18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

Uppprentun þingskjala

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka undirtektir við beiðni minni og vildi aðeins segja það að mér finnst að þetta mál, þó að væntanlega sé það ekki stórt í sniðum, beri vott um það að hér er verið að vinna á óhæfilegum hraða í þinginu og hættan á mistökum hvort sem þau eru efnisleg eða tæknileg er miklu meiri en þegar sanngjarn og eðlilegur tími er til að athuga þingmál. Hérna sýnist mér um visst grundvallaratriði að ræða í sambandi við meðferð á þingskjölum og afgreiðslu mála milli deilda líka.

En ég vil líka alveg sérstaklega vara við því að það sé verið að varpa ábyrgð í sambandi við svona mál yfir á starfsmenn Alþingis. Hér er fólk vinnandi nótt og nýtan dag og er áreiðanlega meira álag á starfsmönnum Alþingis en nokkurn tímann á okkur þm., a.m.k. þeim sem eru að vinna í þessum efnum fyrir okkur, og mér finnst að það sé ekki við hæfi að varpa mistökum af þessu tagi, ef um efnisleg mistök er að ræða, yfir á starfslið þingsins sem leggur sig allt fram. Við berum að sjálfsögðu ábyrgð á þessu sem erum að vinna að þessum málum, viðkomandi þingnefndir og hv. þm. allir, og eigum að sjá til þess og getum ekki skotið okkur á bak við starfslið þingsins sem er hér að vinna við mjög óeðlileg skilyrði og við þekkjum að leggur sig í líma við að gera allt sem best og leysa það sem krafist er og það er sannarlega óhæfilega mikið álag, svo að vægt sé til orða tekið, nú að undanförnu.