18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ber auðvitað fulla virðingu fyrir afgreiðslu fjárlaga við 3. umr., en þar sem veigamikil útgjaldamál, teknamál ríkisins eru hér á dagskrá teldi ég að það væri eðlilegt og ekki laust við sanngirni alla vega að óska eftir því að upplýsingar um það hvað þessir teknaliðir gefa liggi fyrir áður en málin fara úr þessari deild. Það mætti hugsa sér að hið minna teknamálið, vörugjaldið, færi á milli deilda, en ég tel að það sé alveg fráleitt að láta matarskattinn fara héðan út öðruvísi en þessar upplýsingar frá hæstv. ráðherra liggi fyrir.

Ég vil sem sagt eindregið fara þess á leit að þannig verði á málum haldið að þessar upplýsingar liggi fyrir áður en málin fara út úr þessari deild, a.m.k. söluskattsmálið. Ég satt að segja hélt að þetta lægi fyrir. Hvaða talnaspeki er þetta í fjárlagafrv. og þessum skattafrumvörpum og allt það og engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þetta er reiknað út? Einhvern veginn var þetta reiknað út eða hvað? Það hlýtur að vera. Af hverju eru tölurnar þarna? Það hlýtur að vera reiknað einhvern út. Á hvaða forsendum? Var það bara „Ugla sat á kvisti“ eða hvað? Hver er spekin á bak við þetta? Ég vil fá að vita það. Ég held að það sé útilokað fyrir þessa virðulegu deild að láta bjóða sér að afgreiða skattafrv. upp á 5750 millj. án þess að vita nokkurn veginn hvaða reikningslegar forsendur liggja þarna á bak við. Auðvitað höfum við séð samtölur og heildartölur, en í raun og veru höfum við ekki séð áætlanir um hvernig þetta kemur út í breytingum milli áranna 1987 og 1988.

Hér er stórmál á ferðinni og sérstaklega þegar þess er gætt að einn af þm. stjórnarflokkanna, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, hafði farið fram á að þessar upplýsingar lægju fyrir og þegar það bætist svo við að annar þm., sem er í stjórnarflokki, hv. þm. Karvel Pálmason, hefur greitt atkvæði gegn matarskattinum aftur og aftur í atkvæðagreiðslum í þessari virðulegu deild. Þess vegna er útilokað annað en ítreka að þessar upplýsingar liggi fyrir. En ég endurtek, ef það mætti verða til þess að greiða fyrir þingstörfum, gæti ég svo sem hugsað mér það, miðað við það sem ég hafði hugsað mér að ræða þessi mál, að frv. um vörugjald færi á milli deilda, en að söluskattsfrv. biði þá þessara upplýsinga því það er auðvitað hið mesta mál í þessu og varðar 5750 millj. og mætti taka það fyrir á næsta fundi deildarinnar sem hugsanlega gæti orðið á morgun ef menn vilja halda helgarfundi.

En ég ítreka þessa ósk, herra forseti, og fer fram á að afgreiðslu söluskattsmálsins verði frestað þangað til þessar upplýsingar liggja fyrir.