18.12.1987
Efri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Á þessu stigi vil ég ekki ræða mikið um það frv. sem hér hefur verið lagt fram. Þetta hefur fengið meðferð í Nd. og hafa verið gerðar á því ákveðnar breytingar.

Ég vil þó geta eins í þessu. Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. og er varðandi 31.gr., sem á að falla niður, og um sönnunarbyrðina. Ég hef ekki haft trú á því, hvorki í þessu né þegar um dómstól er að ræða, að það sé hægt að leggja sönnunarbyrði, þó svo um saknæmt atferli sé að ræða, á þann sem talinn er hafa drýgt eitthvert ákveðið brot. Ég held að það sé einmitt grundvallarreglan sem við verðum að fara eftir, sama hver á í hlut og um hvaða málefni er að ræða, og þá sérstaklega þegar mál eru dregin undan dómstólunum að þeim sem heldur ákveðnu fram beri að sanna fyrir borgurunum að hann hafi framkvæmt ákveðinn verknað eða ekki. Að ætla að fá fyrirtæki til að sýna fram á að þau hafi fært sem gjöld ákveðna hluti er hæpið. Ég held að við verðum í þessu að miða við þá einföldu reglu að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem ber einhvern annan sök.

En eins og ég sagði í upphafi vil ég ekki ræða frekar um frv. á þessu stigi en gera almenna fyrirvara og vænti að þetta mál fái góða meðferð í fjh.og viðskn. og,verði afgreitt fyrir jól eins og önnur frv. sem áhersla er lögð á.