18.12.1987
Efri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Kvennalistinn hefur ævinlega talið það vel færa og heppilega leið að leita tekjuöflunar jafnt hjá fyrirtækjum sem og einstaklingum í skattlagningu. Það hlýtur að vera bæði eðlilegt og jafnvel metnaðarmál fyrir stöndug fyrirtæki að geta látið sinn hlut til samneyslunnar eins og aðrir, ekki síst eftir þá velgengnistíma sem á undan eru gengnir.

Í þessu frv. eru tilraunir í þá átt þó að heimtur verði samt mun minni en maður hefði ætlað. Ég verð að segja að mér finnst að hæstv. fjmrh. hafi fremur tekið með silkihönskum á fyrirtækjunum frekar en leggja á þau réttláta og skilvirka skatta. Það hefur hann ekki hikað við að gera gagnvart fjölskyldunum og einstaklingunum og mér finnst hann hefði átt að nota svipaðar aðferðir við fyrirtækin.

En eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. er þetta spor í rétta átt þó að við hefðum viljað vera róttækari í þessum efnum, kvennalistakonur.