18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

196. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þar sem ummæli sem ég hafði við 2. umr. þykja hafa orkað tvímælis er nauðsynlegt að taka fram að það sem ég sagði um fjárfestingarvörur vegna loðdýrabúa var ekki skoðun fjh.- og viðskn., þá er ég að tala um 13. tölul. 4. gr., fjárfestingarvörur til nota við loðdýrarækt, loðkanínurækt, fiskeldi o.s.frv., heldur var ég að lýsa þeirri túlkun sem fjmrn. hefur í þessum efnum, en hún er sem sagt sú að undanþáguheimildin taki ekki til fóðurstöðva heldur einungis loðdýrabúanna sjálfra. Hér er um byggingarefni og jarðvinnu að ræða og er skýringin sú varðandi bæði loðdýrarækt og fiskeldi að þessar atvinnugreinar þurfa að leggja í mjög litla fjárfestingu varðandi vélar og tæki og eru nýjar af nálinni. Hitt er mjög flókið mál hversu langt þurfi að ganga ef sú regla yrði tekin upp að byggingarefni almennt verði undanþegið söluskatti meðan við búum við það kerfi, en ég minni á að um leið og virðisaukaskattur verður upp tekinn kemst réttlæti á í þessum efnum.