21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

29. mál, framhaldsskólar

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til l. um framhaldsskóla og hæstv. menntmrh. hefur boðað að annað frv. um sama efni sé væntanlegt. Ég fagna því og vonast til þess að þetta leiði til þess að ný lög um framhaldsskóla sjái dagsins ljós í vetur.

Það er rétt, sem hérna hefur komið fram, að framhaldsnám hefur stóraukist. Á margan hátt hefur þar verið mjög vel unnið. En það eru kannski nokkur áhersluatriði, bæði í þessu frv. og eins í framkvæmd framhaldsskólamála, sem ég vildi drepa á.

Hvað snertir það frv. til l. um framhaldsskóla sem hérna liggur fyrir er ýmislegt sem ég tel að sé mjög gott og annað sem ég vil hafa allan fyrirvara á. Ég nefni atriði eins og t.d. kosningu fræðsluráðs sem er gert ráð fyrir að sé kosið sérstaklega með leynilegri kosningu í stað þess fyrirkomulags sem nú hefur verið á. Ég nefni líka kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar liggur fyrir álit nefndar sem ég held að hljóti að móta nokkuð hver verður reyndin á þessu. En ég tek undir með hv. 6. þm. Suðurl. að Vll. kaflinn, um fjarkennslu og fullorðinsfræðslu, fjarnám heitir það hér, hljóti að skipta verulegu máli fyrir okkur í nánustu framtíð og við þurfum að sinna þeim þætti mála betur kannski eða í framhaldi af því sem gert hefur verið.

Það er nefnilega staðreynd að uppbygging framhaldsskólakerfisins, þó hún hafi verið mikil, hefur ekki verið jafnmikil eða markviss út um allt land. Og þegar ég segi þetta er ég ekki að kenna yfirstjórn menntamála um að það sé fyrir aðgerðir hennar eða aðgerðaleysi sem þetta hefur þróast svo. Það er ekkert síður misjafnt frumkvæði heima fyrir og kannski misjafn áhugi manna á því sem er að gerast í kringum þá. En fyrir því nefni ég þetta að í mínu umdæmi, sem ég held að sé óhætt að segja að sé kannski það umdæmi sem skemmst er á veg komið í þróun framhaldsskólamála, er aðeins einn framhaldsskóli í öllu kjördæminu, einn framhaldsskóli sem getur risið undir nafni, þó að litlir vísar að framhaldsfræðslu hafi verið í nokkrum skólum á undanförnum árum, flestir máttlausir og hafa yfirleitt lognast út af. Að vísu eru vonir til þess að úr þessu rætist og menn eru farnir að sinna þessu heima fyrir. Það er búið að ákveða að skipa þar nefnd til að kanna þessi mál, reyna að gera úttekt á þörfinni og tillögur um úrbætur þar heima fyrir.

Til þess að menn átti sig á hversu mikið mál er þar á ferðinni vil ég nefna að á fjórðungsþingi Vestfirðinga í fyrra, fyrir ári, voru skólamál til umræðu. Og því var slegið fram að kostnaður Vestfirðinga af því að senda nemendur út úr umdæminu gæti numið tugum milljóna árlega. Nefndar voru 40 millj. kr. Þetta eru ekki litlar tölur. Til að fá þessu breytt þarf að taka svolítið aðra stefnu. Ég álit að einmitt í þeirri löggjöf sem hér verður sett þurfi að taka tillit til þessara sjónarmiða sem dreifbýlið varða, auk þess sem auka þarf fræðslu til landsmanna um þær leiðir sem bjóðast í framhaldsskólanámi svo að almenningur geri sér ljóst hversu gífurlega þýðingu þessi mál hafa fyrir sveitir landsins og dreifðar byggðir. Við tölum gjarnan um byggðaflótta og erum að reyna að velta því fyrir okkur hvað valdi, hvernig standi á því að stöðugt fer vaxandi fólksflóttinn úr dreifðum byggðum til svæðisins á suðvesturhorninu, en það þarf kannski engan að undra þótt unglingur sem sendur er að heiman 15 eða 16 ára gamall til náms í fjögur ár í framhaldsskóla og e.t.v. 2–3 eða 4, 5, 6 í háskóla, sé farinn að gleyma ýmsu, eða þá hitt að hann eygi ekki starf við sitt hæfi heima fyrir. Unglingur sem dvelst langtímum saman á viðkvæmu mótunarskeiði á öðrum slóðum en sínum æskuslóðum hlýtur að mótast af því umhverfi sem hann dvelst í á þeim tíma. Þetta held ég að væri mjög gott að menn hefðu í huga.

Hvað snertir þátt fræðsluráða og fræðsluskrifstofa í þessum tillögum geri ég mér ljóst, sem flm. nefndi, að það er gert ráð fyrir því að sömu fræðsluskrifstofur starfi að þessu fyrst um sinn, enda fáránlegt að hugsa sér að tvöfalt kerfi yrði sett upp. Ég held einmitt að þetta sé nokkuð mikilvægt. Eins og er sinna fræðsluráð og fræðsluskrifstofur formlega aðeins grunnskólanámi. Hins vegar er það svo í reynd að fræðsluráð hafa sinnt framhaldsskólanámi, reynt að gera sér grein fyrir þróun þess og tekið þátt í uppbyggingu þess á hverjum stað fyrir sig. Ég held að það sé mjög æskilegt og reyndar nauðsynlegt að fræðsluráð hafi yfirsýn bæði yfir grunnskólanámið og eins framhaldsskólanám á hverju svæði fyrir sig, ekki síst vegna þess að framhaldsskólanám núna er orðið jafnalgengt og grunnskólanám var fyrir 10–15 árum og verulega stór hluti unglinga lýkur framhaldsskólanámi. Fróðlegt væri að sjá hvern þátt uppbygging og staðsetning framhaldsskóla í landinu á í því hvernig menn ljúka þessu námi því að það er ólíkt meira átak að senda unglinga til margra ára dvalar í fjarlæg héruð en að senda þá yfir í næstu götu til að setjast þar inn í skólann sinn. Ég bið þess vegna um það að þegar þessi frumvörp verða til afgreiðslu síðar í vetur verði það sjónarmið haft í huga að nauðsynlegt er að byggja upp framhaldsnám í dreifbýli og nauðsynlegt er að rýmka heimildir varðandi nemendafjölda. Með hliðsjón af því hversu framhaldsskólanám er orðið algengt ætti að reyna að færa það nær fólki í héruðum en gert er núna og byggja þannig upp framhaldsskólann á landsbyggðinni ekki síður en hér á suðvesturhorni og í stærri byggðum.