18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

Uppprentun þingskjala

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú skýring sem hv. 17. þm. Reykv. bar fram nægir mér ekki. Það getur ekki verið nóg fyrir þingdeildina að fá það upplýst nú eftir á að mistök hafi orðið milli virðulegrar félmn. — í sambandi við tæknilega vinnu að málinu meðan það ekki kemur fram í deild meðan málið er til umræðu. Ég get ekki séð að það sé fullnægjandi afgreiðsla eða snerti yfirleitt þingdeildina og eftir sem áður stendur beiðni mín um að það sé athugað hvort þarna sé um efnislega breytingu að ræða á viðkomandi grein frv. Málið lá ekki fyrir hér við umræðuna með þessum hætti, ekki á neinu þingskjali, hvorki því sem lagt var fyrir fjölritað upphaflega og það hef ég hér handa á milli frá hv. meiri hl. félmn., né heldur á því þingskjali sem síðan var dreift prentuðu hér í deildinni. Mér sýnist að þarna kunni að vera um efnislega breytingu að ræða og þá náttúrlega verður deildin sem slík að taka afstöðu til þess eftir því hvernig málið er afgreitt og hvaða meðferð það fær í hv. Ed. sé svo.