18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. Afstaða minni hl. er sú að við erum andvíg frv. og leggjum til að það verði fellt. Frv. gengur út á að leggja launaskatt á flestar þær greinar sem verið hafa undanþegnar greiðslu launaskatts á undanförnum árum, sumar lengur og aðrar skemur. Skal sá launaskattur nema 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum fyrir störf hjá þeim aðilum sem nú skulu taka til við að greiða launaskatt. Þar er fyrst og fremst um að ræða sjávarútvegsgreinar, útgerð og fiskvinnslu, og iðnað.

Það á sér langa hefð að baki að sjávarútvegurinn hefur ekki greitt launaskatt. Röksemdir manna, skilst mér, á sínum tíma, þegar ákveðið var að sjávarútvegur skyldi ekki greiða launaskatt, voru fyrst og fremst þær að í raun og veru væri um tvísköttun að ræða ef sjávarútvegurinn, sem legði fiskvinnslunni til hráefni, bæri launaskatt og síðan greiddi fiskvinnslan aftur launaskatt af öllum þeim atvinnutekjum sem þar falla til. Þessar röksemdir leiddu til þess að sjávarútvegurinn hefur ekki, þ.e. útgerðin, greitt launaskatt um 15 ára skeið.

Fyrir um ári skilst mér var svo horfið að því ráði að fella niður launaskattsgreiðslur í fiskvinnslunni. En nú á að taka það upp aftur og leggja þann skatt líka á í útgerðinni og sömuleiðis í iðnaðinum.

Það má ugglaust færa fram sem viss rök fyrir því að leggja einhvern launaskatt yfir allt atvinnulífið að þar sé um einhvers konar samræmingaraðgerð að ræða. Ég held að það megi þó ekki rugla því saman við samkeppnisstöðu greina og það að allar greinar standi jafnt því að það þarf þá að taka margt inn í myndina. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að það gæti verið mjög skynsamlegt að láta þann stuðning og þann skilning, sem stjórnvöld sýna á hlutverki framleiðslugreinanna í landinu, koma fram t.d. í því að framleiðsluatvinnuvegirnir greiði ekki launaskatt. Hér er líka um helstu útflutningsatvinnuvegi landsmanna að ræða, sjávarútveginn og iðnaðinn. Þetta eru því útflutningsgreinar og það er verið sérstaklega að leggja þennan skatt á þær.

Á fund fjh.- og viðskn. komu að ósk okkar í minni hl. fu0trúi útvegsmanna og forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar. Það kom fram í máli þessara ágætu aðila að staða sjávarútvegsins væri nú slæm og horfur ekki góðar. Sömuleiðis upplýsti forstjóri Þjóðhagsstofnunar að sama ætti við um margar greinar útflutningsiðnaðar, einkum og sér í lagi útflutningsiðnaðarins sem hefði ekki fengið innlendar kostnaðarhækkanir bornar uppi af verðhækkunum í sama mæli og sjávarútvegurinn gerði a.m.k. fram undir það síðasta.

Hvað varðar stöðu sjávarútvegsins sérstaklega er rétt að hafa í huga að nú er boðaður um 10% samdráttur á þorskveiðum á næsta ári og það var upplýst á þessum fundi að sá samdráttur gæti kostað útgerðina um 1200–1400 millj. kr. í brúttótekjumissi og munar um minna.

Það má líka nefna til sögunnar þá óvissu sem þessar greinar búa nú við, eins og reyndar allt efnahags- og atvinnulífið í heild sinni bæði hvað varðar stjórnun efnahagsmála og hvað varðar gengismál. Það má nefna þá háu vexti, þá hæstu nokkru sinni, sem nú ríkja og bitna auðvitað þungt á þeim greinum sem að einhverju leyti eru með sitt rekstrarfé að láni. Það er því skoðun okkar í minni hl. að allar aðstæður mæli gegn því að bæta þessum nýju álögum á útflutningsgreinarnar nú.

Undir þetta nál. rita Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Halldórsdóttir. Ingi Björn Albertsson, fulltrúi Borgarafl., sat fundi fjh.- og viðskn. og er efnislega samþykkur þessari afstöðu.

Ég vil, herra forseti, vitna í skýrslu sem mér var send frá Þjóðhagsstofnun hinn 16. des., þ.e. í fyrradag, að minni ósk eftir að ég hafði beðið Þjóðhagsstofnun um þau gögn nýjust sem stofnunin hefði í höndum um afkomuhorfur í þjóðarbúskapnum. Þessi ágæta stofnun brást auðvitað vel við og sendi mér þegar í stað samantekt frá 12. des. sem hv. fjvn. Alþingis mun reyndar einnig hafa fengið.

