18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

137. mál, launaskattur

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er í rauninni eitt af ákaflega mörgum svipaðs eðlis og þess vegna mætti viðhafa svipaða ræðu um þau öll. Þau ganga raunar öll út á það að herða að þjóðinni í skattlagningu. En það sem mesta athygli vekur er á hvaða aðila er helst lagt, að hverjum er helst þrengt.

Ef litið er aftur í tímann, til áranna um 1970, býst ég við að meginbreytingin í tekjuöflun ríkisins felist í þeirri staðreynd að þá voru tekjur ríkisins af tollum og aðflutningsgjöldum ýmiss konar um 51%. Þegar upp verður staðið, líklega um næstu áramót, verða þær tekjur komnar niður í 5% af tekjum ríkisins. Allt sem þarna er á milli er af öðrum tekið. Og það er sérstaklega athygli vert þessa dagana að velta því fyrir sér, miðað við hvernig menn álíta að söluskattur hafi innheimst hér á landi og líka miðað við þau áform og þær áætlanir sem hafa verið í því efni, að velta fyrir sér hve mikinn hluta menn ætla að ná í einmitt á því stigi skattheimtunnar þar sem verst hefur verið innheimtan, þar sem undanskotið hefur verið mest.

Það efni sem hér er sérstaklega til umræðu er launaskattur. Það er hækkun launaskatts. Þetta frv. er í rauninni nákvæmlega sama marki brennt og hækkunin á söluskattinum. Hækkunin á söluskattinum þýðir að það er mest þrengt að þeim í þessu landi sem síst hafa aðstöðu til að greiða. Hækkunin á launaskattinum er með sama hætti. Hann er sérstaklega lagður á þá sem á sömu dögum, sömu vikum er verið að kynna fyrir hv. alþm., fjvn. og ýmsum öðrum málsmetandi aðilum í þessu landi að standi nú frekar höllum fæti en áður. Þá er tækifærið notað til að auka álögurnar þar sérstaklega.

Lítum aðeins á athugasemdir með þessu frv. Þar segir: „Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir að fyrsta skrefið“ — takið eftir: fyrsta skrefið — „í átt til samræmingar launaskatts verði stigið nú um áramótin með því að leggja 1% launaskatt á allar atvinnugreinar sem nú eru undanþegnar launaskatti nema búrekstur. Af þessum sökum er þetta frv. lagt fram.“

Með leyfi hæstv. forseta vil ég fara svolítið nánar yfir það í hverju þessi breyting er fólgin: „Samkvæmt gildandi lögum eru auk launa fyrir landbúnaðarstörf eftirtalin vinnulaun og þóknanir undanþegin skattskyldu skv. lögum um launaskatt: 1. Laun fyrir störf hjá fyrirtækjum sem flokkast undir fiskverkun og iðnað samkvæmt atvinnuflokkun Hagstofu Íslands.“ Og það er ekki skammt seilst í þeim efnum. Í athugasemd með 1. gr. frv. er þetta nákvæmlega útlistað. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með fiskveiðum skv. 1. flokki í atvinnuflokkun Hagstofunnar er átt við úthafsveiði, veiði á grunnmiðum, veiði í ám og vötnum, fiskklak og fiskirækt svo og gæslu veiðiréttar í ám og vötnum. Hvalveiði, selveiði, rækju- og humarveiði og veiði annars skelfisks svo og perlu-, svampa- og þörungaveiði fellur einnig undir þennan flokk.“ Ekkert skal undan dregið í skattheimtunni.

Í annan stað segir í athugasemdunum: „Laun fyrir fiskirækt.“ Það er nú svo að í þessum þætti, sem í rauninni er svolítið á huldu hvort eigi að reikna til landbúnaðar eða nánast sjávarútvegs, a.m.k. hvað ráðuneytin áhrærir, hefur verið veruleg gróska hjá okkur undanfarin allra seinustu ár og þá er náttúrlega sjálfsagt að reyna að koma á skattaáþján þar eins fljótt og mögulegt er.

Í þriðja lagi segir í athugasemdum: „Laun fyrir störf sjómanna á íslenskum fiskiskipum, þar með talin störf hlutaráðinna landmanna sem innt eru af hendi í tengslum við úthald skipanna til fiskveiða.

