18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

Uppprentun þingskjala

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég sé að þarna hefur orðið breyting á og mig langar til að upplýsa það að ekki var haft samráð við nefndina um þessa breytingu, bara til þess að það verði leiðrétt. En mér finnst sjálfsagt að þetta verði athugað og þessu breytt þannig að það verði öruggt að það komi fram sem við ætluðumst til. Mér finnst að þetta „eða“ eigi alls ekki að vera þarna miðað við það sem ég hafði haldið því að það verður að vera ljóst að það sem þarna á að koma fram er að lánsfé sé afgreitt í sömu röð og umsóknir berast þegar íbúðir verða veðhæfar. Það er auðvitað ekki hægt að afgreiða lánið fyrr en íbúðir verða veðhæfar þannig að það er spurning hvort ekki þurfi að breyta þessu þannig að það sé alveg ótvírætt hvað meint er. En ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni að við þurfum að athuga þetta svo að það sé alveg öruggt að við séum ekki að afgreiða það sem ekki er rétt meining frá deildinni.