Þar segir Þjóðhagsstofnun í fyrsta lagi að enn ríki veruleg óvissa um ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár fyrir árið 1988. Núna þegar nokkrir dagar eru eftir af árinu 1987 og það ágæta ár 1988 er að ganga í garð, sem við skulum vona að verði ágætt, er þetta þannig hjá helstu spástofnun okkar um efnahagsmál að enn ríki þar veruleg óvissa um horfur. Það skýrist auðvitað af ýmsu, m.a. því að hér á Alþingi eru til meðferðar frv. sem gjörbreyta öllu tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og hafa víðtæk áhrif á lífskjör almennings og rekstrarskilyrði fyrirtækja. Einkum og sér í lagi eru það frv. um tolla og vörugjald og um söluskatt.

Síðan segir Þjóðhagsstofnun í sínu plaggi, með leyfi forseta: „Viðskiptakjör hafa versnað síðustu tvo mánuði og horfur um viðskiptakjör fyrir næsta ár eru nú lakari en reiknað var með í október. Hér veldur gengislækkun bandaríkjadollars í kjölfar verðhrunsins á hlutabréfamörkuðum heimisins í lok októbermánaðar mestu, en jafnframt hefur álverð reiknað í dollurum lækkað og óvissa ríkir um verð á sjávarafurðum.“

Og áfram segir á bls. 2, með leyfi forseta: „Flest bendir nú til að framleiðsla sjávarafurða verði minni á næsta ári en miðað var við í þjóðhagsáætlun.“ Það er væntanlega sú þjóðhagsáætlun sem fylgdi stefnuræðu forsrh. eða framlagningu fjárlaga á Alþingi í haust. — „Þar var reiknað með óbreyttri sjávarvöruframleiðslu frá því sem gert er ráð fyrir að hún verði á þessu ári og var það byggt á nokkrum samdrætti í afla sem talið var að breytt samsetning framleiðslunnar gæti vegið upp. Nú er ljóst að stefnt verður að mun meiri samdrætti í þorskafla milli ára en reiknað var með í þjóðhagsáætlun. Því verður að gera ráð fyrir að sjávarvöruframleiðslan reiknuð á föstu verði dragist saman á næsta ári.“

Herra forseti. Hvar skyldi hæstv. sjútvrh. vera? (Forseti: Það er upplýst að hann mun vera í atkvæðagreiðslu í Ed., en það verða gerðar ráðstafanir til að gera honum viðvart. ) Ég þakka, herra forseti, fyrir það. Ég hefði talið mjög æskilegt að þeir hæstv. ráðherrar, sjútvrh. og iðnrh., sem eiga talsvert undir þeim málaflokkum sem hér á að fara að leggja sérstakar skattálögur á, heiðruðu okkur með nærveru sinni eina stund. Það skeður ekki svo allt of oft að við njótum þeirra forréttinda að vera í návist þessara háttsettu manna að það væri kannski allt í lagi að kanna hvort þeir gætu heiðrað okkur með nærveru sinni, hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh. (Forseti: Þeir eru báðir í húsinu og munu verða gerðar ráðstafanir til að gera þeim viðvart.) Ég þakka forseta fyrir það.

Já, ég var að víkja að afkomu sjávarútvegsins, hæstv. ráðherra, og það gleður mig stórlega að hæstv. ráðherra er nú genginn í salinn. Það er nefnilega skoðun minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. að það sé afar óheppilega valinn tíminn til að leggja nýjar álögur á sjávarútveginn og iðnaðinn, sem sé vegna þess að afkomuhorfur þar eru ekki allt of góðar, boðaður er mikill samdráttur í þorskveiðum á næsta ári, samdráttur sem fulltrúar útvegsmanna telja að geti þýtt um 1200–1400 millj. kr. brúttótekjumissi greinarinnar á næsta ári. Ég ætla að lesa aðeins fyrir hæstv. ráðherra upp úr plöggum Þjóðhagsstofnunar sem hefur verið að velta þessum málum fyrir sér núna seinustu dagana, gengur reyndar ekki allt of vel að fá botn í það, aðallega vegna þess að allt efnahagskerfið er meira og minna í uppnámi út af því að hér eru til meðferðar á Alþingi frv. sem í raun og veru breyta öllum grundvallarforsendum athafnalífs og efnahagslífs á landinu. Þar af leiðandi segir Þjóðhagsstofnun, eins og ég hef reyndar þegar kynnt fyrir hv. meðlimum deildarinnar, að núna nokkrum dögum fyrir áramót ríki enn veruleg óvissa um mikilvægar forsendur þjóðhagsspár fyrir árið 1988.