Í frv. þessu er lagt til að greiða beri 1% launaskatt af vinnulaunum og þóknunum í starfsemi þeirra sem um getur í 1.–3. tölul. hér að ofan frá og með 1. janúar nk. Tekjuauki af launaskatti vegna þessarar breytingar er talinn verða um 400 millj. kr. á næsta ári.“

Nú er það sjálfsagt fallega hugsað að sjá ríkissjóði vel fyrir tekjum. En mig langar til í þessu sambandi að minna á að nýlega fékk ég upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um hvernig innheimta tekna ríkisins hefði gengið hér á landi miðað við áætlanir og raunar fjárlög ríkisins. Það eru afskaplega merkilegar upplýsingar. Miðað við árið 1987 er gert ráð fyrir að 10,6% muni. Það er yfir 10% sem tekjur ríkisins eru meiri en ráð var fyrir gert þegar gengið var frá fjárlögum í fyrra. Það er ekki lítil upphæð. Í fyrra var þessi mismunur miklu minni. Þá var hann 0,6%. Það var nánast að áætlanir manna í fyrra, miðað við fjárlögin 1986, stóðust. 0,6% var munurinn. Auðvitað var þetta vegna þess að þá var verðbólgan á niðurleið og þegar menn lögðu grunninn að áætlunum fyrir árið 1987 ætluðust menn til hins sama. Markið var: Verðbólgan niður fyrir 10%. En við vitum í dag nokkurn veginn í hve þveröfuga átt þar gekk. Í hittiðfyrra var þessi misvísun samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar rúmlega 7% sem verður í ár rúmlega 10% og í fyrra nánast engin.

Þetta gefur mér þá vísbendingu að þær gífurlegu skattaálögur sem núna eru hér ráðgerðar og verða væntanlega samþykktar fyrir jólaleyfi þingmanna muni sjálfsagt þýða ekki minni misvísun að þessu leyti um þetta leyti næsta árs. Ég minni á þetta vegna þess að þetta kannski í rauninni litla frv. um launaskattinn er eitt af mörgum sem hafa ber í huga í þessu efni og ekki síst vegna seinustu frétta sem við höfum fengið frá Þjóðhagsstofnun um horfurnar einmitt hjá þeim aðilum sem þessi launaskattur á sérstaklega til að taka, líka varðandi hvað verður á dagskrá hjá þessum aðilum eftir fáeinar vikur þegar gengið verður til kjarasamninga.

Um efnahagshorfurnar segir Þjóðhagsstofnun fyrir örfáum dögum eða þann 12. desember þegar ný viðhorf voru kynnt í fjvn., með leyfi forseta: „Efnahagshorfur fyrir árið 1988 hafa breyst nokkuð frá því í október.“ — Það er nú ekki lengra síðan en í október. — „Þjóðhagsstofnun vinnur nú að endurskoðun þjóðhagsspár fyrir næsta ár í ljósi þessara breytinga. Stefnt er að því að þessari endurskoðun verði lokið fljótlega eftir áramót.“ — Það er nú ekki fyrr. — „Enn ríkir veruleg óvissa um ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár fyrir árið 1988. Þannig hefur t.d. hámarksafli einstakra fisktegunda á næsta ári ekki enn verið ákveðinn. Jafnframt virðist langt í land með að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fyrir næsta ár verði gerðir.

M.a. af þessum sökum er að svo stöddu einungis hægt að fjalla í almennum orðum um þær breytingar sem hafa orðið síðustu tvo mánuði á efnahagshorfum fyrir næsta ár.“

En hversu vel sem maður les þessar hugleiðingar Þjóðhagsstofnunar kemur maður alls staðar að því sama, að það frv. sem hér er um að ræða á sér minni stoð eftir því sem tíminn líður og alveg greinilegt er að andinn í þessu frv. gengur þvert á þá hagsmuni sem þessar atvinnugreinar þyrftu einna helst á að halda að Alþingi hefði í heiðri.

Hér segir m.a., með leyfi hæstv, forseta: „Flest bendir nú til að framleiðsla sjávarafurða verði minni á næsta ári en miðað var við í þjóðhagsáætlun. Þar var reiknað með óbreyttri sjávarvöruframleiðslu frá því sem gert er ráð fyrir að hún verði á þessu ári og var það byggt á nokkrum samdrætti í afla sem talið var að breytt samsetning framleiðslunnar gæti vegið upp. Nú er ljóst að stefnt verður að mun meiri samdrætti í þorskafla á milli ára en reiknað var með í þjóðhagsáætlun. Því verður að gera ráð fyrir að sjávarvöruframleiðsla reiknuð á föstu verði dragist saman á næsta ári. Hver 20 000 tonn af þorskafla jafngilda rúmlega 1 milljarði kr. í útflutningsverðmæti eða sem svarar til um 2% af vöruútflutningi. Samdráttur þorskafla um 40–50 000 tonn gæti því þýtt 4–5% samdrátt í vöruútflutningi og 1–2% samdrátt í þjóðartekjum á föstu verði að öðru óbreyttu. Þessar tölur verður að taka með fyrirvara“, segir að vísu. „Þær eru eingöngu settar fram sem vísbending um hvert stefnir í þessu efni.“

En við þessar aðstæður finnst hæstv. ríkisstjórn alveg sérstaka nauðsyn bera til að leggja sérstaka hækkun launaskatts á þessa aðila á sama tíma sem endurgreiðsla af uppsöfnuðum söluskatti er felld niður um 50% sem í raun hefur hjá mörgum þessum fyrirtækjum verið afskaplega þýðingarmikið atriði til að halda nánast starfseminni gangandi undanfarin ár. Það þekkja flestir, sem að því hafa komið, að endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti hefur í rauninni þýtt það fyrir þessi fyrirtæki að sýslumenn og fógetar úti um land hafa á mörgum stöðum ekki lokað. Það hefur haldið kerfinu gangandi. Nú á að verulegu leyti að loka fyrir þá leið.

