, þ.e. í hverri af undanþáguheimildum þeim var fundinn staður.

Sem kunnugt er munu tvö rit vera útbreiddust rita í heiminum. Byggi ég það líka á minni mínu og eftir Sameinuðu þjóða „statistík“. Það munu vera Biblía kristinna manna og úrval úr helstu ritverkum Vladímírs Íljítsj Úljanov, kennslubók í praktískum byltingarfræðum. Þessi tvö rit hafa náð mestri útbreiðslu í heiminum. Þá er spurningin um hvort söluskattslögin eigi að hafa mismununaráhrif þegar um svo ágætar bækur er að ræða. (Gripið fram í.) Það er ekki eins útbreitt samkvæmt þessari statistík.

Þá var á það minnst að vera kynni erfiðleikum bundið að leggja söluskatt á eldsneyti einkaflugvéla. Það er að óbreyttu fyrirkomulagi, en hins vegar er það að sjálfsögðu svo að það er engan veginn útilokað að gera ráðstafanir til að framfylgja þessum ákvæðum.