Og svo áfram með álit Þjóðhagsstofnunar á stöðu sjávarútvegsins, með leyfi forseta: „Því verður að gera ráð fyrir að sjávarvöruframleiðsla reiknuð á föstu verði dragist saman á næsta ári. Hver 20 000 tonn af þorskafla jafngilda rúmlega 1 milljarði kr. í útflutningsverðmæti eða sem svarar til um 2% af vöruútflutningi. Samdráttur þorskafla um 40–50 þúsund tonn gæti því þýtt 4–5% samdrátt í vöruútflutningi og 1–2% samdrátt í þjóðartekjum á föstu verði að öðru óbreyttu.“ — Síðan segir stofnunin að þessar tölur verði að taka með fyrirvara o.s.frv. Þær séu eingöngu settar fram sem vísbending um hvert stefni.

En það er alveg ljóst að samdráttur af þessu tagi í erfiðri rekstrarstöðu, eins og sjávarútvegurinn býr nú við, a.m.k. fiskvinnslan, samdráttur sem hefur e.t.v. allt að 4-5% samdrátt í för með sér í heildarvöruútflutningi og 1–2% samdrátt þjóðartekna þýðir auðvitað margfalda erfiðleika innan greinarinnar sem slíkrar, innan sjávarútvegsins. Auðvitað ná menn eitthvað niður kostnaði á móti þeim minnkandi afla sem hér er boðaður, en það fer þó aldrei svo að óhagkvæmni verði ekki meiri, að rekstur verði ekki erfiðari við að þessi tæki hafa ekki möguleika til að vinna fyrir sér með sama hætti og áður var. Velta í fiskvinnslunni minnkar einnig, a.m.k. af þessum sökum og e.t.v. meira vegna þess að meira og meira af hráefni er flutt út óunnið. Hæstv. iðnrh. er nú hér mættur og þá erum við orðnir býsna vel liðaðir, herra forseti, miðað við það sem við eigum að venjast. Svo er hæstv. menntmrh. hér einnig. Þetta fer að verða mjög ánægjulegt.

Þjóðhagsstofnun segir um útflutninginn og viðskiptin við útlönd, með leyfi þínu, forseti: „Fyrirsjáanlegt er að halli á viðskiptum við útlönd á þessu ári verður meiri en reiknað var með í endurskoðaðri þjóðhagsspá fyrir árið 1987 í október. Þá var gert ráð fyrir að viðskiptahallinn á þessu ári yrði um 2,4 milljarðar kr. eða sem svarar til rúmlega 1% af landsframleiðslu. Þessi spá byggðist m.a. á því að afgangur yrði af viðskiptum við útlönd að fjárhæð 1,4 milljarðar kr. Nú stefnir hins vegar í að afgangur af vöruskiptunum verði lítill sem enginn.

Ástæður fyrir þessu eru nokkrar og snerta þær bæði inn- og útflutning. Í fyrsta lagi hefur innflutningur aukist meira síðustu mánuði en reiknað var með. Í öðru lagi verða tekjur af útflutningi minni en gert var ráð fyrir vegna lakari viðskiptakjara sem reikna má til gengislækkunar bandaríkjadollars eins og áður sagði.“

Hér er nú mættur hæstv. iðnrh. og hluti þeirra aðila sem teljast starfa á hans sviði, útflutningsiðnaðurinn, sýpur nú seyðið af þeirri þróun sem Þjóðhagsstofnun er hér að ræða um.

Og áfram segir í 4. lið: „Afkoma útflutningsfyrirtækja hefur almennt versnað að undanförnu þar sem innlendur kostnaður hefur hækkað meira en verð útflutningsafurða í íslenskum krónum. Gengislækkun bandaríkjadollars hefur komið sér illa fyrir mörg útflutningsfyrirtæki. Þetta á ekki síst við um fiskvinnslu, einkum frystingu, sem nú er rekin með verulegu tapi. Áætlað er að botnfiskvinnslan í heild sé nú rekin með tapi sem nemur 3–5% af tekjum. Þar af er áætlað að tap í frystingu nemi 7-9% af tekjum. Jafnframt eru aðstæður víða erfiðar í öðrum útflutningsgreinum.“ — og hlusti nú hæstv. iðnrh: — „Má í því sambandi m.a. minna á rekstrarerfiðleika ullariðnaðarins. Erfitt er að fullyrða nokkuð um stöðu innlendra framleiðslugreina sem keppa við innflutning þar sem hækkun innflutningsverðs í íslenskum krónum vegna hækkunar á gengi Evrópumyntar vegur að nokkru leyti upp hækkun innlends kostnaðar. Jafnframt ætti samkeppnisstaða innlendra framleiðslugreina að batna við þá breytingu á vörugjöldum sem hefur verið ákveðin.“