Hér segir nokkru síðar í umsögn Þjóðhagsstofnunar um afkomu útflutningsfyrirtækjanna almennt, með leyfi hæstv. forseta: „Afkoma útflutningsfyrirtækja hefur almennt versnað að undanförnu. Þar sem innlendur kostnaður“ — takið eftir: innlendur kostnaður — „hefur hækkað meira en verð útflutningsafurða í íslenskum krónum.“

Þá er náttúrlega alveg kjörið að nota tækifærið og leggja sérstakan skatt á þessa aðila þegar innlendur kostnaður hefur hækkað meira en verð útflutningsafurða í íslenskum krónum.

„Gengislækkun bandaríkjadollars hefur komið sér illa fyrir mörg útflutningsfyrirtæki. Þetta á ekki síst við um fiskvinnslu, einkum frystingu sem nú er rekin með verulegu tapi“, segir í þjóðhagsáætlun.

Þá er náttúrlega sérstök ástæða fyrir stjórnvöld að nota tækifærið og leggja á sérstakan launaskatt og hækka álögur á þessum aðilum í heild sem nemur um 400 millj. kr.

„Áætlað er“, segir hér hjá Þjóðhagsstofnun, „að botnfiskvinnslan í heild sinni sé nú rekin með tapi sem nemur 3-5% af tekjum. Þar af er áætlað að tap í frystingu nemi 7–9% af tekjum. Jafnframt eru aðstæður víða erfiðar í öðrum útflutningsgreinum og má í því sambandi m.a. minna á rekstrarerfiðleika ullariðnaðarins.“ Ég þekki það allvel úr því umhverfi þaðan sem ég kem að rekstrarerfiðleikar á þeim vettvangi eru verulegir. Það er verið að loka hverri stofunni á fætur annarri. Þá er náttúrlega alveg sérstök ástæða til þess hjá hæstv. ríkisstjórn að leggja á þann iðnað nýjan launaskatt, ber til þess alveg sérstaka nauðsyn. Og það verður að gera það endilega rétt áður en gengið er til launasamninga, kjarasamninga.

Síðan segir áfram í þessu yfirliti Þjóðhagsstofnunar, með leyfi hæstv. forseta: „Erfitt er að fullyrða nokkuð um stöðu innlendra framleiðslugreina sem keppa við innflutning þar sem hækkun innflutningsverðs í íslenskum krónum vegna hækkunar á gengi Evrópumyntar vegur að nokkru upp hækkun innlends kostnaðar“ — að vísu. „Jafnframt ætti samkeppnisstaða innlendra framleiðslugreina að batna við þá breytingu á vörugjöldum sem hefur verið ákveðin.“ — Þetta er líklega eina ljósa atriðið.

En í lokin vildi ég, hæstv. forseti, segja um það álit minni hl. fjh.- og viðskn., sem hér hefur verið kynnt, þar sem þeir hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 10. þm. Reykn. kynna þá skoðun sína að þeir séu andvígir því frv. sem hér er lagt til og leggja til að það verði fellt, að ég er á nákvæmlega sömu skoðun. Mér finnst flest benda til þess að stefnan sem frv. felur í sér sé röng. Þau segja í nál. að á fund nefndarinnar hafi komið fulltrúar útvegsmanna, það hafi komið þangað forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og það hafi komið vel fram hjá þessari nefnd að staða sjávarútvegsins sé slæm og horfurnar séu ekki góðar. Það hafi komið mjög vel fram nákvæmlega það sama sem ég var að leggja áherslu á í máli mínu, nákvæmlega það sama sem kemur fram í þessu yfirliti frá Þjóðhagsstofnun. Sömuleiðis segir í nál. minni hl. að ýmsar greinar útflutningsiðnaðar séu illa staddar. Þau taka fram að það sé boðaður 10% samdráttur í þorskveiðum sem gæti þýtt 1200–1400 millj. kr. brúttótekjumissi, óvissa ríki í gengismálum og vaxtakostnaður sé nú meiri en nokkru sinni. Við þetta má svo enn bæta að óvissan í stjórnmálum, sem tengjast kjarasamningum, er ekki lítil. Það er hér tekið fram að Ingi Björn Albertsson hafi setið fundi nefndarinnar, hv. 5. þm. Vesturl., og hafi verið samþykkur þessu áliti. Ég endurtek, hæstv. forseti, að mín skoðun er sú sama í þessu efni.