Það er sem sagt alveg ljóst að hér er staðfest af Þjóðhagsstofnun að afkoma útflutningsfyrirtækjanna hafi almennt versnað að undanförnu og þarf svo sem ekki hagspekinga til að segja sér það þegar innlendur kostnaður hækkar í hlutfalli við 30% verðbólgu eins og hún er núna, en verðið á framleiðsluvörunum komnum á erlendan markað stendur í stað eða lækkar. Þá dregur heldur harkalega sundur. Og það er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast t.d. á undanförnum árum og sérstaklega undanförnum missirum í útflutningsiðnaðinum, ullariðnaðinum. Einkum og sér í lagi þeim iðnaði sem flytur á Bandaríkin. Og nú eru þessir hæstv. fagráðherrar hér sem ég geri ráð fyrir að næstum daglega fái heimsóknir, bréf eða erindi frá aðilum innan þessara greina þar sem menn eru að bera sig upp við hæstv. ráðherra yfir ástandinu. Ég þykist t.d. vita að hæstv. iðnrh. hafi fengið eina og eina heimsókn í tengslum við erfiðleika ullariðnaðarins. En samt eru þessir hæstv. ráðherrar stuðningsmenn ríkisstjórnar, í ríkisstjórn með hæstv. ráðherra sem ætlar að leggja launaskatt á þessar greinar, velja þennan tíma, þessi áramót, við þessar aðstæður til að leggja á launaskatt. Menn geta auðvitað sagt að 400 millj. kr. séu ekki svo mikið fyrir allan sjávarútveginn og allan iðnaðinn, þetta skipti ekki miklu. En 400 millj. eru 400 millj. kr. og 200 millj. á sjávarútveginn í nýjar álögur eru 200 millj. kr. Það er svo einfalt.

Menn verða þá að skýra það út, þessir hæstv. ráðherrar, hvort þeir telji þessar greinar bera þessar hækkanir eða hvort þeir ætla að beita sér fyrir einhverjum öðrum ráðstöfunum. Hvað ætlar hæstv. iðnrh. að gera með um 30% tap á ullariðnaðinum? Ætlar hann að koma til hans og segja: Jú, ég ætla að bæta við ykkur nokkrum tugum eða nokkrum hundruðum milljóna í launaskatt? Það er eiginlega það sem ég ætla að gera til að bjarga ykkur. Hvernig líst ykkur á það? Vill ekki hæstv. iðnrh. kalla Jón Sigurðarson, forstjóra hins nýja stórfyrirtækis í ullariðnaði, fyrirtækis ríkisins, samvinnuhreyfingarinnar og fleiri aðila, á sinn fund og bjóða honum upp á að leggja á launaskatt?

Nei, það er ekki mikið samræmi í þessu, herra forseti. Svo kemur hæstv. ríkisstjórn, talsmenn hennar, hér í ræðustólinn og fullvissa alla um að það standi ekki til að hreyfa gengið. Það verði fast. Það sé hornsteinn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og eiginlega það eina sem eftir sé af þeirri stefnu því það er ekki um annað að tala. Það er bara þetta eina sem er alveg ljóst: Það verður ekki haggað við genginu. Fastgengisstefnan skal „blífa“ þó meira að segja spekingar Economist séu farnir að skrifa um að það þýði náttúrlega ekkert annað fyrir íslensku ríkisstjórnina en að fella gengið á næsta ári. (Menntmrh.: Eykonomist?) Ja, það má vera hvort sem heldur er. Ég hef ekki heyrt í þeim merka efnahagsspekingi og stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar, Eyjólfi Konráð, um þetta efni, en ugglaust hefur hann á því einhverja gáfulega skoðun eins og öðru, hvort og þá hvað mikið á að fella gengið. En tímaritið Economist, sem er sérfræðirit mikið um efnahagsmál, setur fram í sinni spágrein fyrir næsta ár, að mér skilst, þá skoðun að það sé alveg ljóst að gengi íslensku krónunnar hljóti að verða fellt á næsta ári.

Hvað um það. Ekki er ég að biðja um gengislækkun og enginn biður held ég um gengislækkun. En auðvitað verða menn að horfa raunsætt á hlutina og það gengur ekki að keyra blint í björgin í þessum efnum, að keyra áfram á föstu gengi með 30% verðbólgu innan lands og bæta svo við nýjum sköttum, nýjum álögum á þessar greinar við og við, henda í þá 1% launaskatti hér og hinu þar.

Það er alveg ljóst að sjávarútvegurinn naut þess góðæris sem ríkt hefur í landinu á undanförnum tveimur árum einkum og sér í lagi og bætti stöðu sína verulega frá því sem áður var, enda mátti við því. Í mörgum tilfellum fór sá bati allur í að laga eiginfjárstöðu fyrirtækjanna sem búið höfðu við mikið tap á undanförnum árum vegna erfiðleika í greininni, vegna aflasamdráttar á árunum 1981 og 1982 og ýmiss konar erfiðleika sem þá dundu yfir. En eftir þetta mikla góðæri og þennan mikla afla er þó staðan ekki betri en svo að nú er komið 7–9% tap í frystingunni og umtalsvert tap í allri fiskvinnslu. Ég held að ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta taka sig alvarlega, ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að telja mönnum trú um það og fá einhvern til að trúa því að hún styðjist við einhverja heildstæða efnahagsstefnu verði talsmenn hennar hér að gera grein fyrir því í hvaða samhengi þessar launaskattsálögur á útflutningsatvinnuvegina séu. Ég fer fram a að hæstv. ráðherrar, hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh., geri Alþingi grein fyrir því í hvaða samhengi þeir skoði þennan nýja launaskatt í sjávarútvegi og iðnaði. Í hvaða samhengi er hann við önnur áform hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra hvað varðar afkomu þessara greina? Eða er t.d. meiningin, hæstv. iðnrh., að láta ullariðnaðinn í landinu deyja drottni sínum og hafa af því mest litlar áhyggjur þó hann leggi upp laupana, útflutningsatvinnuvegur upp á einhverja milljarða sem skapað hefur hundruð starfa í landinu, þúsundir starfa og var um langt skeið sú grein iðnaðar sem bætti mestum mannafla við sig ár frá ári? Ég hygg að flestöll síðustu ár síðasta áratugar og fyrri hluta þessa áratugar hafi ullariðnaðurinn hvað eftir annað staðið upp úr, ullariðnaðurinn og tengd þjónusta.

En nú er annað uppi á teningnum. Ég tel að það beri að líta á það tímabil sem erfiðleikatímabil sem við þurfum að ganga í gegnum, sem við þurfum að styðja þessa atvinnustarfsemi í gegnum. Það hefur oft áður verið gert, bæði með iðnað og sjávarútveg, að hjálpa þeim greinum, þessum höfuðútflutningsgreinum yfir erfiðleikatímabil, enda hafa stjórnvöld þá haft skilning á því að þess þyrfti með og gripið til aðgerða. En það hlýtur að vera eitthvað annað en launaskatturinn sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér sem bjargræði fyrir þessar greinar. Ég tel þá rétt og nauðsynlegt að það komi hér fram. Er ætlast til þess að hv. alþm. samþykki þennan launaskatt svona, veskú, vitandi það við hvaða erfiðleika er að glíma? Ætlar hv. þm. Eggert Haukdal t.d. að rétta upp höndina með launaskattinum á ullariðnaðinn án þess að hafa nokkur svör fengið um hvað á að gera við saumastofurnar á Vík, Hellu og Hvolsvelli og hvar þær nú eru allar í hans kjördæmi, prjónastofurnar og saumastofurnar sem hafa við þær aðstæður í landbúnaðarhéruðunum verið ein sú tegund iðnaðar sem menn hafa helst horft til til að auka fjölbreytni atvinnustarfseminnar?

Nei, það er heldur aumingjalegt ef hv. þm. stjórnarliðsins ætla að rétta upp höndina og segja já og amen við þessum nýju álögum á útflutningsgreinarnar hafandi ekkert í höndunum frá hæstv. ríkisstjórn um hvað á þá að reyna að gera þessum greinum til stuðnings að öðru leyti eða á móti og hafandi líka fyrir framan sig eða vitandi af plöggum Þjóðhagsstofnunar um afkomuna, um óvissuna.

Ég tel því, herra forseti, og skal með því ljúka máli mínu, alveg óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherrar geri aðeins betur en tuða því hér út úr sér að það sé nauðsynleg samræming að leggja söluskatt á sjávarútvegs- og iðnaðargreinar á Íslandi og það þurfi endilega að velja áramótin 1987–1988 til þess.